08.04.1922
Neðri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

68. mál, fræðsla barna

Hákon Kristófersson:

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) nefndi læknana til samanburðar við þau störf, sem þetta frv. leggur á prestana. En það er alt annað. Læknar verða að fara að heiman hvernig sem á stendur og í hvaða veðri sem er hvort heldur er á nótt eða degi. Því skal jeg þó ekki neita, að mjer þætti sanngjarnast, að læknar fengju enga aukaborgun fyrir ferðalög eða annan starfa sinn. Þeir sem aðrir embættismenn ættu að hafa sín árslaun og ekki meira.

Þá veit jeg það eins vel og hann, að prestar eru oft í hreppsnefnd, og þurfti hann ekki að fræða mig á því. Annars verður hv. deild að meta rök okkar beggja. Það er ekki hans verk eins.

Það vil jeg þó taka fram, að það er síður en svo, að jeg vilji fara lakar með presta en aðra embættismenn, en jeg vil láta hæfileika þeirra koma sem allra best að notum og að þeir vinni sem mest og best.