07.03.1923
Neðri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get verið stuttorður í þetta sinn, enda hefir hv. samnefndarmaður minn. 1. þm. Reykv. (JakM) svarað þeim aðalmótbárum, sem komið hafa fram gegn till. meiri hl. En jeg vildi fá tækifæri til að minnast á þau ummæli, er snúist hafa gegn mjer persónulega hjer við þessar umæður. Mjer hefir verið borin blekking á brýn viðvíkjandi einu krónunnni sem fimm króna skattur getur oltið á. Því hefir þó ekki verið með rökum mótmælt, að því sje svo varið, sem jeg benti á í framsöguræðu minni. Það er þessi eina króna, sem fyllir þúsundið, sem veldur 5 kr. skattinum og get jeg ekki sjeð neina skynsamlega ástæðu fyrir því að taka svona stórt stökk. Þá sagði hv. frsm. minni hl. (ÞorlG), að jeg hefði eignað mjer till. um barnaframfærsluna; Þetta er samt misskilningur hjá hv. þm.. því að jeg tók það fram, að sú till. er tekin upp eftir stj.frv.

Þá talaði háttv. frsm. minni hl. um það, að hvergi í landinu mundi einhleypt fólk komast undan skatti, þótt 1000 kr. lágmark verði sett; það má vel vera, að þetta sje svo þar sem hann á heima og kringum hann, en um ástandið annarsstaðar trúi jeg betur mönnum þeim, víðs vegar utan af landi, sem segja þveröfugt frá um sín hjeruð. Mjer skildist líka á hv. frsm. minni hl., að langur tími gæti liðið á milli 2. og 3. umr. þessa máls, en jeg vil benda honum á, að málinu þarf að hraða, ef lögin eiga að koma að notum um þetta ár. Þá vill hv. frsm. minni hl. (ÞorlG) ljetta sköttum af einhleypu fólki. Jeg býst við, að fleiri verði á sömu skoðun og jeg í því efni, að meiri ástæða sje til að gera þá vægari á fátækum fjölskyldumönnum.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) mælti með sínum brtt. Honum þótti sem órjettur ætti sjer stað í skattahlutfallinu milli Reykjavíkur og annara hjeraða landsins og taldi nýjan skattstiga fyrir landbúnaðinn nauðsynlegan til þess, að úr því yrði bætt. Jeg býst nú við, að þetta eigi ekki við mikil rök að styðjast. Eigi misrjetti sjer stað, þá er það framkvæmd laganna, en ekki lögunum sjálfum að kenna. Og hafi Reykjavík þeim mun meiri tekjur sem hún ber þyngri skatta, þá er það ekki nema rjett og sjálfsagt. Það er nú einu sinni svo, að þeir, sem mestar hafa tekjurnar, borga mest af skattinum, og í Reykjavík eru flestir hæstu gjaldendurnir. Það virðist því ekkert undarlegt, þótt skattsupphæðin verði hlutfallslega hærri hjer en annarsstaðar. Að hinu leytinu er heldur ekki við því að búast, að mikill skattur komi úr sveitunum árið 1921, því þá var yfirleitt tap á landbúnaðinum. Og í annan stað leyfi jeg mjer að efast um, að hlutfallið sje eins og látið hefir verið í veðri vaka, Það er kunnugt, að fjölmörg eða flest togaraútgerðarfjelög hafa engan skatt greitt fyrir árið 1921. Þá var að því fundið, að nefndin skyldi ekki koma með skýrslur og áætlanir um tekjuskattinn. Sannleikurinn er sá, að þótt skattskrár sjeu komnar úr sumum hjeruðum, eru þær ekki komnar úr þeim nærri öllum, og því er ekki auðið að koma með rökstuddar áætlanir. Og yfirleitt verð jeg að álíta, og hefi ávalt verið á þeirri skoðun, að jafnt eigi yfir alla að ganga, og engin sanngirni mælir með því að veita Reykjavík nokkra sjerstöðu í þessu efni. Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) gat þess, að tekjuskatturinn væri yfirleitt vinsæll úti á landi, en óvinsæll hjer. Jeg veit ekki, hvað satt er í því, en hitt vil jeg benda á, að sömu reglur gilda um hann þar og hjer, og því ekki með rjettu hægt að finna að tekjuskattslögunum sjerstaklega hjer í Reykjavík.

Ennfremur sagði hann, að tekjuskatturinn hefði reynst hærri árið 1921 en hann hefði verið áætlaður. Það er rjett en deilt var um það í þinginu. hve hátt hann skyldi áætlaður. Jeg áætlaði hann 1 miljón, en aðrir færðu hann niður; sumir vildu jafnvel áætla hann aðeins 500 þús. Og þótt hann væri fulllágt áætlaður 900 þús., þá veitti ekki af. Það er hvort sem er venjan, að einhverjir gjaldaliðir komast upp fyrir áætlun og ekki síst þegar ekkert er áætlað fyrir fjáraukalögum og fleiru.

Enn má taka það fram, að okkur hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) skilur á um beina skatta og óbeina. Hann virðist minni vinur beinna skatta en jeg, þó jeg hins vegar játi, að það sje ótímabært að innleiða þegar í stað tóma beina skatta. En að draga úr þeim, sem við höfum nú, er jeg ófús á.