07.03.1923
Neðri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Háttv. frsm. meiri hl. (MG) hefir skýrt nokkuð rjett frá frv. stjórnarinnar. Það klauf nefndina, að hún gat ekki orðið ásátt um stefnubreytingu þá, er kemur fram í stj.frv. og minni hl. álítur til bóta, að reyna að hlífa þeim sem mest, er lágar tekjur hafa, en þyngja á þeim, sem hafa mjög miklar tekjur. Frv. stjórnarinnar fer fram á að lækka að miklum mun skatt þeirra, sem lítið eða ekkert hafa umfram hið nauðsynlegasta lífsviðurværi. Hækkunin kemur fram á tekjum, er nema 15000 kr., og þaðan af hærri tekjum. Þetta er alveg rjett stefna, því að það er rjett og víst, að þegar á að leggja skatt á tekjur manna, á að taka hlutfallslega langmest af þeim, sem svo hafa háar tekjur, að þeir þurfa ekki að nota þær allar til lífsviðurværis.

Þó er ekki víst, að þetta hefði skilið nefndina, hefðum við getað fallist á að fella úr stj. frv. ákvæðið um, að tekjur, sem nema ekki fullum 1000 kr. eftir lögákveðinn frádrátt, skuli vera skattfrjálsar. Meiri hl. þótti það óviðkunnanlegt, eins og hv. frsm. (MG) tók fram, að 999 kr. skyldu skattfrjálsar, en 5 kr. skyldi greiða af 1000 kr. tekjum. Háttv. frsm. meiri hl. MG skýrði þetta frá sínu sjónarmiði á þann hátt, að af þessari einu krónu, sem hjer munar, ætti að greiða 5 kr. skatt. En það er ekki rjett. Þessar 5 kr. á að greiða vegna þess, að maðurinn hefir verið þess megnugur að vinna sjer inn 1000 kr., en það mun nægilegt til lífsframfæris einhleypum mönnum víðast á landinu.

Minni hl. álítur, að ekki geti komið til nokkurra mála að leggja skatt á þá, sem einungis hafa til fæðis, fata og húsnæðis. Hann lítur svo á, að margir þeir menn, er lægstar tekjur hafa, gjaldi þjóðinni mestan skatt. Það eru þeir, sem erfiðust störf hafa og áhættumest, verkamenn á sjó og landi. Þeir gjalda fullan skatt, þó að hann sje ekki tekinn á þennan hátt.

Þá fann minni hl., að frv. stjórnarinnar fór í rjetta átt, að hækka frádrátt fyrir börn úr 300 kr. upp í 500 kr., og fanst mjer hv. frsm. meiri hl. (MG) fallast á það. En hitt virtist mjer einnig skína í gegn, að hann ætti bágt með að fylgja þessu, af því að það var ekki komið frá honum sjálfum. Um það má deila, hvort rjettara sje, þessi tillaga eða það fyrirkomulag, sem nú gildir, því að jafnan mun slíkur frádráttur nokkuð af handahófi, miðað við afkomu manna.

Jeg skal þá minnast á skattstiga meiri hl., og virðist mjer það geta verið mjög varhugavert að samþykkja hann. Þó að segja megi, að það sje rjettmætt að draga sveitarútsvörin frá, hygg jeg, að ríkissjóður muni tæplega þola það nú sem stendur. Útsvörin eru langhæst af hinum hærri tekjum, og sjeu þau dregin frá, er sýnilegt, að skatturinn muni minka mest af þeim tekjum, svo að lítið sem ekkert getur orðið eftir, en þaðan á hann helst að koma. Því er varhugavert að breyta þessu þegar í stað á þessu fjárhagsári, en þar sem hjer á hinn bóginn er að ræða um bráðabirgðafyrirkomulag, er lítil hætta, þó að þessi breyting dragist.

Hv. frsm. meiri hl. (MG) sagði, að með brtt. stjórnarinnar myndi ríkissjóður tapa að miklu leyti skatti frá vinnufólki í sveit. Þetta er ekki rjett, því að vinnufólk mun hafa hærri tekjur en 1000 krónur. Að vísu hefi jeg heyrt, að menn reikni víða fæði, húsnæði og þjónustu svo lágt, að vinnufólkskaup nái ekki þeirri upphæð. Þar til er að svara, að ógerningur mun að gera þessi lög svo úr garði, að ekki sje auðið að fara í kringum þau. Og hver sem dregur í efa, að fæði og kaup í sveit nái 1000 kr., sá reiknar ekki rjett. Stúlkur hafa að jafnaði yfir 1000 kr. (MG: Alstaðar á landinu.?). Já, ef rjett er reiknað fæði og húsnæði. En ef einhver er svo lítilsigldur, að hann vinni ekki fyrir 1000 kr., er hann öðrum til byrði og þá rangt að leggja á hann skatt.

Þessu til sönnunar skal jeg stuttlega sundurliða, hvað vinnandi kvenmaður í sveit getur haft í tekjur á ári:

Vorvinna frá krossmessu fram að slætti að minsta kosti kr. 120.00

Sláttur. 9 vikur. 25 kr. á viku — 225.00

Frá sláttarlokum til 1. okt. — 25.00

Um veturinn til krossmessu

20 kr. á mán — 150.00

Í peningum samtals kr............ — 520.00

Fæði og annar viðurgerningur

kr. 1.50 á dag — 547.50

Árskaup samtals kr. 1007.50 Karlmannskaup mun vera frá 1200 upp í 1800 kr. Jeg fæ ekki skilið, hvernig menn geta reiknað sjer verkafólk ódýrara. Skattanefndir geta ef til vill reiknað fæði á 50 aura eða 75 aura á dag, en við því verður ekki sjeð með lagaákvæðum. Það virðist ógerningur að ganga svo frá, að lögunum sje alstaðar beitt rjett, því að það er vitanlegt, að þeim hefir verið beitt misjafnlega í ýmsum hjeruðum; að minsta kosti mun það álit margra hjer í bæ.

Þá skal jeg stuttlega athuga brtt. á þskj. (57. frá háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Jeg býst ekki við, að minni hlutinn geti verið samþykkur þeim, því að þær fara í þveröfuga átt. Þær fara að vísu rjettari leið á fyrstu stigunum en brtt. meiri hlutans. En síðan sverja þær sig í ættina og vilja lækka skattinn af hæstu tekjunum, þar sem síst skyldi.

Minni hl. hefir lagt til, að reynslutími laganna um tekju- og eignarskatt verði lengdur til 1925. Háttv. frsm. meiri hl. (MG.) sagði, að það gæti tæplega orðið, vegna þess að á leiðinni væri frv. um stjórnarskrárbreytingu, sem meðal annars færi fram á, að þing yrði haldið einungis annaðhvert ár, og ef það frv. yrði samþykt, myndi ekkert þing verða 1925. En þessi lög eru ekki komin í gildi, þó að hv. þm. (MG) sje búinn að skrifa þau. En færi svo, að frv. hans yrði samþykt. mætti breyta þessu við 3 umr., ef svo langt verður á milli umr.

Minni hl. tók það ráð að gera ekki neinar brtt. við stj.frv. Hann áleit þess enga þörf, heldur leggur til, að frv. verði samþykt. Brtt. meiri hl. má að nokkru leyti kalla útúrsnúningm til þess að svo líti út, sem frv. stjórnarinnar hafi ekki náð fram að ganga.