05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

59. mál, atkvæðagreiðsla fjarstaddra manna við alþingiskosningar

Jón Þorláksson:

Það er misskilningur hjá háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að nokkuð standi um það í frv. eða brtt. nefndarinnar, að ekkert þýði fyrir kjósendur að senda atkvæði sín af stað, nema vottorð fylgi. Það eru engin ákvæði um það, að hvorttveggja skuli vera í sama umslagi. Það ætti því að vera nægilegt, að skilríki væru látin fylgja og hreppstjóri gæfi svo vottorðin á kjördegi. Það þarf ekki að tala um kunnugleika eða ókunnugleika í sveitum í þessu sambandi. Það er vitanlegt, að á kjördegi eru svo margar ferðir til kjörstaðarins, að það ætti ekki að vera neinn ógerningur eða tilfinnanleg óþægindi við að koma þangað boðum eða brjefum.