08.04.1922
Neðri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

68. mál, fræðsla barna

Magnús Jónsson:

Það blæs ekki byrlega fyrir þessari litlu kænu minni. Jeg býst við, að atkv. verði þung á móti, en jeg get huggað mig við það, að rökin hafa verið ljett.

Jeg neita því ekki, að þessi gömlu ákvæði, sem vitnað hefir verið í, kunni að vera í gildi enn að nafninu til, en hitt er jafnvíst, að þeim hefir verið gleymt, eða þá ekki ætlast til, að þau væru framkvæmd út í æsar frekar en verið hefir, þegar verið var að breyta prestakallaskipuninni og setja núgildandi fræðslulög. Það er hverju orði sannara, að það er hart að nota ekki prestana til fræðslu meira en gert er, en það er annað mál, hvort rjett sje samt að taka þá út úr og hlaða á þá störfum, sem ekki var tekið neitt tillit til, þegar launin voru ákveðin. Jeg veit, að það muni vera rjett hjá hv. þm. Borgf. (P. O.), að hægt sje að knýja það fram að borga ekki fyrir störf samkv. tilskipuninni frá 1746, en þar með er ekki sagt, að það sje sanngjarnt. Og það, sem hann var að vitna í, að hreppsnefndir ynnu kauplaust, þá kom það þessu máli ekki við. Starf þeirra er borgaraleg skylda, sem kemur jafnt niður á presta og aðra, enda veit jeg ekki betur en að prestar hafi mjög oft verið í hreppsnefndum og unnið þar kauplaust eins og aðrir.

Háttv. þm. Barð. (H. K.) sagði, að jeg væri að berjast fyrir mína stjett. Þetta er nú ekki alveg mín stjett, og ekki getur það, sem hjer um ræðir, neitt komið við mig. Sami hv. þm. var að fárast yfir því ef prestar ættu að fá ferðakostnað innan síns umdæmis. En hvernig er um læknana? Þeir fá nú líka háa borgun fyrir hvert verk auk ferðakostnaðar. Það er litið svo á, að þeir fái nokkurn hluta launa sinna á þennan hátt, og þó hafa læknar miklu hærri föst laun en prestar, og auk þess fá prestar ekki fulla dýrtíðaruppbót. En samt finst mönnum hneyksli, að prestar fái ferðakostnað greiddan fyrir að sinna aukastörfum.