11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

68. mál, fræðsla barna

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg er hræddur um, að till. háttv. þm. Borgf. (P. O.) kynni að geta valdið misskilningi. Það hefir áður verið talin 24 vikna kensla, þótt kent væri aðeins annan hvern dag og hvert barn fengi því aðeins 12 vikna kenslu. Með sama rjetti mætti þá telja 12 vikna kenslu annan hvern dag nægilega eftir brtt. hans, en þá fengi hvert barn aðeins 6 vikna kenslu. Nú er þetta víst ekki tilgangur hans, en þá er brtt. líka óþörf, þar sem lögin hafa verið framkvæmd á þennan hátt þar, sem staðhættir hafa mælt með. En ef það er tilgangurinn að koma sem víðast á annars dags skólum í þorpum og kauptúnum, þá efa jeg, að það sje rjett stefna. Jeg hygg, að engu síður geti komið til mála að stytta daglegan skólatíma barnanna, ef álitið er, að skólasetan sje svo mikil og hún hafi spillandi áhrif á heilsu þeirra og þroska.