28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

80. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg vil vekja athygli á því, að eins og frv. þetta liggur nú fyrir, kennir nokkurs ósamræmis í því, þar sem ýmist er talað um fjehirði og aðstoðarfjehirði eða fjehirði og aðalfjehirði. Stafar þetta ósamræmi í orðalagi frá brtt. hv. þm. Barð. (HK), sem samþyktar voru við 2. umr. Hafði jeg tekið eftir þessu við þá umræðu, en láðist að geta þess; en þetta gerir þó ekki mjög mikið til, og má auðveldlega laga það við prentunina, og er þá rjett að hafa það orðalag, sem var á breytingartillögunni, aðalfjehirðir og fjehirðir.

Viðvíkjandi brtt. hv. 1. þm. Eyf. (StSt) verð jeg að segja það, að mjer skilst, að þær sjeu bygðar á margföldum misskilningi. Þessi háttv. þm. segir föst laun bankastjóranna vera aðeins 6 þús. kr., og telur því, að hjer sje farið fram á meira en tvöfalda hækkun. Jeg vil því taka það fram, að föst laun við þessar stöður nema miklu meira, þar sem þeim hefir og fylgt ágóðaþóknun, sem aldrei hefir numið minna en 5 þús. krónum. Föst laun má því telja að hafi verið 11 þús. kr. í þessu frv. er farið fram á það að fella niður þessa ágóðaþóknun, og tel jeg það vera rjetta stefnu; en auðvitað er þá sjálfsagt að ákveða hin föstu laun þeim mun hærri.

En háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) vill ekki hækka laun þeirra meir en sem nemur 1000 kr. Jeg verð að halda því enn fram, eins og jeg hefi áður gert, að það sje mjög óheppilegt, að laun bankastjóranna við Landsbankann sjeu lægri en við aðrar stofnanir af líku tægi, t. d. Íslandsbanka. Enn fremur er það og bygt á misskilningi, er þessi sami háttv. þm. (StSt) sagði um það, að bankastjórastöður við Íslandsbanka væru miklu ótryggari stöður heldur en við Landsbankann. Háttv. þm. ætti að vita, að nú eru bankastjórar þar einnig skipaðir í stöðurnar af ríkisstjórninni. Hvað launum þeirra viðvíkur við þann banka, þá hafa þeir, auk sinna föstu 15 þús. kr. launa, ágóðaþóknun, svo að munurinn er þá nokkur á laununum. Það er og enn misskilningur, að hluthafar ráði launaupphæð bankastjóranna við Íslandsbanka. Það gerir bankaráðið í samráði við ríkisstjórnina, og meiri hluti bankaráðsins er og skipaður þingkjörnum mönnum, og venjulega ræður stjórnin yfir meiri hluta atkvæða. (StSt: Hvað er víst um það, hversu lengi sá banki stendur föstum fótum?). Já, slíks má ávalt spyrja um alla banka, en eins og nú standa sakir, verður Íslandsbanki ekki fremur látinn fara um koll en Landsbankinn. Aðalatriðið er því þetta: Það er misskilin sparsemi í því að spara laun við forstjóra Landsbankans, því ella munu þeir sjá sjer hag í því að fara í burtu úr þjónustu bankans, ef þeir geta fengið betri kjör, og verður þá vansjeð, hvort tekst að halda þeim mönnum kyrrum í þjónustu bankans, sem best eru til þess kjörnir, en það er öllum ljóst, að á því ríður mjög mikið.