24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

139. mál, fjáraukalög 1923

Forsætisráðherra (SE):

Jeg á nokkrar brtt. á þskj. 405. Hin fyrsta er undir lið II a, til sjúkrahúss og læknisbústaðar á Blönduósi 17000 kr. Þessa umræddu byggingu er búið að reisa og varð kostnaður 52 þús. kr. Sá styrkur, sem venjulega hefir verið veittur til slíkra bygginga, er þriðjungur kostnaðar, eins og hjer er farið fram á. Geri jeg ekki ráð fyrir, að hægt verði að komast hjá því að veita umrædda upphæð.

Næsta brtt. mín fer fram á að veita 4800 kr. til geislalækningastofu ríkisins, til nýrra tækja. Þessi nýju tæki eru til þess að skýra myndir, sem teknar eru í stofunni. Það er ánægjulegt að geta upplýst, að þessi stofnun mun standa fyllilega á sporði samskonar stofnunum með frændþjóðum vorum. Þessar upplýsingar hefi jeg ekki eftir lækninum, sem veitir stofnuninni forstöðu, heldur eftir tveim prófessorum við læknadeild háskóla vors. Jeg átti tal við þá um þessa stofnun í sambandi við þennan styrk, og álíta þeir mjög heppilegt, að þessi tæki fengjust. Í brjefi til stjórnarinnar hefir forstöðumaður stofnunarinnar látið í ljós þakklæti sitt við Alþingi fyrir, hversu vel það hefir skilið þarfir þessarar stofnunar með fjárveitingum til hennar.

Samkvæmt síðustu skýrslu stofnunarinnar höfðu um 750 sjúklingar leitað hennar síðastl. ár. Jeg vænti þess, að þessi háttv. þingdeild telji óhjákvæmilegt að hlynna sem best að svo merkri lækningastofnun.

Þá er undir sama lið, staflið c, till. um 3000 kr. til geitnalækninga, eða 3/5 kostnaðar. Læknafjelag Íslands hefir sýnt lofsverðan áhuga á útrýmingu þessa illkynjaða sjúkdóms og hyggur, að það megi takast til fulls á tiltölulega fáum árum. Samskonar fjárframlag hefir verið samþykt í fjárlögunum fyrir árið 1924, og get jeg vænst þess, að hv. deild samþykki þessa fjárveitingu, því að því fyr, sem hafin verður herför gegn þessum sjúkdómi, því betra.

Þá er brtt. á sama þskj. (405) undir lið IX, um að bæta íslenskum námsmönnum erlendis upp gengismun á fjársendingum að heiman, alt að 5000 kr.

Þegar jeg var síðast í Kaupmannahöfn, kom nefnd íslenskra stúdenta til mín, til þess að skýra mjer frá fjárhagsörðugleikum þeim, er íslenskir námsmenn þar ættu við að búa, og það ekki síst vegna gengismunarins. Þá fjekk jeg og vottorð um, að íslenskir stúdentar í Höfn væru mjög ástundunarsamir; gengi þar beinlínis lestraralda. Að þessu hvorutveggja athuguðu, og svo vegna þess, að jeg lofaði umgetinni nefnd mínum besta stuðningi, vildi jeg mæla fastlega með því, að þessi till. nái fram að ganga. Svo mun ástatt um aðstandendur flestra þessara námsmanna, að aðstandendur þeirra munu eiga erfitt með að hækka styrk til þeirra, og því ekki nema sanngjarnt, að ríkið ljetti undir með þeim og taki á sig eitthvað af gengismuninum. Að vísu er farið fram á takmarkaða upphæð. Jeg vona, að hv. deild verði vel við þessari áskorun, ekki síst, þegar hjer ræðir um sjerlega ástundunarsama námsmenn.

Þá er brtt. á sama þskj., undir lið X a, um styrk til að senda fulltrúa á fundi erlendis, 7500 kr. Jeg hefi fengið ákaflega mörg erindi um slíkar styrkveitingar. T. d. sækja þeir dr. Páll E. Ólason og dr. Jón Þorkelsson um ferðastyrk til að sækja sagnfræðingafund, er Norðurlandasagnfræðingar halda næsta sumar og þeim hefir verið boðið á. Þá sækir Náttúrufræðifjelagið um, að dr. Helga Jónssyni verði veittur styrkur til að sækja fund náttúrufræðinga, sem halda á í Gautaborg. Forstjóri veðurathugunarstöðvarinnar sækir um ferðastyrk, sömuleiðis vjelskólastjórinn. Þá er Sigurður læknir Magnússon á Vífilsstöðum, sem ætlar að sækja fund berklalækna, svo og biskupinn til að sækja kirkjufund. Þá sækir Cortes prentari um ferðastyrk til að sækja prentlistarsýningu. Þá er sótt um styrk til að senda mann á bindindisfund í Kaupmannahöfn. Atvinnumálaráðuneytið hefir og sent fjvn. erindi um 1500 kr. utanfararstyrk til póstmanna.

Það er vitanlega ómögulegt, að ríkissjóður styrki alla þá, sem fá boð á fundi, og hefir stjórnin því stungið upp á ákveðinni upphæð handa þeim, sem helst þurfa styrks með. Jeg veit reyndar vel, að það verður óþakklátt verk að úthluta þessum styrk, þegar svo margir sækja, en samt taldi stjórnin heppilegra að fara fram á eina upphæð heldur en láta fjvn. hafa með hverja einstaka beiðni að sýsla. Eru þetta og ekki meiri óþægindi en hver önnur, sem leiða af stjórnarstörfunum.

Þá er sami liður, stafl. b, lokastyrkur til útgáfu orðabókar Sigfúsar Blöndals.

Þegar kom að útgáfu þessa stórmerka rits og leitað var til hennar styrks, hafði höfundur hugsað sjer, að alt það, er inn kæmi fyrir sölu bókarinnar, rynni í sjerstakan sjóð, sem verja ætti til að endurbæta bókina og kosta síðari útgáfur hennar. Þessi uppástunga fjekk ágætan byr, bæði hjer og í Danmörku, og fjekst fje það, sem þurfti til útgáfunnar.

Kostnaður hefir orðið svipaður því, sem ráð var gert fyrir, nema prófarkalestur. Hann hefir farið langt fram úr áætlun. Hefir hann reynst sjerstaklega erfiður, enda lagt kapp á að endurbæta og auka við alt fram á síðustu stundu. Auk þess verður ritið lengra en áætlað var, 130 í stað 100 arkir, og eru nú fullsettar 23 arkir auk þeirra 60, sem út eru komnar. Eftir síðustu frjettum að dæma, hefir danska þingið þegar veitt styrk til útgáfunnar, enda fylgdu umsókninni þar meðmæli fjölda merkra fræðimanna. En fyrir þessari fjárveitingu Dana er sett það skilyrði, að Íslendingar veiti líka styrk til útgáfunnar í sama hlutfalli og áður, eða 15000 kr. móti 25000 kr. úr ríkissjóði Danmerkur. Veiti Alþingi því ekki styrk þennan nú, má búast við því, að danska fjárveitingin falli niður. Verður þá afleiðingin sú, að taka verður úr áðurnefndum sjóði það, sem á vantar, eða selja bókina þeim mun dýrari, og er hvorttveggja óhæft.

Bók þessi hefir hlotið hin lofsamlegustu ummæli. Hafa margir stórmerkir vísindamenn ritað um hana, og er dómur þeirra á einn veg.

Jeg hefi sýnt fram á þörfina á styrk þessum og um leið hina lofsamlegu viðurkenningu, sem þessi stórmerka bók hefir hlotið. Hjer er alls ekki um fjárveitingu til höfundarins að ræða, heldur á að tryggja, að hægt sje að halda áfram útgáfunni og að hægt verði að auka við og endurnýja bókina, með því að skerða ekki fyrnefndan sjóð nú þegar. Þetta verður væntanlega síðasta fjárveiting til þessa rits, og mæli jeg fastlega með, að hennar verði ekki synjað.

Þá er undir staflið e. till. um 1500 kr. styrk til Sigurðar Guðmundssonar byggingarfræðisnema, til lokanáms. Þessi maður hefir áður fengið styrk úr ríkissjóði. Hann er óvenjuefnilegur maður, en ef hann fær eigi styrk þennan, má búast við því, að hann fái eigi klofið að lúka námi. Væri því vel gert og í samræmi við það, sem Alþingi hefir svo oft áður gert, að styrkja þennan efnilega mann.

Þá er enn styrkur til sjóvarnargarðs á Siglufirði, 30000 kr. Eyri sú, sem garðurinn átti að verja, er landssjóðseign. En nú hefir garðurinn skemst mjög mikið, svo mikið, að Eyrin er mjög í hættu, og er lífi manna jafnvel hætta búin, ef eigi er gert við garð þennan. Krabbe vitamálastjóri hefir áætlað, að viðgerðin muni kosta 45000 kr., og hefir stjórnin lagt til, að 2/3 sjeu lagðir fram úr ríkissjóði, en 1/3 komi frá Siglufjarðarkaupstað, sem síðan haldi garðinum við. Fjvn. hefir lagt til, að helmingur komi frá Siglufirði. Það er fjarskalega gott að spara úr ríkissjóði, þegar því verður við komið, en eftir því sem bæjarfógeti þeirra Siglfirðinga hefir tilkynt mjer, mun reynast fullerfitt að fá þennan þriðjung, hvað þá helming úr bæjarsjóði Siglufjarðar. Annars geri jeg ráð fyrir, að háttv. 1. þm. Eyf. (StSt), sem hefir látið sjer svo ant um mál þetta, taki til máls við þessa umr. og skýri mál þetta betur.

Þá er ein brtt., sem jeg vil minnast á. Er hún frá háttv. þm. Str. (MP), á þskj. 405, undir tölulið IV, um 1500 kr. sjúkrastyrk til Sigvalda læknis Kaldalóns. Það er óþarfi að bæta við það, sem háttv. þm. (MP) sagði, því að hann talaði um þetta af miklum kunnugleik og sanngirni. Vil jeg því aðeins mæla með því, að þessi listamaður, sem hefir orðið fyrir því mótlæti að missa heilsuna, fái þennan litla styrk.

Þá á jeg sjálfur brtt. á þskj. 440, um 3000 króna styrk til Gísla sýslumanns Sveinssonar. Eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt, varð Gísli sýslumaður veikur og varð að fara utan sjer til heilsubótar, einmitt um sama leyti og tveimur öðrum embættismönnum var veittur allríflegur styrkur til þess að fara utan sjer til heilsubótar. Var annar þessara manna bæjarfógeti, en hinn læknir. Var Gísli lengi ytra sjer til heilsubótar, og hefir hann farið fram á við stjórnina, að sjer yrði veittur styrkur, og hefir fjárveitinganefnd mælt með því, en stjórnin taldi sjálfsagt að fá heimild frá þinginu í þessu skyni.

Þar sem sýslumaður þessi veiktist um sama leyti og hinir áðurgreindu embættis menn, sem fengu hinn ríflega styrk til að leita sjer heilsubótar, virðist mjer ekki annað fært en veita honum hinn umbeðna styrk, sem er aðeins lítill hluti af þeim kostnaði, sem hann varð fyrir.

Þó að þessum sýslumanni verði veittur þessi styrkur, þá er þar með alls ekki slegið föstu, að ganga skuli út á þessa braut eftirleiðis — síður en svo. Þessi styrkur verður að skoðast í sambandi við styrk til hinna annara embættismanna, sem samtímis var hjálpað. Og það er fult rjettlæti, að sami mælikvarði verði lagður á þennan styrk og hina aðra, en þó er nú hjer farið fram á hlutfallslega langtum minna.

Jeg hefi þá gert grein fyrir þeim brtt., sem undir mig heyra.