15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

58. mál, atvinna við siglingar

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg hefi fátt eitt að segja til viðbótar því, sem í greinargerðinni fyrir frv. stendur, þó vil jeg fylgja frv. úr hlaði með nokkrum frekari skýringum.

Aðalbreytingar á gildandi lögum, sem frv. þetta fer fram á, eru þrjár. 1. Lenging siglingatímans. 2. Rýmkun rjettinda smáskipaprófsmanna úr 30 upp í 60 smál. skip. 3. Burtfelling undanþáguákvæða 16. gr.

Ástæðan til breytinga þeirra, sem frv. fer fram á á 2. kafla laga nr. 42, 3. nóv. 1915, er eins og fram er tekið í greinargerðinni, að stór vöntun er á hæfum mönnum til þess að stunda skipstjórn á lóðaveiðaskipum, sem eru yfir 30 rúmlestir að stærð. Ástæður til þessarar vöntunar eru tvær. Fyrst sú að þeir, sem hafa fengið rjettindi til að vera skipstjórar á þessum skipum, þ. e. þeir, sem hafa fiskiskipstjórapróf, fara að prófinu loknu á stærri skipin, einkum togarana, því þar er vonin um að komast að góðri og arðvænlegri lífsstöðu mest fyrir þessa menn, enda sæmilegt hverjum dugandi manni að leita sjer sem mestrar fullkomnunar, hverjum í sínum verkahring, og fyrir það sem fleira á sjómannastjettin okkar alþjóðarþökk. Þó nú einhverjir fiskiskipstjóraprófsmenn hafi af og til tekið að sjer stjórn á lóðaveiðaskipum yfir 30 rúmlesta, þá hefir það reynst útgerð þessara skipa óhappasælt, og er ástæðan sú, að þessir menn, þótt dugandi sjómenn sjeu margir hverjir, hafa í flestum tilfellum verið lítt vanir lóðaveiðum, og því eðlilega mishepnast veiðiskapurinn, samanborið við smáskipaprófsmennina, svo og vegna þess að ekki er ósennilegt, að til þessarar skipstjórnar hafi ekki valist efnilegustu og duglegustu fiskiskipstjóraprófsmennirnir, heldur einmitt þeir, sem minni höfðu líkurnar til að standa framarlega í þeirri samkepni um skipstjórastöður á stærri skipum, sem óneitanlega er og verður þessara manna milli, þar sem 20–30 menn taka árlega fiskiskipstjórapróf við stýrimannaskólann hjer í Reykjavík.

En fyrst og fremst verður í þessu máli að líta á nauðsyn þessa atvinnuvegs lóðaveiðanna. Og atvinnuvegurinn krefst þess, að skipstjórn á lóðaveiðaskipum stundi þeir menn einir, sem vanir eru lóðaveiðum og þekkingu hafa á þeim veiðiskap; með því móti gefur atvinnuvegurinn það, sem allir óska og þarfnast, en það er aukin framleiðsla án aukins tilkostnaðar. Ýmsar raddir hafa heyrst um það, að með því að gefa smáskipaprófsmönnum leyfi til að vera skipstjórar á 30–60 smálesta skipum sjeu rjettindi fiskiskipstjóraprófsmanna skert að miklum mun. Þetta er að því leyti rjett, að fleiri verða til samkepni um skipstjórastöðu á 30–60 rúmlesta skipum, en að hinu leytinu rangt, því þeir halda eftir sem áður rjettindum til að vera skipstjórar á þessum skipum.

Því er að vísu haldið fram af flestum, að þeir menn, sem meira hafa lagt í sölurnar til mentunar sjer og meiri bóklega þekkingu hafa öðlast, eigi að hafa forrjettindi til atvinnu fram yfir hina, sem minni bóklega þekkingu hafa. Oft er þetta rjett, en hjer á það þó ekki við.

Hjer er sem sje um það að ræða, að hægt sje að reka þennan atvinnuveg, lóðaveiðarnar, með sem mestum hagnaði, og auðvitað líka með fullu öryggi sjómannanna og skipanna, en að því mun jeg víkja síðar.

Með því að færa rjettindi smáskipaprófsmanna upp í 60 smálestir er lóðaveiðaútveginum unnið stórgagn. Með því er það trygt, að völ verður á nógum hæfum og veiðiskapnum alvönum skipstjórum. Það er ekki síst í veiðiskap, að staðgóð verkleg kunnátta er nauðsynleg, samfara þekkingu á fiskimiðum, fiskigöngum og fiskilagi á hinum ýmsu stöðum.

Það er t. d. algengt, þótt vel aflist á lóðir, að lítill eða enginn fiskur fæst á haldfæri eða í botnvörpu á sömu stöðum og sama tíma, og þótt haldfæraafli sje góður, þá fæst lítill afli á lóðir, og þótt vel aflist í net og botnvörpu, fiskast lítið á lóðir og haldfæri.

Það er líka af þessum ástæðum, að bestu þilskipa (haldfæraveiða) formenn eru ónýtir lóðaveiða formenn. Það var oft í daglegu tali kallað, að góðum formönnum „mishepnaðist“, þegar þeir breyttu um veiðiaðferð, en ástæðurnar til þessarar „mishepni“ eru nú orðið hverjum manni augljósar og eðlilegar.

Það væru því herfileg mistök, ef Alþingi, fyrir ímynduð forrjettindi fárra einstaklinga, löghelgaði þessar “mishepnanir“.

Hitt eru allir sammála um, að nauðsynlegt og sjálfsagt sje, að þeir menn, sem skipstjórn er falin, hafi þá bóklegu þekkingu, sem nauðsynleg er til þess, að öryggi skipverja og skipa sje fyllilega trygt undir þeirra stjórn. Besta sönnunin fyrir því, að þetta frv. hafi inni að halda slíkar öryggisráðstafanir, eru meðal annars ummæli hr. Sveinbjarnar Egilsonar í blaðagreinum, er hann reit nú fyrir skömmu, og þá ekki síst það, að hr. skólastjóri Páll Halldórsson er samþykkur þeim breytingum á siglingaatvinnulögunum, sem frv. fer fram á. Um síðasta kafla þessa frv. nægir að vísa til greinargerðar skólastjórans.

Að lokinni þessari umræðu óska jeg frv. vísað til sjávarútvegsnefndar.