07.04.1922
Efri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

58. mál, atvinna við siglingar

Karl Einarsson:

Þetta frv. var borið fram af nokkrum mönnum í háttv. Nd. og þar fór það til sjávarútvegsnefndar. Nefndin hjer í deildinni fjekk frv. til meðferðar eftir 2. umr. í Nd. og lagði þá til nokkrar breytingar, sem síðan náðu fram að ganga þar. Af þessum orsökum álít jeg óþarfa að vísa málinu til nefndar hjer, því að það hefir verið athugað af sjávarútvegsnefnd, og hefir hún nú ekkert við það að athuga. Jeg vil geta þess, að prentvilla hefir slæðst inn í 4 gr. frv. Þar stendur 12 rúmlestir, en á að vera 60 eins og stendur í frv. sjálfu. Jeg hefi getið um þetta við skrifstofustjóra, og verður það leiðrjett.