08.04.1922
Neðri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

68. mál, fræðsla barna

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Samkvæmt loforði til hv. þm. Borgfirðinga hefir nefndin tekið brtt. hans til athugunar og sömuleiðis borið hana undir umsögn fræðslumálastjóra. En eftir nána íhugun hefir nefndin komist að þeirri niðurstöðu, að hún geti ekki orðið þessari till. samþykk, og álit fræðslumálastjóra var á sama veg.

Jeg held, að þessi till. mundi ekki í framkvæmdinni valda mikilli breytingu frá því, sem nú er.

Þetta hefði að vísu dálítil útgjöld fyrir ríkissjóð í för með sjer, en skólarnir mundu þá líka verða betur úr garði gerðir.

Um brtt. á þskj. 197 frá hv. 4. þm. Reykvíkinga hefir nefndin ekki orðið alls kostar á eitt sátt. Jeg er henni frekar mótfallinn. Mjer virðist ekki ósanngjarnt, þó þessi kvöð sje lögð á prestana, þar sem fræðsluskyldan, sem áður hvíldi á þeim, hefir nú verið af þeim tekin í framkvæmdinni.