08.03.1923
Neðri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Auðunn Jónsson:

Þó að jeg hafi orðið samferða meiri hl. fjhn., þá er langt frá því, að jeg sje ánægður með þær lítilfjörlegu breytingar, sem hann hefir gert á frv. Þó kaus jeg að fylgja honum frekar en minni hl., því bæði er frádráttarakvæði minni hl. og skattstiginn óhæft. Það er ýmislegt í skattalögunum, sem hefir reynst ófært í framkvæmd þeirra, og fer jeg ekki út í það nú. Vil þó aðeins benda á skattaálögur á hlutafjelög eins og þær eru nú, en þar við vill stjórnin bæta þeirri óhæfu, að skatta 4% frádráttinn, sem leyfður hefir verið. Jeg skil ekki, hvaðan hæstv. fjrh. (MagnJ) hefir fengið þá flugu að fella niður það, sem skattfrjálst var hjá þeim, og þannig tví- eða þríborga skatt af þessum 4% Væri nær að líta á reynslu og aðferð nágrannaþjóðanna á Norðurlöndum í þessu efni og breytingar þeirra á síðustu missirum. Þeir hafa sjeð, að varhugavert væri að skattleggja ágóða hlutafjelaga of mikið. Það mundi rýra um of fjárhagslegt gjaldþol þeirra og leiða til þess, að þau borguðu sem mest út af ágóða til hlutaeigenda. En það er mjög varhugavert, þar sem erfitt er til rekstrarfjár. Það er miklu meiri ástæða til að hlífa þessum fjelögum; þau eru nauðsynleg í þjóðfjelaginu.

Hv. frsm. minni hl. (ÞorlG) hjelt því fram, að varla væru til menn í landinu, sem hefðu minna en 1000 kr. tekjur á ári. Ef svo er, þá á er till. minni hl. út í bláinn, því ef enginn hefir undir 1000 kr. árstekjur, fyrir hverja er þá þetta skattfrelsi ?

Frádráttarmunurinn ætti að vera meiri en nú er á tekjum hjá þeim, er búa í sveitum eða kaupstað. Frádráttarupphæðin ætti að vera hærri hjá þeim, sem búa í kaupstað, því allir vita, að þar er margfalt dýrara að lifa. Svo er það bæði í Danmörku og Svíþjóð.

Allri nefndinni kom saman um að hreyfa ekki við þessu atriði, en jeg vænti, að tekið verði tillit til þess við endurskoðun laganna.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. minni hl. (ÞorlG) hefir tvisvar haldið fram, að skattstigi meiri hl. væri hærri á lágtekjum en samkvæmt stj.frv., nægir að benda á, að skattur af 1000 kr. er 8 kr. samkv. till. meiri hl., en eftir frv. stjórnarinnar er hann 10 kr., og meiri munur þar fyrir ofan. Þá var það annað, sem háttv. þm. sagði, að ef skatturinn væri of hár á lágtekjum, þá mundi hann ekki innheimtast. En það er reynsla annara þjóða, sem hafa líkt skattafyrirkomulag og vjer, að því jafnari og lægri sem skatturinn er, því betra að innheimta.

Annars vil jeg benda hv. deild á, að meiri hl. leggur til, að skatturinn lækki á lægri tekjum, en hækki að mun frá því, sem nú er, á þeim hærri. Samkvæmt stj.frv. er skatturinn 50% hærri á hinum hærri skattstigum heldur en hjá nágrannaþjóðunum. En þær byrjuðu með sama skattstiga og vjer höfum, og hafa síðan lækkað skattinn á hinum lægri stigum, en látið hann halda sjer óbreyttan á hærri gjaldendum, og talið það fyrirkomulag að fenginni reynslu það besta.

Skattur á hlutafjelögum ætti að mínu áliti að vera hár á útborguðum arði, sem fram yfir er venjulega sparisjóðsvexti, en lágur á því, sem lagt er í tryggingar og varasjóð, enda er svo í nágrannalöndunum nú orðið, því það mun álit allra, að þessi fjelög, sem oftast eru atvinnufyrirtæki, ættu að standa á sem föstustum fótum fjárhagslega, því efnalegt sjálfstæði þessara fjelaga er grundvöllur allra stærri atvinnufyrirtækja í landi hjer, þar sem einstaklingar eru svo fátækir, að hverjum einstökum er um megn að reka þau fyrirtæki. t. d. botnvörpungaútgerðina.

Hæstv. fjrh. (MagnJ) virtist ánægður með till. meiri hl. og talaði um, að hann hefði tekið það, sem sjer þætti vænst um af till. stjórnarinnar. nema skattstigann. En jeg vona, að hann sjái, að skattstigin í hans er ekki til bóta, því aðeins einhleypt fólk í sveit kemst hjá skatti samkvæmt þeim stiga. Einhleypur maður með 900 kr. tekjur skattfrjálsar er miklu betur settur en öldruð hjón með 1000 kr. tekjur skattskyldar.

Þá vildi hæstv. fjrh. (MagnJ) andæfa till. meiri hl. um frádrátt aukaútsvara áður en skattur er reiknaður af tekjum, og það gæti ekki komið til framkvæmda á þessu ári. En við þetta athugast, að það eru skattanefndirnar einar, sem ákveða frádráttinn, þó að einstaklingar telji fram, og sje jeg ekki betur en að þær geti fengið upplýsingar um útsvaraupphæðir — það er fengið afrit af útsvarsskránnni — og hvað ógreitt sje af þeim, því að auðvitað verða ógreidd útsvör eigi frá dregin. Hann hjelt því einnig fram, að enginn munur væri á að greiða skatt af eyðslueyri og ýmiskonar útgjöldum til lífsnauðsynja og útsvari eða tekju- og eignar- skatti.

Jeg vænti, að hæstv. ráðherra sje þó skiljanlegt, að á þessu sje talsverður munur. Því skattgreiðandi hefir ráð á því fje, sem hann brúkar til lífsframfæris, en útsvör og skattar er tekið af honum án hans vilja, og yfir þeim upphæðum hefir hann engin umráð. Jeg er því samþykkur hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að það beri að draga öll gjöld frá tekjunum áður en skattur er reiknaður, en á það gátu meðnefndarmenn mínir ekki fallist. En við endurskoðun laganna vona jeg, að því verði breytt. Það er sýnileg misbeiting í álagningu skattsins að skatta þá upphæð, sem fer til skattgreiðslunnar.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) og fleiri hafa talað um, að tekjuskatturinn kæmi illa niður hjer í Reykjavík og harðar en annarsstaðar. Og vil jeg ekki neita því, að svo geti verið, enda veit jeg um tvö dæmi þess. Þetta er eðlilegt; skattalögin eru ný og skattanefndir óvanar starfinu. Eina ráðið til að koma í veg fyrir þetta er að hafa einn yfirskattstjóra fyrir land alt. En sjálfsagt er, að frádráttarreglurnar sjeu misjafnar, meiri frádráttur leyfður þar, sem dýrara er að lifa, en minni þar, sem framfærslan er ódýrari. Það má benda á, að í Reykjavík og á Ísafirði eru 1000 kr. varla jafngildi 800 króna annarsstaðar á landinu.

Nægir í því efni að benda t. d. á hina afarháu húsaleigu á þessum stöðum. Læt jeg svo úttalað um þetta mál að sinni, en vil endurtaka það, að jeg vona, að tekið verði tillit til þess, sem jeg nú hefi sagt, við endanlega endurskoðun laganna.