28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

80. mál, stofnun landsbanka

Stefán Stefánsson:

Háttv. deild hefir sjálfsagt veitt því eftirtekt, að jeg greiddi atkv. móti þessu frv., er það lá hjer fyrir síðast. Sá jeg enga nauðsyn þess, að laun bankastjóranna hækkuðu svo mikið, sem frv. fór fram á. Hafa þeir nú 6000 kr. og dýrtíðaruppbót samkvæmt núgildandi launalögum.

Í frv. þessu eru launin ekki aðeins tvöfölduð, heldur eru þau ákveðin 15000 kr. auk verðstuðulsuppbótar.

Með hæstu dýrtíðaruppbót urðu launin áður ca. 14000 kr., en verða eftir frv. um 24000 kr. Finst mjer þetta algerlega óþörf eyðsla, og ættu hv. þm. að bera þetta saman við það, sem fram fór hjer í hv. deild fyrir nokkrum dögum, þar sem ver stöddu embættismönnum ríkisins var neitað um 15% verðstuðulsuppbót með miklu atkvæðamagni. Gat jeg alls ekki fengið mig til að samþykkja svona mikla hækkun, og því bar jeg fram brtt. mínar, og hefi jeg farið þar svo langt sem mjer var unt til samkomulags við þá, er fylgja frv. Vildi jeg láta þessa afstöðu mína koma skýrt fram, svo að háttv. þm. gæfist kostur á að greiða atkvæði um þetta. Jeg játa það, að starf bankastjóranna er vandasamt og veldur miklum áhyggjum, en svo er um mörg fleiri störf, og eiginlega má segja, að það sje fremur komið undir samviskusemi hvers eins og sómatilfinningu, hve mikla áhyggju hann hefir af starfi sínu, heldur en það, hvert starfið er. Býr í flestum mönnum sú ábyrgðar- og sómatilfinning að vilja vanda störfin sem best.

Er það hyggja mín, að t. d. ráðherrar, dómarar og læknar hafi litlu minni áhyggjur af störfum sínum heldur en bankastjórarnir, og svo mun um marga fleiri. Get jeg því ekki sjeð, að þetta sje næg ástæða fyrir þeirri geysimiklu hækkun, sem frv. ræður til á launum bankastjóranna.

Viðvíkjandi launum annara starfsmanna bankans, sem nefndir eru í frv., vil jeg geta þess, að mjer sýnist ekki full samkvæmni í launum þeirra, en þetta er stjórninni í lófa lagið að lagfæra, þar sem ráðuneytinu er falið eftir frv. að ákveða dýrtíðaruppbótina, að fengnum till. bankastjórnarinnar. Er stjórnin því einráð um þetta.

Jeg get hugsað mjer, að við samning þessa frv. hafi hv. flm. haft laun bankastjóra Íslandsbanka til hliðsjónar. En upp úr þeim samanburði geri jeg ekki mikið. Munu menn fyrst og fremst lítt ánægðir með þau háu laun, en auk þess er aðgætandi. að staða þessara manna er mun valtari en bankastjóra Landsbankans, sem er okkar eigin ríkisstofnun. Sýnist mjer heldur ekki, að Alþingi þurfi að taka sjer það til fyrirmyndar, þótt erlendir hluthafar Íslandsbanka vilji greiða bankastjórum sínum hærri laun en alment tíðkast hjer á landi; en þegar farið er að apa eftir þessu, er nokkurn veginn sjáanlegt, hver afleiðingin verður.

Mun jeg svo ekki tala frekar fyrir brtt. mínum, nema á þær verði ráðist. En mjer þykir hins vegar fróðlegt að sjá, hverjir verða til að greiða þeim mótatkv., og þar með samþykkja 24000 kr. launin.