08.04.1922
Neðri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

68. mál, fræðsla barna

Björn Hallsson:

Jeg tók það fram, þegar frv. um frestun á framkvæmd fræðslulaganna frá fjvn. var hjer til umr., að jeg teldi þetta frv. vera til allmikilla bóta. Fræðslulögin eru hjer rýmkuð fyrir þá, sem geta sjeð börnum sínum fyrir fræðslu í heimahúsum, og að prestar og fræðslunefndir hafi eftirlit með þeirri fræðslu.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) er hjer á ferð með lítinn bát, sem hann kallar svo, og er hann hræddur um, að skel sú eigi erfitt uppdráttar. Mig furðar nú ekkert á því, þó óbyrlega blási fyrir þessari kænu hans, því eðlilegast er, að prestum sje ekkert greitt fyrir þetta eftirlit með barnafræðslunni. Þeir eiga að hafa það á hendi samkvæmt lögum og geta auðveldlega sameinað það öðrum aukastörfum sínum. Þeir þurfa oft að ferðast um prestaköll sín, og geta eflaust oft sameinað þetta eftirlit við þær ferðir, án þess því fylgi nokkur aukakostnaður. (M. J.: En prófin?).

Ekki fæ jeg heldur sjeð, að ástæða sje til að breyta frv. að því er prófin snertir. Það er svo ákveðið í 3. gr. frv., að ef um víðlend prestaköll er að ræða, þá er heimilt að skipa þar sjerstaka prófdómara. Með þessu ákvæði sýnist mjer fyrir það girt, að prestamir hafi tilfinnanleg óþægindi af þessari kvöð. Þar sem til dæmis samsteypuprestaköll eru, er heimild til að skipa prófdómara í fjarlægustu hreppunum. Hinsvegar eru prestarnir ekkert of góðir til að vera prófdómarar án sjerstakrar borgunar í þeim hreppum, sem þeir eru búsettir í. Sama máli er að gegna um fjölmenn kauptún. Þar er líka hægt að skipa prófdómara, ef þörf er á. Sje jeg því ekki neitt að athuga við það, þó þessi ákvæði standi óbreytt. Bátur hv. 4. þm. Reykv. má því gjarna steyta á skeri.

Jeg ætla ekki að blanda mjer í deilur þeirra háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og hv. þm. Borgf. (P. O.). Vil jeg aðeins geta þess, að mjer finst enginn voði á ferðum, þótt till. hv. þm. Borgf. verði samþykt, og mun jeg greiða henni atkvæði.