25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

80. mál, stofnun landsbanka

Hákon Kristófersson:

Aðeins örfá orð viðvíkjandi því, sem háttv. frsm. (JakM) sagði, að tillögur mínar væru lítils virði. Jeg felst á það, að í þeim felist engin grundvallarbreyting á frv., og þó þær sjeu ef til vill ekki þýðingarmiklar, þá sjeu þær þó óskaðlegar fyrir málefnið. En jeg get þó ekki fallist á, að í þeim felist ekki smáatriði, sem komið gætu til með að hafa töluverð áhrif á ýms atriði, sem felast í frumvarpinu.

Þá komst háttv. frsm. inn á það, að aðstoðarfjehirðisstaðan hefði ekki verið veitt í nokkur undanfarin ár, en gerði hins vegar ráð fyrir, að sá dráttur yrði ekki miklu lengri, og virtist yfirleitt hallast að því, að ekki væri neinn raunverulegur munur á setningu í stöðu og veitingu. En jeg skil ekki, hvers vegna veiting á stöðunni hefir dregist svo lengi, því að altaf verður það að teljast tryggara, að skipað sje í stöður heldur en sett. Því tel jeg það vitanlega sjálfsagt, að maður sá, er gegnt hefir aðstoðarfjehirðisstarfinu, sem kallað hefir verið, sje skipaður í það nú á næstunni, því nú hefir hann sýnt það fyrir löngu, að hann er starfinu fullkomlega vaxinn. Enda var svo að skilja á ummælum háttv. frsm. (JakM), að hann teldi víst, að það yrði gert mjög bráðlega.

Þá mintist háttv. frsm. á, að óþarft væri, að stjórnarráðið legði sinn síðasta úrskurð á um skipun bókara og fjehirða bankans, eftir tillögum bankastjórnarinnar, því að vitanlega ætlast jeg til þess, að menn þessir sjeu skipaðir eftir tillögum bankastjórnarinnar. Þannig er því líka háttað með ýmsa starfsmenn ríkisins, að stjórnarráðið skipar þá eftir tillögum þeirra manna, sem stöðurnar heyra undir. Og hafi verið brugðið út af því, hefir það verið fyrir þá sök, að tillögurnar hafa ekki fundið náð fyrir augum stjórnarinnar. Það, sem jeg legg áherslu á með till. mínum, er, að þessir menn í bankanum sjeu meðal annara embættismanna ríkisins, þó að starfssvið þeirra sje á öðru sviði en flestra annara embættismanna, og þar af leiðandi heyrir skipun þeirra að sjálfsögðu undir stjórnarráðið.

Annars þakka jeg háttv. frsm. (JakM) fyrir það, að hann taldi tillögur mínar þess verðar, að sjálfsagt væri að samþykkja þær, þó að hann í upphafi ræða sinnar teldi þær ekki mikils virði. Vænti jeg því, að háttv. deild geri það og sýni með því, að hún vilji styðja að rjettu máli.