08.04.1922
Neðri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

68. mál, fræðsla barna

Pjetur Ottesen:

Jeg á litla brtt. við þetta frv., og þarf jeg ekki að fara mörgum orðum um hana. Öllum mun ljóst, hvað fyrir mjer vakir með henni. Hún fer ekki fram á annað en að heimangöngu- og heimavistarskólar skuli njóta sama rjettar og heimavistarskólum er ætlaður í frv.

Mjer skildist á háttv. frsm. við síðustu umr. þessa máls, að nefndin mundi vera mjer sammála um þetta atriði og að í framkvæmdinni mundi fyrirkomulagið vera nú eins og brtt. fer fram á.

Við aðra umr. gat jeg þess, að æskilegt væri, að skýrara væri tekið fram um skyldu prestanna til að hafa eftirlit með og sjá um barnafræðsluna og að þeim bæri að fara að minsta kosti tvær húsvitjunarferðir á vetri, en við nánari athugun á þessu máli áleit jeg þess ekki þörf, því skylda þeirra til þessa, bæði siðferðisleg og lagaleg, er alveg ótvíræð.

Út af því, sem háttv. 4. þm. Reykv. sagði, skal jeg geta þess, að mjer finst harla ástæðulaust að rísa upp á móti því, að prestarnir gegni þessari skyldu sinni. Það er vitanlegt, að þessi skylda hvílir á prestunum, og það er alls ekki verið að leggja þeim neinar nýjar kvaðir á herðar. Og nú eru prestarnir tvímælalaust svo vel launaðir, að ríkið á heimtingu á að fá fulla starfskrafta þeirra, og þá virðist ekki nema eðlilegt, að ríkið heimti, að þeir helgi fræðslustarfinu krafta sína jafnframt öðrum prestsstörfum meðan sambandinu milli ríkis og kirkju er haldið.

Mjer komu þessi mótmæli ákaflega undarlega fyrir, og það því fremur, að jeg man ekki betur en að sami háttv. þm. hjeldi því fram í fyrra, er rætt var um nýtt prestakall í Bolungarvík, er jeg benti á í því sambandi, hvernig prestar alment litu á aðstöðu sína til fræðslumálanna, að prestunum bæri beinlínis skylda til að hafa eftirlit með fræðslu barna. Að minsta kosti tók háttv. þm. Norður-Ísfirðinga það skýrt fram þá.

Jeg get því ekki verið fylgjandi brtt. háttv. 4. þm. Reykv., því með henni má segja, að verið sje að gera tilraun til að ljetta alveg af prestunum þeirri skyldu, sem á þeim hvílir til að hafa eftirlit með barnafræðslunni.