13.04.1923
Efri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

59. mál, atkvæðagreiðsla fjarstaddra manna við alþingiskosningar

Guðmundur Ólafsson:

Jeg skal ekkert um það segja, hvort nefndin hefir breytt frv. til betri vegar, en jeg verð að líta svo á, að 3. brtt., við 2. gr., geri hana lakari. Jeg sje enga ástæðu til þess að hanga í þessum formum, því að það er eðlilegast, að kjósandi tilnefni manninn sjálfur. Það má benda á það, að hann verður ver settur en þeir, sem þurfa aðstoðar á kjörstaðnum, því þeir mega velja úr 3, eða allri kjörstjórninni, en hann á ekkert val. Þetta vildi jeg aðeins taka fram, því jeg sje ekkert því til fyrirstöðu, að kjósandi fái sjálfur að útnefna aðstoðarmanninn.