05.05.1923
Efri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

80. mál, stofnun landsbanka

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg sagði í gær, að ef frv. þetta næði fram að ganga, þá fælist í því viðurkenning um, að laun embættismanna samkvæmt launalögunum frá 1919 væru of lág. Því að bankastjórar Landsbankans eru starfsmenn þjóðarinnar, engu síður en t. d. hæstarjettardómarar, ráðherrar og prófessorar háskólans. Nú eru samkvæmt frv. þessu bankastjórunum ætluð 15 þús. króna föst laun, en ráðherrarnir og dómstjóri hæstarjettar hafa ekki nema 10 þús. og meðdómendur í hæstarjetti ekki nema 8 þús. En jeg verð nú að líta svo á, að störf þessara manna, t. d. hæstarjettardómaranna og ráðherranna, sjeu engu þýðingarminni en störf bankastjóranna. Liggur því í augum uppi, að þetta þarf að samrýma, því að launakjör Landsbankastjóranna þarf að miða við laun annara embættismanna ríkisins, en ekki við laun bankastjóra Íslandsbanki, því að þeir eru aðeins ráðnir til ákveðins stutts tíma, og nú t. d. eru tveir settir og einn ráðinn til 5 ára; er hann búinn að vera tvö ár af þeim tíma, og á því aðeins eftir þrjú. Eru þessar stöður því alls ekki sambærilegar við hina? föstu stöður Landsbankastjóranna.

En eins og jeg hefi tekið fram áður, tel jeg þessi 15 þús. króna laun Landsbankastjóranna alls ekkert of há, eins og gildi peninga er nú og út lítur fyrir, að það verði í framtíðinni; síður en svo, heldur einungis hitt, að laun annara embættismanna ríkisins sjeu of lág, og þeir, sem greiða atkv. með þessu frv., skylda sjálfa sig til þess að vera með samsvarandi hækkun á launum annara starfsmanna ríkisins.