22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (S. E.):

Það mun eigi farið mörgum orðum um þetta mál af stjórnarinnar hálfu, enda skal jeg, hvað mig snertir, játa, að jeg hefi enga löngun til þess, og álít það auk þess þýðingarlaust.

Hin sögulega hlið málsins hefir verið rakin í nefndarálitinu, og skal jeg ekki fara mörgum orðum um hana.

Jeg ætla aðeins að minnast á þær leiðir, sem reyndar hafa verið síðan sendinefndin fór til Spánar. Í fyrsta lagi hefir verið reynt að semja á þeim grundvelli, að bannlögin hjeldust óbreytt. En er það fjekkst eigi, var reynt að fá eins árs frest. Ástæðan, sem stjórnin færði fram, var sú, að þjóðin yrði að fá að greiða atkvæði um málið, ekki úrslitaatkvæði, heldur væri hún eingöngu spurð um vilja sinn, en svo kæmi til úrslita á þingi 1923. — En er því var einnig neitað, var reynd 3. leiðin, sem aðrar þjóðir hafa reynt, en það var, að ríkið skuldbindi sig til að kaupa ákveðið magn af víni, gegn því, að lögin fengju að haldast óbreytt.

Árangurinn af öllum þessum tilraunum hefir eingöngu orðið sá, að við höfum fengið árs-„suspension“.

Fyrir mitt leyti get jeg ekki sjeð annað en að stjórn og þing hafi reynt allar leiðir til þess að bjarga málinu við, þótt eigi hafi tekist betur en raun er á orðin. Stjórnin vill því ekki taka á sig þá ábyrgð að mæla á móti frv., heldur mælir með, að það gangi fram.

Jeg finn ástæðu til að þakka háttv. viðskiftamálanefnd fyrir samstarf hennar við stjórnina, og þótt nokkurs mismunar hafi kent í skoðunum, hafa menn reynt að kveða hann niður og koma fram sem ein heild, og vona jeg, að þjóðin muni meta það að makleikum.