21.04.1922
Efri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

68. mál, fræðsla barna

Halldór Steinsson:

Jeg skil ekki, hversvegna frumvarp þetta mætir svona mikilli mótspyrnu hjer í þessari háttv. deild, því að breytingar þær, sem það gerir á núgildandi fræðslulögum, eru ekki miklar. Aðalbreytingin er fólgin í því að koma meira valdi undir skólanefndir en verið hefir, og það tel jeg mesta kost frv., því að síðan skólamálin komust undir hatt stjórnarinnar hefir þeim verið miklu ver stjórnað en meðan skólanefndirnar höfðu mestu ráðin.

Þá er önnur hlið þessa frv., sparnaðarhliðin, og er hún alls eigi svo þýðingarlítil, því að það er alkunnugt, að útgjöldin til barnafræðslunnar eru víða orðin svo mikil, að hjeruðin ætla alveg að sligast undir þeim. Er því ekki nema eðlilegt, þó að sumir hreppar hlýðnist ekki lögunum, þar sem þeir geta alls ekki risið undir þeirri gjaldabyrði, sem af þeim leiðir.

Jeg er því eindregið á þeirri skoðun, að rjett sje að slaka til á lögunum í 1–2 ár, því jeg geri ekki ráð fyrir, að það standi lengur en þangað til tillögur milliþinganefndarinnar komast í framkvæmd.

Þá talaði hæstv. forsrh. (S. E.) um það, að hann hefði talað við ýmsa kennara um þetta mál, og þeir lagt á móti því. En jeg fyrir mitt leyti legg ekki mikið upp úr þeirri mótbáru, því að málið snertir svo kennarana sjálfa, að jeg tel þá alls ekki fullgilda dómara í þessu efni.