22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Guðmundsson:

Jeg hafði ætlað mjer að segja fáein orð um sendiherrann og vil þá byrja að lýsa því yfir, að jeg er sama sinnis sem áður um það mál; jeg álít hann nauðsynlegan. Þykist jeg mega ætla, að mjer verði ekki borið á brýn, að jeg mæli þar án sannfæringar, því að jeg er ekki þektur að því að bruðla með landsfje.

Af reynslu þeirri, sem jeg hefi fengið síðan sendiherrann tók við starfi sínu þá er það álit mitt, að engin stjórn, hver sem hún er, geti verið án þess að hafa sendiherra búsettan í Kaupmannahöfn. Og hvað þann sendiherra snertir, sem við höfum nú, þá eru allir á sama máli um það, að hann sje starfi sínu vaxinn. Hann er ágætum hæfileikum búinn, áhugasamur maður og fylgist vel með í verslunarheiminum. Það kemur þráfaldlega fyrir, að hann símar eftir skýrslum og útvegar nauðsynlegar upplýsingar um markaðshorfur. Þetta getur hann því aðeins gert, að hann er kaupsýslumaður í eðli sínu og hefir opin augun fyrir öllu því, sem land og þjóð hans varðar. Kemur þetta sjer vel, einkum hvað danska kaupsýslumenn snertir, sem kunnir eru að því að breiða út misjafnar fregnir eins og búast má við, því þeir líta með sínum augum á silfrið.

Þó að ýmsum hrjósi hugur við upphæð þeirri, sem fer til sendiherrans, þá ber líka á hitt að líta, að það getur sparað ríkissjóði mikil útgjöld að hafa mann búsettan í Kaupmannahöfn. Jeg skal t. d. benda á ferðina til Spánar og aðra ferð, sem liggur við borð að hann fari áður en langt líður: á fjármálafundinn í Genova. Það er margfalt ódýrara að ferðast frá Kaupmannahöfn, tekur langt um skemri tíma, heldur en hjeðan að heiman. Allar sendiferðir hjeðan úr landi hljóta að verða svo langt um dýrari vegna dagpeninganna. Þegar enska lánið var tekið, sparaði hann okkur sendimann að heiman, og til Noregs og Svíþjóðar hefir hann farið á síðasta ári. Og þó að ferðir þessar hafi kostað dálítið, þá er það þó hverfandi í samanburði við það, sem annars hefði orðið að greiða sendimönnum hjeðan að heiman.

Því hefir verið haldið fram, að upphaflega hafi launin verið sett nógu há, og þessi 12 þúsund því sæmileg borgun. En þetta er nú satt og ekki satt. Honum var kunnugt, þessum manni, er hann tók við sendiherrastöðunni, að launin myndu skamt hrökkva, en hann taldi sig hinsvegar hafa ráð á því þá að leggja mismuninn í sölurnar. Nú hafa ástæður hans breyst, svo hann telur sig neyddan til að leggja niður starfið, nema því aðeins, að hann fái viðunandi launaviðbót. Að vísu viðurkennir hann, að engin lagaleg skylda sje fyrir hendi af hálfu Alþingis að hækka launin, og það viðurkenni jeg líka. En okkur er nauðsynlegt að hafa hann þarna, stjórnin getur ekki án hans verið, og titilinn verður hann að hafa. Honum er sendiherratitillinn nauðsynlegur til þess að geta haft aðgang að hverjum sem er. Þetta vita þeir menn, sem ferðast hafa í útlöndum, svo um það þarf ekki að deila. En það er einmitt vegna titilsins, sem hann hefir verið nefndur „tildurherra“ og öðrum ónefnum, sem lítill heiður er Íslendingum að hampa á Alþingi.

Annars gladdi það mig, að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) er kominn á þá skoðun, að þennan lið megi ekki lækka eða fella niður. Hann hefir þó, eftir því sem mig minnir, verið á móti þessu máli áður.

Jeg heyrði ekki vel það sem hæstv. fjrh. (Magn.J.) var að tala um 7. gr., en mjer skilst, að honum þyki vextir og afborganir of lágt reiknað, og í sama strenginn tók hv. þm. N.-Ísf. (S.St.). En hitt skil jeg ekki, hvernig háttv. þm. N.-Ísf. fær það út, að gengismunurinn nemi 3 miljónum króna. (S.St.: Jeg misnefndi mig). Nú, jæja, þá sleppi jeg því.

En jeg trúi því, að gengið verði komið í lag áður en þarf að greiða afborgunina 1923, og þá niðurstöðu byggi jeg á því, sem lagfærst hefir á árinu 1921. Skýrslurnar bera með sjer, að borgast hefir af lánum 10 miljónir króna á árinu. Jeg hafði ekki búist við svo góðri útkomu, en tölurnar bera það með sjer.

Það er ekki rjett hjá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.), að frá þessu eigi að draga enska lánið, því bankarnir hafa tekið það með í sínum reikningum.

Eftir því sem jeg hefi hlerað hjá viðskiftamálanefnd, þá mun hún vera komin að þeirri niðurstöðu, að það sjeu 5 miljónir króna, sem íslenskir kaupsýslumenn skulda erlendis og ekki er samningum bundið eða hægt að semja um, og þessvegna muni þurfa að taka lán hið bráðasta, til þess að greiða þennan mismun. En jeg vil að bankarnir taki þetta lán, enda ætti þeim að vera það innan handar og það ætti ekki að vera nema til ársloka, því þær vonir ætti að mega gera sjer, að upphæð þessi greiddist á árinu og þá ætti gengið að ná sjer. Þegar þessar 5 miljónir, sem eru að flækjast einhversstaðar úti í heimi og gera truflun í viðskiftalífinu, eru úr sögunni, þá á okkar króna að hækka.

Þessvegna geri jeg ekki ráð fyrir, að 1923 verði okkur hættulegt, ef varlega er farið. Jeg er miklu hræddari við yfirstandandi ár og þá fjárhagsörðugleika, sem við eigum nú við að stríða.

Þá skal jeg snúa mjer með fáeinum orðum að þeim brtt., sem liggja fyrir, og verð jeg þá að segja, ef það verður ofan á að fella niður allar verklegar framkvæmdir, þá eru fjárlögin leiðinleg lög. (Gunn. S.: Heyr!). Það er sorglegt, ef til slíkra örþrifaráða verður að grípa, þó jeg hinsvegar viðurkenni viðleitni háttv. fjvn. á því að skila fjárlögunum frá sjer hallalausum eða hallalitlum. Og sárast er mjer um fjárveitingarnar í 13. gr., ef þær verða feldar niður að meira eða minna leyti.

Um flutningabrautirnar er það að segja, að jeg saknaði úr upptalningu hæstv. atvrh. (Kl.J.) brautarinnar í Skagafirði. Mjer er kunnugt um, að líkt stendur á með hana og Biskupstungnabrautina í Árnessýslu. Hún endar í ófæru og þyrfti 1923 að vera komin á þann stað, að hún geti orðið hjeraðsbúum að gagni. Þessvegna furðar mig á því, að vegamálastjóri skuli ekki hafa tekið þessa braut upp í till. sínar, því honum hlýtur þó að vera kunnugt, engu síður en mjer, hvernig hagar til með hana. Og það var fastmælum bundið áður en jeg fór úr stjórn, að unnið skyldi í þessum vegi í sumar, og krefst jeg, að það sje haldið.

Mjer finst undarlegt, eins og hæstv. atvrh. (Kl.J.) benti á, að fella niður styrk til landssjóðsveganna og annara þjóðvega en auka fjárveitingu til akfærra sýsluvega og fjallvega.

Annars vona jeg, að háttv. þdm. sjái einhver önnur ráð en að fella niður vegina, enda geri jeg ráð fyrir að háttv. fjvn. setji þetta í samband við till. sínar um barnafræðsluna, og ætti það því að geta orðið stuðningur þeim till., ef vegirnir yrðu ekki feldir niður.

Um símana er svipað að segja og vegina, að það er hart að þurfa að fresta þeim um óákveðinn tíma. Og jeg get vel skilið, að háttv. þm. Barð. (H.K.) þyki hart að fella niður Búðardals og Króksfjarðarneslínuna. Það er búið að margveita fje til þessa síma, og verður því að álítast brigðmæli hjá þinginu, ef hann verður feldur nú, enda var rjett eftir mjer haft, að jeg hafi sagt, að sú lína ætti að ganga fyrir öðrum.

Þá mintist hæstv. atvrh. (Kl.J.) á loftskeytastöðina á Síðu og sagði, að með henni yrði horfið frá því að leggja símalínu austur sandana sunnanlands til Hornafjarðar. Þetta er rjett, enda gert með ráði landssímastjórans, sem telur óþarft að tengja saman landssímann svo að hann nái umhverfis landið Þegar þessi samtengingarlína var ákveðin, átti hún að leggjast með það fyrir augum, að aldrei yrði sambandslaust við Seyðisfjörð og útlönd. Nú er hvorttveggja, að lína þessi myndi kosta offjár, og væri þó alls ekki trygg eftir kunnugra manna sögn, en við Seyðisfjörð er aldrei sambandslaust nema einn til tvo daga í einu, svo að telja má, að samband það, sem við höfum nú við útlönd, sje viðunandi. Aftur á móti er ekki nema rjettlátt, að þessi loftskeytastöð komist upp, þó segja megi, að hún geti kannske beðið eitt ár enn.

Hæstv. atvrh. (Kl.J.) mintist líka á vitana og sagði, að meiri tekjur væru af þeim en til þeirra væri lagt. Þetta er samt ekki allskostar rjett, því á síðustu árum hefir verið varið miklu meira til þeirra en tekjur þeirra eða vitagjaldið hefir numið. T. d. var árið 1920 veitt til vitanna upp undir ½ miljón króna, en vitagjaldið varð það ár nálægt 150 þús. króna og árið næsta á undan varð það nokkru minna, en hlutföllin lík. Annars mætti skoða þessa fjárveitingu til vitanna einskonar lán, sem þeim er ætlað að endurgreiða á sínum tíma.

Viðvíkjandi sambandslaganefndinni, þá vil jeg taka það fram, að eftir því, sem jeg best veit, þá munu engir samningar liggja fyrir um neina ákveðna borgun til nefndarmannanna. En hafi einhverjir samningar verið gerðir um þetta mál, þá hafa þeir farið fram síðast á árinu 1918 eða öndvert ár 1919. Að vísu líta sumir svo á, að greiðsla þessi sje orðin samningsbundin, og miða það við það, að nefndarmennirnir hafa fengið ákveðna borgun þessi ár, 1919–1921. En um þetta má þrátta, og jeg fyrir mitt leyti efast mjög um, að greiðsla þessi eigi að skoðast samningsbundin. Það getur þá komið fyrir dómstólana, vilji nefndarmennirnir halda kröfum sínum til streitu.

Það er satt, að þóknunin til yfirskattanefnda hefir orðið of lág hjá mjer, þó að hinsvegar sje óvíst, að hún sje nógu hátt áætluð hjá nefndinni. En af því að þetta er það eina sem hv. fjvn. hefir haft út á mína áætlun að setja, þá þarf jeg ekki að taka mjer það nærri og get því látið úttalað um það.

Jeg sje að háttv. fjvn. hefir felt niður athugasemdina við lækninn á Vífilsstöðum. Að vísu skal jeg viðurkenna, að væri hjer um nýtt atriði að ræða, þá væri ekki rjett að hafa athugasemdina í fjárlögunum. En hjer liggur einmitt fyrir gamall samningur milli læknisins og heilsuhælisstjórnarinnar, um að læknirinn fengi eftirlaun eftir sömu reglum og aðrir embættismenn ríkisins. Má því líta svo á, að samningar þessir hafi gengið yfir á ríkið þegar það tók við hælinu. Væri þetta nú felt að þessu sinni, mætti líta svo á, að læknirinn ætti ekki að fá eftirlaun. Þessvegna er betra að fá skýlaus ummæli Alþingis um þetta atriði.

Um 15. brtt. við 12. gr. er það að segja, að þó hún virðist meinlaus, þá felur hún talsvert mikið í sjer. Eigi að fella þetta niður, þá getur farið svo, að það hafi slæm eftirköst og talsverða hækkun í för með sjer. Og vil jeg þá í sambandi við það benda á, að síðasta ár urðu það 150 þús. króna, sem ríkissjóður greiddi í meðgjöf með sjúklingum, sem sveitarsjóðir kostuðu á sjúkrahúsum. Það er því engin smáræðisfúlga, sem ríkissjóður leggur til sjúkrahúsvistar manna.