28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

80. mál, stofnun landsbanka

Jón Baldvinsson:

Jeg get ekki neitað því, að mjer þykir fullhátt farið í tillögum nefndarinnar, að ákveða launin 24 þús. kr., en sjerstaklega finst mjer því vera ábótavant, að ekkert er minst á það, að til þess sje ætlast, að gerður sje munur á eldri mönnum í þessum stöðum og t. d. alveg nýjum mönnum, sem í þær kunna að koma. Á þetta er heldur ekki minst í brtt. háttv. 1. þm. Eyf. (StSt), sem fara fram á að lækka launin; hafa þær því sama gallann sem frv. sjálft, að hvergi kemur fram, að gerður sje nokkur munur á starfsaldri. Jeg mun því fremur kjósa frv. en brtt. háttv. 1. þm. Eyf.

En það er í raun og veru sök hæstv. forsrh. (SE), að þessi laun eru ákveðin svona há, því þau eru miðuð við þau laun, sem bankaráð Íslandsbanka hefir ákveðið handa bankastjórunum nýju við þann banka; en mjer er nær að ætla, að Landsbankinn sje í engu ófærari til þess að greiða þessi laun en Íslandsbanki, og mun jeg því fylgja þessu frv., þrátt fyrir óánægju mína yfir þeim ágöllum, sem á því eru.