24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

139. mál, fjáraukalög 1923

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Hv. fjvn. og hv. Nd. hafa nú fengið ósk sína uppfylta, að fá frv. til fjáraukalaga lagt fyrir deildina. Það hefir þegar sýnt sig, hvert það muni stefna, því að svo má segja, að hjer hafi orðið líkt sem stífla væri tekin úr á, því að heill fjöldi af brtt. hefir þegar hlaðist á þau; fyrst hljóp stjórnin sjálf á vaðið, og svo hefir háttv. fjvn. og einstakir þingmenn fylgt dyggilega í kjölfarið. Er það í fylsta máta eðlilegt, að stjórnin vilji ná í eitthvað af fjenu, sem fyrirsjáanlegt er, að muni verða ausið út, til nytsamra fyrirtækja, úr því á annað borð farið var að leggja frumvarp þetta fyrir þingið, og stofna þar með til aukaútgjalda, sjálfsagt margra óþarfra. En jeg skal taka það fram, að svo framarlega, sem háttv. deildarmenn vilja sýna þá sjálfsafneitun að taka eitthvað af brtt. sínum aftur, þá mun síst standa á mjer að draga mig til baka með eitthvað af mínum.

Annars finst mjer ekki vera úr vegi nú við 2. umr. fjáraukalaganna að gefa dálítið yfirlit yfir, hvernig peningasjóður ríkisins stendur nú. Er þá fyrst, að í sjóði hjá ríkisfjehirði eru nú um 310 þús. króna. Þar sem svo langt er áliðið, má því telja, að allar tekjur frá fyrra ári sjeu nú inn komnar, og sennilega langmest af tekjum fyrsta ársfjórðungs; en á þessum ársfjórðungi, sem yfir stendur, er lítilla tekna að vænta, ef að vanda lætur. En hins vegar kemur til útborgunar bráðlega allmikið fje, svo sem til vegagerða, Flóaáveitunnar o. fl. Og í júní koma afborganir og vextir af öllum lánum ríkisins. Til þessa alls eru því nú í sjóði 310 þús. kr. En auk þess má vænta áskilinna gjalda frá Landsversluninni, um 400 þús. kr. á öllu árinu, eða 100000 kr. á þessum áfjórðungi. Má því varla gera ráð fyrir, að á þessum ársfjórðungi verði meiru úr að miðla til allra útborgana en 1/2 milj. kr., þar á meðal upp í öll útgjöld og skuldir, en þær eru þessar: Lausar skuldir til bankanna eru nú 591 þús. kr. og að auki í dönskum krónum 748 þúsund, bæði til Landsbankans og Handelsbankans. Er útlitið því alt annað en glæsilegt, og vona jeg, að háttv. þingdeildarmenn sjái, að vafalaust mun ekki vera hægt fyrir stjórnina að standa í skilum með þau gjöld, sem eru í fjárlögum, nema með því að taka ný lán. Og eigi svo að fara að setja stórar upphæðir inn í fjáraukalög til útborgunar nú þegar, fer skörin að færast upp í bekkinn. Þetta vona jeg, að háttv. þm. athugi við atkvæðagreiðsluna. Af framanskráðu yfirliti verður það og ljóst, að ekki getur komið til mála að veita nein lán, hvort sem þau standa í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þessu lýsi jeg yfir í heyranda hljóði, svo engir geri sjer vonir um þau.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt. Um brtt. við 2. gr. frv. þarf jeg ekkert að segja, því að þær eru í samræmi við till. fjvn.

Þá á jeg brtt. á þskj. 405, IV. liður, uni 10000 kr. aukastyrk til Breiðaflóabátsins Svans. Er till. þessi borin fram í samráði við fjvn., á þann veg, að báturinn fái 10 þús. kr. í ár, auk hins reglulega styrks, og 6000 kr. á næsta ári. Vænti jeg því, að brtt. þessi verði samþykt.

Þá á jeg einnig VIII. brtt, á sama þskj., sem jeg tók aftur við 2. umr. fjárlaganna, og skýrði jeg þá frá, að tilætlunin með a-lið hennar væri að kaupa skúrhús, ásamt lóðarrjettindum, túni og girðingum, handa vitaverðinum á Garðskaga. Hús þetta, sem virt er á 4900 kr., fæst nú keypt fyrir 4000 kr. Þeirri spurningu var þá skotið fram, hvort ekki væri meiningin að láta vitavörðinn borga leigu eftir hús þetta og lóð. Hefi jeg því leitað álits vitamálastjóra um það. En hann telur það ósanngjarnt, því að margir vitaverðir hefðu slík hlunnindi, og væru laun þeirra miðuð við það. Þannig hefði t. d. vitavörðurinn á Gróttu ókeypis húsnæði í góðu húsi, sem einnig fylgdi kálgarður, og hið sama væri að segja um vitaverðina á Reykjanesi, Vestmannaeyjum, Dalatanga og Siglunesi. Yfirleitt væru laun þeirra svo lág, að ekki gæti ósanngjarnt talist, þó að þeir hefðu þessi litlu hlunnindi aukreitis. Og um Garðskagavitavörðinn væri það að segja, að laun hans væru sjerstaklega lág, og mælti hann því eindregið með því, að honum væru veitt þessi hlunnindi, því að ríkissjóð munaði það mjög litlu, en vitavörðinn aftur miklu.

Þá er b-liður þessarar brtt., til vitabygginga 1921 og 1922 75 þús. kr. Það ár var heimilað að byggja 4 vita fyrir alls 150 þús. kr. Fram úr þessari upphæð hefir í rauninni ekki verið farið, en þessi upphæð er nær því öll gengismunur, því að á þessum árum Var keypt mikið efni til vitabygginga frá Svíþjóð, eins og að undanförnu. En sökum peningavandræða og sumpart sökum yfirfærsluvandræða er upphæð þessi ekki borguð enn þá. En nú er ekki hægt að komast hjá að greiða hana.

Þá er c-liður VIII. brtt. á sama þskj., styrkur til byggingar innsiglingarvitanna við Berufjörð, 4000 kr. Ástæðan fyrir fjárveitingu þessari er sú, að í fyrra voru bygðir nokkrir vitar þar á sýslu og var áætlað, að þeir myndu kosta 16–18 þús. kr. En þeir kostuðu 5000 kr. meira, og stafaði það sjerstaklega af því, að Hrómundareyjarviti var bygður sem gasviti í stað olíuvita. Varð kostnaðurinn við hann því 1–2 þús. kr. meiri en áætlað var. Einnig komst sement til vitanna ekki með þeirri ferð, sem það átti að koma. Varð það einnig til þess að hleypa fram kostnaðinum.

Nú stendur einmitt svo á, að landið hefir borgað allan kostnað við vitana, t. d. í Sandgerði, Hvanneyri og víðar. Mælir því sanngirni með því að ljetta þessu af hreppunum, að minsta kosti að því leyti, sem kostnaðurinn fór fram úr áætlun.

Þá kemur undir d-Iið tillaga um fjárveitingu til endurbyggingar sjómannaskýlis á Kálfafellsmelum og endurreisnar stauraraða og til sjómerkja, 29000 kr. Eins og háttv. þdm. er kunnugt, var skýli þetta reist um síðustu aldamót af Thomsen konsúl austur á söndunum og stauraröð sett þaðan til bygða. Hefir þetta orðið mörgum strandimönnum til björgunar, og er því óþarfi að fjölyrða um, hve nauðsynlegt sje að halda því við.

Þessi liður sundurliðast þannig:

Staurarnir kosta 5500 kr.

Sjómerki ........... 6000 –

Húsið sjálft ....... 18000 –

29500 kr.

Húsið er nú að vísu ekki alveg farið, og vera kann, að það geti hangið uppi eitt ár enn þá, en sjómerkin tvö, annað á Meðalfellstanga og hitt á Kálfafellsmelum, er brýn nauðsyn á að endurreisa nú þegar. Mannúðarinnar vegna má ekki fresta því, og ekki heldur því að veita nægilegt fje til viðhalds þessum mannvirkjum, sem svo mörgum hafa til lífs orðið á þessum eyðistöðum. Það var upphaflega farið fram á það við stjórnina, að hún ljeti gera þetta upp á væntanlega fjárveitingu, en hún hefir frestað því, til þess að geta fengið úrskurð þingsins um það, og er nú eftir að sjá, hvað það gerir.

Næst á jeg undir tölulið XX tillögu, sem ýmsum kann nú máske að koma undarlega fyrir, þ. e. styrkur til Þorvalds Árnasonar stúdents, til lokanáms við ullarverksmiðju í Englandi, 8000 kr. Kaupmaður einn hjer í bænum skýrði mjer frá því í vetur, að þessi stúdent væri við nám í Englandi og ætlaði sjer að verða ullariðnaðarfræðingur. Hefir hann brotist áfram við námið með tilstyrk vina sinna, en er nú þrotinn að fje og þarf á styrk að halda til þess að geta lokið náminu, í brjefi frá honum, sem jeg hefi fengið, skýrir hann frá, að hann hafi nú þegar verið 3 ár við nám í þessari grein í verksmiðjubænum Huddersfield í Englandi, og hefir hann verið við verksmiðju, þar sem hann hefir fengið að kynna sjer allar deildir, undir umsjón forstöðumannsins. Hefir hann þegar lokið fyrrihlutaprófi og fengið mjög háar einkunnir, að því er virðist. Er einkunnastiginn að vísu öðruvísi en við eigum að venjast, eða reiknað í hundraðshlutum, en þar sem lægst einkunn hjá honum er 63%, er auðsjeð, að þar er um gott próf að ræða.

Til lokanáms býst hann við að þurfa að verja enn 16 mánuðum, en er vonlaus um að fá stuðning annarsstaðar frá. Gerir hann ráð fyrir að þurfa sem næst þessari upphæð, sem hjer er farið fram á, þennan tíma, sem hann á eftir, eða £ 250–300. Jeg get lýst því yfir, að persónulega þekki jeg ekki þennan mann neitt, svo að það er ekki af þeim orsökum, sem jeg kem með þessa till. En nú er, eins og háttv. þdm. er best kunnugt um, mikill áhugi í landinu á því að koma upp ullarverksmiðju, einni eða fleirum; hjer í þinginu hefir jafnvel verið minst á 2 eða 3. En hvað sem um það er, þá er hjer von á manni, sem gengið hefir mentaveginn, hefir þegar tekið ágætt próf í þessari grein — „first class“ stendur í skírteininu — og verður fullkomlega fær um að taka að sjer stjórn á fullkominni ullarverksmiðju, þegar þörf verður á. Er mikið í það varið að hafa færan innlendan mann til þess að geta tekið að sjer stjórn á slíkri verksmiðju, ef stofnuð yrði.

Jeg býst við að hafa tækifæri til þess að ræða um ullarverksmiðjumálið, þegar jeg svara fyrirspurn háttv. 1. þm. Árn. (EE), en jeg get ekki stilt mig um, í þessu sambandi, að geta þess, að mjer hefir verið tjáð af skilríkum manni, að enskt firma í bænum Huddersfield muni ef til vill gera tilboð um að byggja hjer 1. flokks ullarverksmiðju og bjóðast til að útvega lán í Englandi, alt að 1/3 af byggingarkostnaði verksmiðjunnar, gegn 4% vöxtum og 1. veðrjetti í verksmiðjunni. Býst fjelagið við, að svoleiðis verksmiðja kosti ekki mikið yfir eina miljón króna, og er hugmyndin, að ríkið leggi til 1/3, einstakir menn 1/3 og 1/3 útvegi fjelagið samkvæmt framansögðu. Fjelagið mun ætla að senda hingað út mann í sumar, upp á sinn kostnað, til þess að athuga staðháttu alla. Ef þetta væri nú í vændum, að slík verksmiðja kæmist upp, þá væri gott að hafa mann til taks. Mundi fjelagið, sem jeg hefi áður nefnt, veita verksmiðjunni forstöðu fyrstu 2–3 árin, meðan alt væri að komast í gang, en að þeim tíma liðnum yrði Þorvaldur útlærður og gæti tekið við. Býst jeg við, að ef háttv. þdm. er á annað borð alvara með þetta ullariðnaðarmál, þá greiði þeir atkvæði með þessari styrkveitingu.

Þá á jeg ekki sjálfur fleiri brtt., en ætla að minnast lítið eitt á brtt. XIX á sama þskj., frá meiri hluta sjútvn., þar sem hún fer fram á, að tveim fiskimatsmönnum verði veitt launahækkun, en ekki öðrum. Fiskimatsmennirnir eru yfirleitt óánægðir með laun sín, þó svo virðist reyndar, sem þau sjeu sæmileg, borin saman við laun margra annara. Þegar þessi starfi losnaði síðast í Vestmannaeyjum, var afarerfitt að fá mann í sætið, og voru sett upp alt að 3 sinnum hærri laun en ákveðið er. Það má því búast við, að ef þessum mönnum verður veitt uppbót, þá komi allir á eftir, enda sanngjarnt að veita annaðhvort öllum eða engum.

Háttv. þm. Str. (MP) á till. á þskj. 424, og mæli jeg með því, að hún verði samþykt, því hún er mjög sanngjörn og bygð á því, að Andrjes heitinn augnlæknir, maður þessarar konu, sem hjer ræðir um, hafði verið embættismaður ríkisins. En í sambandi við þetta vil jeg benda háttv. þdm. á þá anomali, sem komin er inn í þingið út af eftirlaunum ekkna. Það er nú svo komið, að ef einhver ekkja á einhvern þingmann sjerstaklega að, þá fær hún orðalaust aukin eftirlaun sín, en hinar, sem engan eiga að, eða ekki hafa rænu í sjer til að fara á fjörurnar, sitja við sín gömlu sultarlaun, og það þótt menn þeirra hafi ef til vill verið miklu merkari menn en menn hinna og unnið þjóðinni meira gagn. Er því rangt að láta ekki allar fá jafnt. Kemur þessi munur fram með ekkjur presta sjerstaklega, en líka með ekkjur annara embættismanna. Vil jeg beina athygli háttv. fjárveitinganefndar að því, án þess að nefna nöfn, að engin meining er í því að gera þennan mismun.