13.04.1923
Neðri deild: 41. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

139. mál, fjáraukalög 1923

Stefán Stefánsson:

Jeg kann því vel af hæstv. stjórn, að hafa komið fram með þetta frv. Tel jeg, að hún hafi með því að nokkru bætt fyrir þá ókurteisi, sem hún sýndi mjer, er hún svaraði ekki fyrirspurn minni, sem jeg hreyfði nýlega, um það, hvort hún hefði í hyggju að koma fram með frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1923, eða sem sjerstaka till., þar sem úr ríkissjóði væri ætlað að greiða hæfilega upphæð til viðgerðar varnargarðs á Siglufjarðareyri. Jeg fjekk þá ekkert svar við þeirri spurningu hjá hæstv. fjrh. (MagnJ), og tók þó fram, að Siglfirðingar mundu ekki ófúsir til að leggja eitthvað af mörkum til byggingarinnar, svo að því fremur taldi jeg víst, að hæstv. stjórn mundi vilja skýra frá sinni afstöðu. En nú hefir hæstv. stjórn komið fram með frv., og get jeg því vel við unað. Það er þó ekki svo, að jeg sje allskostar ánægður með frv. þetta. Jeg er óánægður með 3. lið 2. gr., þar sem það er gert að skilyrði, að kaupstaðurinn haldi að öllu leyti við varnargarðinum. Það álít jeg með öllu ósanngjarnt og ofviða þessum litla kaupstað, og verð jeg því að leggja áherslu á, að þessu verði breytt á þann veg, að kaupstaðurinn leggi fram til viðhaldskostnaðar í sömu hlutföllum og hann leggur til byggingarinnar; lengra sýnist mjer ógerlegt að fara að þessu leyti.

Mun jeg koma fram með brtt. í þessa átt við næstu umræðu.

Þá tel jeg æskilegt og óhjákvæmilegt, að hæstv. stjórn annist um, að vel hæfum manni verði falin öll stjórn á endurbyggingu garðsins, svo að ekki endurtaki sig í 3. sinn sama sagan, að garðurinn hrynji svo að segja að vörmu spori. Slík verk eru dýrari en svo og þýðingarmeiri, að með nokkru móti sje við það unandi, að höndunum sje kastað til þeirra. — Jeg segi þetta aðeins í því skyni, að hæstv. stjórn taki til athugunar, að hún vandi vel til valsins.