22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sveinn Ólafsson:

Hv. frsm. (M. J.) hefir nú reifað þetta mál allítarlega og af alvöru, eins og við á, en einnig af nokkrum fjálgleika, svo sem siður hans er. Um margt í ræðu hans er jeg honum sammála, en ýmislegt hefir okkur þó borið í milli, en þó er það ekki meira en svo, að við gátum að lokum báðir fylgt þessu frv., sem hjer liggur fyrir.

Samvinnunefnd viðskiftamála hefir óskift horfið að því ráði að flytja frumvarp það, sem fyrir liggur um frestun á framkvæmd bannlaganna árlangt. Mætti af því ætla, að hún einnig framvegis teldi bannlögin eiga að víkja fyrir Spánarsamningunum og tvísýnum hagnaði af lágmarkstolli fiskjar á Spáni. Þetta virðist mega lesa milli línanna í greinargerð frumvarpsins, þótt ekki komi það skýrt fram. En við þeirri ætlun verð jeg að slá varnagla.

Jeg hefi lýst mig ósamþykkan greinargerð frumvarpsins í ýmsum atriðum, og sjest það af henni, þótt eigi sje þar nafnsins getið. Þykist jeg vita fyrir víst, að líkt sje fleirum farið, þótt eigi geri þeir ágreining. Á alla greinargerðina verður að líta eins og afsökun eða handaþvott nefndarmanna frammi fyrir alþjóð, vegna þess að gengið er að kröfum Spánverja og hopað frá heitasta áhugamáli hennar. Þessi handaþvottur nefndarinnar er að vísu eðlilegur, en hitt tel jeg ekki eðlilegt eða viðeigandi, að varpa svo daufu ljósi yfir annmarkana við að ganga að frumvarpinu, sem greinargerðin gerir og leggja yfir þá huliðshjálm. Jafnósamþykkur er jeg og því, að gera svo mikið úr fjárhagslegum ávinningi, sem samþykt frv. hefir í för með sjer, að öll vor framtíð velti á honum. Þessi blær greinargerðarinnar sveigir frá rjettri leið og gerir of lítið úr ókostunum við að ganga að kjörum Spánverja, en of mikið úr ávinningnum.

Lítum snöggvast á ávinningshliðina.

Greinargerðin telur að um 17 þús. smálestir fiskjar fari hjeðan árlega til Spánar, telur lágmarkstoll af þeim fiski (32 peseta pr. 100 kg.) eins og rjett er 5440000 peseta, en hámarkstollinn (96 peseta pr. 100 kg.) 16320000 peseta, eða muninn á hámarki og lágmarki 10880000 peseta. Síðan er þessu breytt í krónur eftir 115 aura gullgengi á peseta, og koma þá út um 12½ milj. kr., sem ætti að vera fjárhagshalli sá, er vjer biðum árlega við að hafna kjörum Spánverja. Hjer er óþarflega djúpt tekið í árinni, bæði um fiskmagnið til Spánverja og verð pesetanna, svo sem hjer skal sýnt með yfirliti yfir útflutning á saltfiski 1913 til 1919, en hagskýrslur vantar enn fyrir 2 árin síðustu. Í yfirliti þessu tel jeg aðeins heilar smálestir, en sleppi brotum öllum.

1913 alls 19308 smál., þar af til Spánar 5256.

1914 alls 22250 smál., þar af til Spánar 6301.

1915 alls 27952 smál., þar af til Spánar 7038.

1916 alls 28908 smál., þar af til Spánar 8118.

1917 alls 15676 smál., þar af til Spánar 7663.

1918 alls 17945 smál., þar af til Spánar 7086.

1919 alls 31500 smál.,þar af til Spánar 10224.

Meðaltals-útflutningur þessara ára er því 23363 smál., en meðalútflutningur til Spánar 7383 smálestir. Hvorki hefir því útflutningurinn til Spánar neitt nálgast 17000 smálestir nje heldur þangað farið tveir þriðju af fiskmagninu, eins og ætla mætti að verið hefði eftir greinargerðinni. Útflutningur til Spánar öll þessi ár hefir verið einn þriðji til einn fjórði af saltfisksmagninu, og komst hæst 1919, sem sje í 10224 smálestir.

Greinargerðin miðar því við ágiskaðan útflutning síðustu 2 árin, sem hagskýrslur vantar fyrir, og telur fiskmagn til Spánar meira en einum þriðja hærra en það hefir nokkurntíma áður verið, og meira en tvöfalt við meðalinnflutning til Spánar á nefndum 7 árum. Jeg verð því að álíta fullmikið gert úr tjóninu, sem leiði af hámarkstollinum, ef hann ætti að greiða, en margt annað kemur til greina.

1919 var allur saltfisksflutningur hjeðan til Spánar svo sem áður er tekið fram, 10224 smál., og að meiri hl. eins og endranær fullverkaður málsfiskur. Lágmarkstollur af því er 3271680 pesetar, en hámarkstollur 9815040 pesetar, og munurinn eða tollaukinn þess vegna 6543360 pesetar. Sje þessari upphæð breytt í krónur eftir venjulegu gengi pes. (72 aur.), þá nemur það 4711219 kr., eða rösklega einum þriðja af því, sem greinargerðin telur tollaukann Og þótt útflutningur til Spánar væri áætlaður nær einum þriðja hærri nú en 1919, eða um 15000 smál., þá myndi þessi upphæð þó eigi verða nema 9600000 pes. eða 6912000 kr., en það er nær helmingi lægri upphæð en sú, sem bent er til í greinargerðinni. Auðvitað bætist við þessa upphæð gengismunur gullpeseta, meðan hann helst, eða það, sem kann að fara fram úr sannvirði, 72 aurum.

Þegar miðað er við þessar tölur, horfir málið annan veg við og spurningin kemur fram í öðru ljósi um máttuleika vorn til að standast hámarkstoll á Spáni, ef til kemur. Tollaukinn er eftir framansögðu, ef miðað er við venjulegt gengi spánskrar myntar, eigi nema 4–7 milj. kr., eða álíka upphæð og vjer gætum sparað oss með því að neita oss um innflutning nokkurra munaðarvörutegunda og óþarfa, upphæð, sem vjer í skaplegu ári, þegar alt er í lag komið, getum vel ráðið við og sem nemur minna en verðsveiflur, sem frá ári til árs hafa orðið á sölu íslenskra afurða.

Hámarkstollur á íslenskum fiski á Spáni mundi leiða til nokkurrar verðlækkunar á honum, en það er óþarft að gera ráð fyrir því tvennu í senn, sem greinargerðin gefur í skyn, að fiskverðið lækki um tollaukann og fiskurinn seljist ekki. Sölurýrnun kemur fram við það, að verðið hækkar, en verðhækkun dregur úr tollaukanum.

Annars er rangt að byggja á því, að tollaukinn lendi allur á oss, þótt vjer kæmum undir hámarkstoll, eða að hann falli oss allur í skaut sem gróði, þótt vjer göngum að kröfum Spánverja og sitjum í orði kveðnu við lágmarkstoll. Hámarkstollurinn skiftist á neytendur og framleiðendur, og verður því minni á framleiðendum sem meira af fiski er undir honum. Þess vegna mundi hans gæta miklu minna, ef Norðmenn gengju undir hann eða annan hækkaðan toll. Hinsvegar fylgja lágmarkstollinum fyrir oss allir þeir annmarkar, sem leitt geta af eftirlátsseminni við Spánverja, og verða þeir trauðla metnir til peninga, síst fyrirfram, en ávinninginn rýra þeir mikið og geta, ef til lengdar lætur, jafnvel orðið meiri en hann.

Fjárhagslegir annmarkar við að ganga að kröfum Spánverja og tryggja oss lágmarkstoll eru auðsæir, þótt erfitt sje að meta þá til peninga fyrirfram. Þeir eru meðal annars innifaldir í auknum vínkaupum, aukinni smyglun brendra drykkja, auknu lögreglueftirliti, auknu sukki og óreglu, sem leiðir af aukinni vínnautn með öllum hennar illu og óútreiknanlegu afleiðingum. Í öðru lagi leiðir afnám bannsins til þess, að opnaðar verða ýmsar gáttir fyrir ágreiningi við aðrar þjóðir, sem hafa á boðstólum áfengisrýra drykki, svo sem öl, en ekki fá þó að selja þá hjer, og eru því gerðar rjettlægri en Spánverjar. Sama máli gegnir um þjóðir, sem vegna eftirlátssemi vorrar við Spánverja fá verri aðstöðu til samninga við þá. Þær gætu fengið ástæðu til gagnkröfu til vor eða að torvelda viðskifti vor á öðrum sviðum.

Þessar og fleiri hættur blasa við jafnframt lágmarkstolli, og í þeim liggja vanhöldin á þeim áætlaða hagnaði af honum. Þau hljóta að rýra hann mjög og geta eytt honum með öllu. Þess vegna á ekki við að halda því á lofti sem óyggjandi sannleika, að hann sje eina lífsvon þessarar þjóðar og að öll fjárhagsleg afkoma hennar velti á honum.

Auk þess er nú ein spurning, sem leysa verður úr, og hún er þannig: Getum vjer í raun og veru virt til peninga og selt þjóðarmetnað vorn og sjálfsákvörðunarrjett? Svarið fer ef til vill hjá sumum eftir fjárupphæð þeirri, sem í boði er, og hafa þeir þá líklega í huga 12½ milj. kr., eins og greinargerð frv. ætlar hagnaðinn af lágmarkstollinum; en ef hjer væri nú ekki nema um 4–7 miljónir að ræða ÷ afföllum, sem skift geta nokkrum milj., auk skapraunarinnar, þá hygg jeg, að hver hugsandi maður hljóti að svara spurningunni neitandi.

Eftir framansögðu lægi auðvitað beinast við að hafna frv. með öllu, sem mjer hefði verið næst skapi, og sem jeg líka fyrir mitt leyti hefði gert, ef atkvæði hefði átt að greiða hjer um hið upphaflega frumvarp stjórnarinnar um ótímabundið afnám bannlaganna. Þetta hefi jeg þó eigi viljað gera, þótt jeg sje ósamþykkur greinargerðinni, og liggja þar til þessar ástæður:

1. Að frv. miðar við frestun á framkvæmd bannlaganna aðeins um eitt ár, sem vel má nota og ber að nota til þess að leita lags og gera oss óháðari Spánarmarkaðinum, en tími þessi er svo stuttur, að líklega tekst að afstýra ágreiningi við aðrar þjóðir, sem ástæðu finna til að kvarta.

2. Að erfiðar fjárhagshorfur og lággengi í sambandi við tregðu bankanna í að lána fje til rekstrar útveginum, nema hæstu sölukjör sjeu í boði, knýr nú sjerstaklega til bráðabirgðaráðstafana í þessu efni.

3. Að Alþingi er sjáanlega ekki fáanlegt til að lögleiða neinar aðrar viðskiftaráðstafanir til viðrjettingar lággengi og greiðsluerfiðleikum út á við.

Jeg tel mig með þessu hafa brúað djúpið milli mín og meiri hluta viðskiftamálanefndar og gefið fyrir mitt leyti bendingu um, hve lengi sú brúarbygging eigi að standa. Jeg álít, að frestinn beri að nota til að leita markaðs fyrir íslenskan fisk utan Spánar, bæði austan hafs og vestan, ekki síst í löndum Miðjarðarhafsins. Sæmd vor liggur við að geta sem fyrst orðið óháðir Spánarmarkaði.