04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

68. mál, fræðsla barna

Sigurður Stefánsson:

Jeg vildi leyfa mjer að segja nokkur orð út af fyrirspurn háttv. þm. Barð. (H. K.). Það er ekki meining mín að breyta gildandi lögum með þessari brtt., en eftir þeim ber prestum engin sjerstök borgun fyrir húsvitjanir. Brtt. miðast eingöngu við þær ferðir, sem prestar yrðu að fara til þess að vera prófdómendur, en á engan hátt við lögbundnar húsvitjunarferðir presta, enda mundi engum presti detta í hug að gera reikning fyrir ferðakostnaði á húsvitjunarferðum.

Þetta hefði að vísu mátt taka glöggar fram í brtt., en ef það er skoðað í sambandi við það, sem stendur næst á undan í frv., skil jeg ekki, að það fái valdið misskilningi. Því þar kemur málsgrein brtt. aðeins í sambandi við störf presta við barnapróf.

Annar háttv. þm. skaut því að mjer undir umræðunum, að það væri hart, að prestar ættu að fá þennan ferðakostnað úr sveitarsjóði, og væri rjettara, að hann væri greiddur úr ríkissjóði eins og hingað til. Það kann að vera, að nokkuð sje hæft í þessu, en jeg held, að þetta yrðu aldrei nein stórkostleg útlát fyrir sveitarsjóðina, en hinsvegar rjettlátt, að prestar fái greiddan þennan ferðakostnað, því fremur sem þeir fá ekki kaup fyrir þetta starf eins og aðrir, sem að því vinna.