21.04.1922
Efri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

68. mál, fræðsla barna

Forsætisráðherra (S. E.):

Enginn vafi leikur á því, að alþýðumentunin er eitt af þýðingarmestu málum þjóðarinnar, og er því skylt að vanda til þeirra breytinga, sem gerðar eru í slíkum málum. Því er nú ekki að neita, að á þessu þingi hafa komið fram tillögur til breytinga, sem mjög hafa verið óundirbúnar. Við frumvarp það, sem hjer liggur fyrir, er það eftirtektarvert, að breytingarnar, sem ráðgerðar eru í því á núgildandi lögum, miða allar að því að draga úr alþýðufræðslunni. Lágmark hins árlega fræðslutíma er fært úr 24 vikum í 12 vikur, svo lágmarkið getur í raun og veru orðið 6 vikur, ef sú venja helst áfram að heimila skóla annanhvern dag, þannig, að skólatíminn reiknast eins og skólinn hefði staðið á hverjum degi, ef börnin læra aðeins heima hjá sjer einnig þann daginn, sem þau ekki fara í skólann; þá má einnig stytta 4 ára fræðsluskylduna um 2 ár.

Mjer blandast eigi hugur um, að með þessari breytingu er allfast ráðist á alþýðumentunina. — Jeg átti tal um þessa breytingu við fræðslumálastjóra í dag, og taldi hann hana mjög varhugaverða. Söm mun vera skoðun kennaranna við kennaraskólann, sem fyrir ýmsra hluta sakir allra manna mest og best skilja þessi mál. Það hafa komið bæði hjer og í háttv. Nd. fram raddir um það, að prestarnir gætu tekið mikið af fræðslunni í sínar hendur. En rjett held jeg væri að athuga það, að nú eru prestaköllin orðin ærið stór, og hálfhræddur er jeg um, að misbrestasamt yrði með kensluna, ef prestarnir verða að bæta henni ofan á sín störf. Menn mega ekki sjá þetta í altof miklum hillingum. — Alveg sama máli er að gegna um heimafræðsluna, því að víða er svo háttað, þó að þekking sje nægileg á heimilunum til þess að uppfræða börnin, þá vantar alveg tíma til þess, svo búast má við, að það verði fyrir þá sök vanrækt.

Einnig eru líka allmörg heimili, sem vantar öll skilyrði til þess að geta sjeð börnum sínum fyrir fræðslu. Afleiðingin af því að varpa öllu á heimilin með fræðsluna yrði sú, að ríkari heimilin fengju sjer kennara og hefðu á eftir ef til vill ágæta fræðslu fyrir sín börn, en fátækari börnin sætu á hakanum. Og þá er ver farið en heima setið.

Í frv. því, sem hjer er um að ræða, er að vísu aðeins heimild til að stytta fræðslutímann. En það er vitanlegt, að mjög náið samband er á milli fræðslunefnda og hreppsnefnda víðast hvar. Mætti því búast við, að á þessum erfiðu tímum yrði meira hugsað um sparnaðinn en þá hlið málsins, sem að alþýðumentuninni veit. Og þegar það ennfremur er athugað, hversu rík tilhneiging hefir altaf verið til þess að vanrækja þessi lög, þá er sýnilegt, að með því að fara að slaka til á kröfunum er alþýðufræðslunni stefnt í hreinasta óefni, því að það er altaf hægara að slaka til á klónni en að koma öllu aftur í rjett horf.

Þetta mál þarf mjög nákvæmrar rannsóknar við, og jeg vil benda á, að milliþinganefndin, sem athugaði skólamál landsins yfirleitt, komst ekki að þeirri niðurstöðu sem frv. gerir ráð fyrir.

Enn má geta þess, að frv. þetta, sem kom frá háttv. mentamálanefnd Nd., varð þar í deildinni fyrir svo snöggum breytingum, að aðalformælendur þess, háttv. 1. þm. N.-M. og háttv. 3. þm. Reykv., greiddu að lokum atkvæði gegn því út úr deildinni, af því að þeir töldu um of vera dregið úr alþýðumentuninni, ef frv. yrði samþykt í þessari mynd.

Jeg vil því, að þessu athuguðu, mælast til þess, að nefndin vilji fallast á, að málið verði tekið út af dagskrá, til þess að fræðslumálastjóri geti fengið tök á því að tala við nefndina og koma með athugasemdir sínar. En ef nefndin sjer sjer eigi fært að verða við þessum tilmælum mínum, þá mun jeg til næstu umr. koma með brtt., sem gangi í þá átt, að heimildin nái aðeins til sveitarfjelaga. Jeg er sammála fræðslumálastjóra um það, að það sje ennþá skaðlegra fyrir börnin í kauptúnunum, að skólavistin verði stytt, því skólaveran heldur börnunum frá sollinum, og allir sjá, hve mikils virði það er.