11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

68. mál, fræðsla barna

Pjetur Ottesen:

Mjer þykir háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gera nokkuð mikið úr því, hve mjög brtt. á þskj. 208 rýmki um skólaskylduna, ef samþykt verður. Fræðslumálastjóri hefir nú veitt undanþágur í sömu átt, og yrði því engin breyting á framkvæmdum. Auk þess væri þetta ávalt reglu gerðaratriði, sem stjórnarráðið þarf að samþykkja.

Jeg tel þessa breytingu mjög áríðandi líka í þorpum. Það gerir hægra fyrir um að flokka börnin, og er hollara að þurfa ekki að bæla þau á skólabekkjunum hvern dag í 6 mánuði. Og það, sem jeg sagði um heimafræðsluna í sambandi við þessa brtt. hjer áður, á vissulega víðar við en í sveitunum. Það á að minsta kosti engu síður við þar, sem kauptún eru sem kallað er milli sjós og sveita, enda þótt háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) segði, að þau ættu ekki við nema um sveitirnar.

Sami háttv. þm. (J. Þ.) var að tala um, að svo svo mörgum farskólum mundi verða breytt í fastaskóla, og útgjöld ríkissjóðs til barnafræðslunnar þar af leiðandi aukast mjög, ef brtt. yrði samþykt. Þó segja megi, að bein útgjöld farskólahjeraðsins til kennarans aukist ekki að mun við þessa breytingu, þá kemur þar annað til greina, sem sje það, að til þessa þarf að reisa barnaskóla, og það ef til vill fleiri en einn innan sama farskólahjeraðsins, þar sem strjálbygt er, því ilt er og jafnvel óforsvaranlegt að láta börnin sækja skóla um langan veg þar, sem svo er ástatt. Þetta mundi hafa allveruleg útgjöld í för með sjer fyrir fræðsluhjeruðin, og jeg veit það, að háttv. 3. þm. Reykv. er svo byggingafróður maður, að honum ætti að vera það allra manna ljósast, að svo er. Það er því áreiðanlega óhætt að samþykkja brtt. þess vegna, að þetta mundi ekki auka mjög útgjöld ríkissjóðs.

Hitt er einmitt sanni nær, ef fræðsluhjeruð breyttu til í þessu efni, að þá mundu þau heldur koma upp heimavistarskólum, en þeim ætlar frv. þá fjárhagsaðstöðu, sem brtt. fer fram á að heimangönguskólarnir einnig njóti. Verður ekki með neinum rökum mælt í gegn sanngirni þess.