07.03.1923
Neðri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Jeg verð að byrja mál mitt með örfáum orðum um stefnur í skattamálum yfir höfuð, vegna þess, að það ræður afstöðu minni til þessa máls nú: enda var mjer og sjerstaklega gefið tilefni til þess í ræðu hv. samþm. míns, 3. þm. Reykv. (JÞ).

Það, sem aðallega markar stefnur í þessum málum, er það, hvort hafa skuli beina skatta eða óbeina. Ef tekjuskatturinn verður rýrður mjög verulega, verður óhjákvæmilegt að hækka óbeinu skattana, tollana. Jeg er og hefi ávalt verið þeirrar skoðunar, að langhollast muni vera að halda sjer sem mest við beinu skattana. Menn svíkja sjálfa sig á hinum síhækkandi tollum. Háttv. samþm. minn (JÞ) taldi ekki mega ganga of nærri góðærisgróða hærri gjaldenda, vegna illæris þess, er altaf bæri að höndum annað veifið. Hvað mætti þá um það segja, ef teknir eru háir óbeinir skattar bæði í góðum og vondum árum, hvernig sem gengur? Af hverjum togara eru nú t. d. borgaðar ca. 5 þús. kr. í óbeinan skatt, þ. e. í útflutningsgjald, hvernig sem árar. Þessi óbeini skattur er einnig tekinn af tapi vondu áranna, en hv. samþm. minn (JÞ) hefir ekki mælt með því, að þessi skattur yrði feldur burt, og bendir það ekki á umhyggju fyrir einum áhættumesta atvinnuvegi landsins. En til þess að útflutningsgjaldinu verði af ljett, er óhjákvæmilegt að afla tekna í þess stað með beinum sköttum. Tekjuskattur er aldrei tekinn nema af beinum tekjum, og ef misfellur hafa orðið á því, er auðvelt að kippa því í lag. Það má athuga það, viðvíkjandi óánægju þeirri, sem vart hefir orðið í Reykjavík út af beinum sköttum, hvora leiðina skuli halda, hvort lækka skuli tekjuskattinn eða aðra skatta. Jeg er þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að lækka skatt á háum tekjum, heldur einhverja óbeina skatta. Tekjuskatturinn af lægri tekjum, og þá einkum miðlungstekjunum, var of hár í fyrstu, og þess vegna vil jeg ásamt meiri hl. nefndarinnar lækka skattinn á lægri tekjunum, en vinna þá lækkun að einhverju leyti upp á skattinum af hærri tekjunum, og eins og hv. samþm. minn (JÞ) hefir þegar tekið fram, nemur sú upphæð alls eigi svo litlu, þegar á alt er litið.

Hv. samþm. minn (JÞ) áfeldist nefndina fyrir að hafa ekki athugað, hvernig skatturinn kæmi niður og hver áhrif lækkun hans hefði á upphæð alls skattsins. Þetta frv. þarf nú að ganga fram á stuttum tíma, og nefndin hafði ekki tíma til að afla sjer upplýsinga til þess eða að gera útreikninga í þá átt.

Þetta hefði þó mátt sjá að nokkru leyti að því er snertir Reykjavík, og þegar nefndin var búin að skila áliti sínu, gerði jeg lauslega áætlun um, hve mikil lækkunin mundi verða fyrir hækkun hundraðstölu skattstigans, miðað við skattinn hjer í Reykjavík. Jeg hefi komist að þeirri niðurstöðu, að lækkun skattsins af lægri tekjunum muni þá vinnast upp með hækkuninni á hærri skattinum. En þá er ekki tekið tillit til þess, að nú er gert ráð fyrir að hækka barnafrádrátt og að leyfa frádrátt aukaútsvara frá skattskyldum tekjum. Hvað þann frádrátt snertir, er ekki auðvelt að áætla, hver hann verður eða reikna út, hver áhrif hann hefir á skattinn í heild sinni Útsvör eru þannig lögð á, að þau standa oft og einatt í engu hlutfalli við árstekjur, þar sem þau eru miðuð við efni og ástæður eða gjaldþol. Og hjer í bænum hafa oft og einatt verið lögð há útsvör á gjaldendur, sem ef til vill hafa tapað á atvinnurekstri sínum það árið. Nefndin sá það því ekki til neins að fara að giska á það, hver áhrif frádráttur útsvaranna hefði á skattinn; því sú ágiskun hefði orðið í alla staði mjög óábyggileg. Jeg gerði athugun á því, hverju munaði hjá einum gjaldanda, ef útsvarið væri dregið frá og ef það yrði ekki dregið frá. Það var gjaldandi, sem taldi fram 60 þús. kr. tekjur til skatts. Varð niðurstaðan sú, að samkvæmt skattstiga meiri hluta nefndarinnar mundi skatturinn hækka nokkuð, þrátt fyrir frádrátt útsvarsins. Það er því augsýnileg fjarstæða, sem haldið er fram af minni hl., að frádráttur útsvara geri skattinn að engu. Tekjuskattinn sjálfan er hægt að reikna út, eða áhrif þess, ef hann væri dreginn frá; en nefndin fann ekki ástæðu til að leggja það til, að hann yrði dreginn frá. Jeg álít, að um hann sje alt öðru máli að gegna en útsvörin. Hann er lagður á tekjur liðins árs, og getur því aldrei komið til greina fyr en á næsta ári, þegar hann er greiddur, en yrði hann talinn með útgjöldum skattársins, væri hann ranglega talinn til útgjalda á tveimur árum. Hins vegar er það hugsunin að leggja tekjuskattinn á hreinar tekjur, að frádregnum öllum rekstrarkostnaði, og verður skatturinn þá utan við og verður ekki talinn til rekstrarkostnaðar fyr en hann er greiddur.

Háttv. frsm. minni hl. nefndarinnar (ÞorlG) skýrði rangt frá ágreiningi milli nefndarhlutanna, þar sem hann kvað minni hl. hafa fallist á þá skoðun stjórnarinnar, að ekki mætti leggja skatt á lægri tekjur en 1000 kr., af því að ekki yrði komist af með svo litlar tekjur. — Þetta er alveg rangt: jeg hygg og þori að fullyrða, að fyrir stjórninni hafi vakað, að ekki svaraði kostnaði að innheimta minni skatt en af 1000 kr. Í þessu er jeg ósamþykkur minni hl. nefndarinnar og stjórninni. Jeg álít, að heppilegra sje, að allir gjaldendur, stórir og smáir, gjaldi tekjuskatt. Það hefir uppörfandi áhrif á menn að finna til þegnskapar síns, og skattur af lágum tekjum mun einmitt verða alldrjúgur fyrir ríkissjóð.

Jeg hygg, að reynslan muni sýna, að lágir skattar innheimtast yfirleitt með minni fyrirhöfn en háir skattar, auk þess sem almennur tekjuskattur ætti að hafa holl uppeldisáhrif á þjóðina, þegar hver einstaklingur finnur til þess, að hann ber sínar byrðar í þjóðfjelaginu og ljettir jafnframt undir með öðrum. Auk þess hefir það sýnt sig, að menn hafa alloft orðið vonsviknir yfir því að vera ekki taldir á tekjuskattsskrá. Sömuleiðis verður ekki annað sjeð en beinir skattar ættu einnig að hafa sín góðu áhrif á þingið og kenna því að fara varlega með fje það, er það hefir til umráða, því svo mun það vera, að menn finna allajafna meira til beinu skattanna en þeirra óbeinu, ef til þarf að taka að hækka þá.

Ágreiningurinn innan nefndarinnar er því eigi sá, hvort taka skuli skatt af þeim fátækustu eða ekki, enda kemur skattur inn einna ljettast niður á þeim fátækustu. Samkvæmt till. minni hlutans greiða hjón með tvö börn skatt af 1500 kr., hafi þau 2500 kr. í árstekjur, og verða það kr. 7.50. Frá tekjunum dragast aðeins 1000 kr. fyrir börnin. Samkvæmt till. meiri hl. greiða sömu hjón í skatt 4 kr. af 500 k þ. e. a. s., undan skatti eru þar dregnar 1000 kr. fyrir hjónin og 500 kr. fyrir hvort barn. Er menn athuga þetta, þá skilst mönnum, að það hefir, eins og hv. frsm. (MG) tók fram, aðeins verulega þýðing fyrir vinnufólk og lausafólk í sveitum að fella fyrstu 1000 kr. undan skatti. Hv. frsm. minni hl. (ÞorlG) sagði, að hver einasti vinnukarl og kona til sveita hefðu 1000 kr. tekjur og þar yfir. En jeg vil leyfa mjer að spyrja: Hverjum kemur þá 1000 kr. undantekningin í hag ?

Jeg get nú orðið stuttorður um það, sem eftir er, og óþarft að taka fleiri dæmi, enda hefir hv. deild fyrir sjer till. beggja nefndarbrotanna til samanburðar. Munu menn sjá, er þeir athuga þetta nánar, að lækkun skatts á lægstu tekjunum samkvæmt till. meiri hl. er engu minni en samkvæmt till. minni hl., þó að hundraðstalan sje ögn hærri. Sje um hjón að ræða, þá vinst það upp við frádráttinn, en þó að skatturinn sje ögn þyngri á einhleypu fólki. Þá get jeg að minsta kosti ekki fundið, að það sje neitt athugavert; tel það miklu fremur heppilegt. Fleira finn jeg ekki ástæðu til að athuga í ræðu hv. frsm. (ÞorlG).

Eitt atriði var það í ræðu hv. samþm. míns (JÞ), sem jeg vildi fá tækifæri til að minnast á. Hann talaði um, að mest væri um vert, að hægt væri að leiðrjetta skattahlutfallið milli Reykjavíkur og annara landshluta. Þetta er auðvitað rjett. En á hinn bóginn fæ jeg ekki annað sjeð en of mikið hafi verið gert úr rangsleitninni gagnvart Reykjavík í þessu tilfelli. Það er öllum kunnugt, að sveitabúskapurinn hefir ekki borið sig undanfarin ár og bændur því alment safnað skuldum, og er því ekki að undra, þótt þeir hafi borið lágan skatt. Hinsvegar er ljóst, að lögin gefa enga trygging fyrir því, að fult rjettlæti eigi sjer stað í hlutfallinu milli sjávar og sveita, og jeg hygg, að sú trygging muni ekki fást með ákvæðum í tekjuskattslögunum. Eina leiðin yrði líklega að hafa einhvern sjerstakan skatt fyrir landbúnaðinn, annaðhvort með eða í staðinn fyrir tekjuskattinn, og þá t. d. að taka upp ábúðar- eða lausafjárskattinn. Annars fæ jeg ekki sjeð, að hv. samþm. minn (JÞ) geri í tillögum sínum nokkra minstu til raun til að jafna þetta misrjetti milli sveita og bæja. Lækkun skattsins á lægri tekjunum er langmest í hans till.: hann lækkar hundraðstöluna niður í helming, en meiri hl. nefndarinnar þó ekki nema um 1/5. En þessi lækkun lægsta skattsins kemur fyrst og fremst sveitunum til góða, og eykur því fremur en minkar misrjettið. Þá talaði hann um, að ef hart væri gengið að þeim stóreignamönnum, sem hefðu eignir, en ekki tekjur, þá gæti það orðið til þess, að þeir flyttu burt með eignir sínar, og gæti það haft hinar skaðlegustu afleiðingar. Þó að þetta megi til sanns vegar færa. Þá held jeg samt, að sú hætta sje ekki yfirvofandi. Það er nefnilega hæpið, að stóreignamenn, sem flyttu burt hjeðan með eignir sínar, gætu haft eins miklar tekjur af þeim annarsstaðar. T. d. munu óvíða gefnir eins háir vextir af innlánum og hjer, mismunur þeirra t. d. hjer og í Danmörku nemur ca. 25%. Og hvað verðbrjefum viðvíkur, þá mundi vera hægt að útvega þau hjer með eins góðum skilmálum og annarsstaðar. Þegar öllu er á botninn hvolft, verður því vafasamt, hvort tapið við það að flytja burt með eignir sínar hjeðan mundi ekki nema margfalt meira en mismuninum á skattinum. Þessi grýla virðist því ekki vera mjög ægileg.

Að öðru leyti kemur þetta um eignirnar ekki svo mjög við, er rætt er um tekjuskattinn. Það munu hvort sem er ekki vera svo ýkjamargir hjer, sem hafi svo háar tekjur af eignum sínum, að þeir verði fyrir barðinu á lögum þessum. Engin till. hefir heldur komið fram um lækkun eignarskattsins, og er vafamál. hvort ekki hefði verið rjett gert af nefndinni að athuga þetta. Jeg fyrir milt leyti mundi ekki hafa lagt á móti einhverri smávegis hækkun.

Að lokum vil jeg leyfa mjer að undirstrika það, að fyrir mjer vakti það ekki fyrst og fremst að lækka skattinn, heldur það, að gera hann sem sanngjarnastan. Eins og skatturinn var samkvæmt 1. frá 1921, var skatturinn á lægri tekjunum margfalt tilfinnanlegri en skatturinn hærri tekjunum, auk þess sem þess ber að gæta, að þessar hærri tekjur, og yfirleitt hæstu tekjurnar, hafa einmitt helst þeir menn, sem í raun og veru eru þannig settir, að þeir komast yfirleitt ljettara frá óbeinu sköttunum en aðrir. Fyrir mjer vakir einmitt að reyna að ná til þeirra manna og jafna niður á þá líka þeim útgjöldum, sem framleiðslan er nú látin bera í útflutningsgjaldinu.