04.05.1923
Efri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

80. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Karl Einarsson):

Jeg ætla ekki að vera langorður um þetta mál að sinni. Á þskj. 140, upphaflega frv., sem þetta frv. er árangurinn af, er gerð ítarleg grein fyrir málinu.

Sú breyting hefir verið gerð frá upphaflega frv., að eftir þessu frv. á aðstoðarfjehirðir að fá 500 kr. hærri laun. Mistalningarfjeð er og hækkað um 1000 kr. Þessi brtt. var samþ. í hv. Nd. og álitin rjettmæt.

Þetta frv. er fram komið til að bæta úr því ósamræmi, sem er á launum bankastjóranna við þessa tvo aðalbanka hjer. Það er naumast sæmilegt, að ríkið borgi aðalmönnunum við sinn banka miklu ver en hlutafjelagsbankinn gerir til sinna manna. Þó verður enn sá munur eftir, að sá bankastjórinn, sem kosinn er af hluthöfum Íslandsbanka, fær hærri laun, auk þess, sem þeir allir fá ágóðahluta.

Jeg fer svo ekki frekar út í þetta að sinni, en vil aðeins taka fram, að jeg álít, að ekki sje neitt meiri erill í Íslandsbanka en orðinn er í Landsbankanum. Enda þótt meira fje væri til meðferðar í Íslandsbanka, þá er það nú líka að jafnast í seinni tíð.

Jeg vil því fyrir hönd nefndarinnar mælast til þess, að hv. deild samþykki þetta frv.