24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jakob Möller:

Af því að þær brtt., sem jeg hefi borið fram við frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1923, nema talsverðu af þeirri fjárhæð, sem brtt. þm. gera til samans, þá verð jeg að láta nokkur orð fylgja þeim. Hæstv. atvrh. (KIJ) gaf það í skyn áðan, að ekki væri sem varlegast farið í að auka gjöld ríkissjóðsins, og mun hann þar hafa átt við, að þm. væru of ósparir að koma fram með brtt. við frv. þetta. Fljótlega litið til virðist mjer frv. ásamt brtt. vera komið upp í 357 þúsund kr. Af því kemur á hæstv. stjórn 235 þúsund, fjvn. 55 þúsund og aðra þm. til samans 67 þúsund. Það sjest því, að till. einstakra þm. gera ekki sjerlega háa upphæð. Auk þess eru nokkrar þessar tillögur um uppbót á launum starfsmanna ríkisins, sem hæstv. stjórn hefði í raun rjettri átt að bera fram, enda sumar bornar fram af sjávarútvegsnefnd og aðrar í samræmi við samskonar till., sem áður hafa verið samþyktar og komnar eru inn í fjárlagafrv. fyrir árið 1924. Auk þess eru svo nokkrar smávægilegar till. aðrar, sem jeg skal nú gera grein fyrir með fáum orðum.

Jeg kem þá fyrst að till. þeirri, sem háttv. þm. Borgf. (PO) lagðist á móti, um 1600 kr. styrk til Páls Vigfússonar. Háttv. þm. virðist líta svo á, sem þessi styrkur heyri undir venjulega utanfararstyrki, og sje hjer um hreint eyðslufje að ræða. En svo er ekki. Hann stendur í beinu sambandi við berklavarnalögin. Eiginlega er hjer ekki um neina fjárveitingu að ræða, því þótt þessi liður yrði feldur, myndi samt þessi fjárhæð verða veitt af opinberu fje. Þessi maður er nú á sjúkrahúsi hjer í bænum og er borgað þar með honum af opinberu fje. Kostar vera hans þar 8 kr. á dag, og þar sem ekki verður um skemri tíma að ræða en 200 daga, er upphæðin, sem hjer er farið fram á. þegar komin. Jeg hefi heyrt, að umsókn um þennan styrk hafi þegar legið fyrir háttv. fjvn, og hafi hún ekki treyst sjer til að mæla með honum, af því að hún hafi óttast fordæmið. En hjer stendur svo á, að þessi maður hefir hugsað sjer, með tilstyrk vina sinna, að leita sjer heilsubótar erlendis, en sá styrkur hrekkur ekki til fulls. Er því ekki að óttast fordæmi að því leyti, að þeir munu verða fáir, sem kost eiga á svo miklum styrk utan þess opinbera, sem með þarf. Annars legg jeg aðaláhersluna á þetta, að það fje, sein hjer er um að ræða, myndi verða veitt honum hvort sem er.

Þessi maður var í þann veginn að verða stúdent, er hann tók veikina. Hann var um tíma á Vífilsstöðum, og mun flestum hjer kunnugt, hversu veru hans þar lauk. Er hann hvergi nærri búinn að ná heilsu sinni og hefir verið á sjúkrahúsi hjer síðan hann fór af hælinu. Vildi jeg annars mælast til þess, að Vífilsstaðamálið yrði ekki neitt dregið inn í umr. í þessu máli.

Um hinn styrkinn, til Elínar Sigurðardóttur, er nokkuð öðru máli að gegna. Hún er ekki þannig sjúk, að hún nái undir fyrirmæli berklavarnalaganna. Af henni stafar ekki smitunarhætta. En efni hennar eru nú alveg gengin til þurðar, svo að hún getur nú ekki lengur komist af, nema hún sje styrkt. Þessi stúlka hefir verið í þjónustu þess opinbera, bæði sem kenslukona og póstafgreiðslumaður. Getur hún því vel skoðast sem opinber starfsmaður, og er full ástœða til að veita henni þennan styrk. Vonast jeg til, að háttv. þingdm. taki vel í þessa beiðni.

Þá kem jeg að uppbótinni á launum starfsmanna við landssímann, sem er í samræmi við það, sem samþykt hefir verið í fjárlögum fyrir árið 1924. Efast jeg ekki um, að háttv. þdm. vilji veita þessa uppbót fyrir yfirstandandi ár, úr því þeir voru henni samþykkir fyrir næsta ár. Er í rauninni meiri ástæða til að veita hana nú en síðar, þar sem enginn getur vitað, hverju fram kann að vinda á næsta ári.

Þá er hjer ein brtt. frá sjútvn., sem samþykt hefir verið í fjárlögum fyrir árið 1924. um að veita Bjarna Sæmundssyni lausn frá kennaraembætti, en styrk til fiskirannsókna. Er upphæðin, sem hjer er farið fram á, 1250 kr., laun fyrir þrjá síðustu mánuði ársins.

Þá er hjer till. frá mjer um að veita námsmanni Ásgeiri Þorsteinssyni styrk til lokanáms á verkfræðiskólanum. Hefir það verið siður að veita efnilegum mönnum styrk til að ljúka námi á þeim skóla, og tel jeg rjett, að svo verði enn. Þessi maður er rjett að því kominn að ljúka námi; mun hann taka burtfararpróf að vetri. En hann hygst að leggja stund á verksmiðjufræði, til þess að geta síðar beitt sjer fyrir þesskonar framkvæmdun; hjer á landi, er miða að því, að hagnýtt verði þau hráefni, sem landið hefir að bjóða. Þótt hann sjái sjer fært að ljúka námi á þessum skóla, sem hann er nú á, þá býst hann við, að efni vanti til framhaldsnámsins. Faðir hans hefir hingað til styrkt hann til náms, eins og öll sín börn. Var hann um tíma kallaður vel stæður maður, en hefir nú fyrir skömmu tapað öllum eignum sínum, og treystist því ekki lengur til að kosta þennan son sinn til námsins. Þar sem hjer er um mann að ræða, sem síðar mun ganga í landsins þjónustu, þá tel jeg engum efa bundið, að styrkurinn komi að fullum notum, ef hann verður veittur. Væri óviturlegt að horfa í nokkrar krónur til að efla iðnaðinn í landinu, svo mjög sem oss skortir á í því efni. Jeg sje, að hæstv. atvrh. (KIJ) hefir komið fram með brtt. um styrk handa manni, sem stundar svipað nám. Hefir hann tekið nokkru dýpra í árinni, þar sem hann fer fram á 8000 krónur.

Þá er hjer enn brtt., sem jeg bar einnig fram við fjárlagafrv., en var feld, að jeg held fyrir misskilning. Það var fjárveiting til Páls Ísólfssonar, að upphæð 2000 kr. Á þinginu í fyrra var samþ. í Nd. að veita honum 4000 kr. til að halda áfram námi. Upphæðin var svo lækkuð um helming í háttv. Ed. Veit jeg, að ef jeg hefði þá getað komið að till. um að hækka hana aftur, þá hefði það orðið. Býst jeg því við, að háttv. deild bæti við þessum 2000 krónum. Á jeg bágt með að skilja, að menn verði svo ósamkvæmir sjálfum sjer, að láta hjer staðar numið.

Þá kem jeg að brtt. þeirri um launauppbót fiskimatsmanna, sem hæstv. atvrh. (KIJ) gat um áðan. Hann furðaði sig á því, að meiri hlutinn skyldi aðeins hafa tekið þessa tvo fiskimatsmenn, en hina ekki. Þannig er því varið, að nefndin hefir ekki sjeð umsókn um launauppbót nema hjá þrem af þessum mönnum. Að hún ekki tók þá alla, stafar af því, að hún leit svo á, að nokkuð sjerstaklega stæði á um þessa tvo menn. Fiskimatsmaðurinn hjer í Reykjavík er auk þess starfs nokkurskonar ráðunautur stjórnarinnar í þeim málum, og er því mikilsvert að hafa góðan mann í þeirri stöðu. Auk þess kemur dýrtíðin einna harðast niður hjer. Yfirfiskimatsmaðurinn á Ísafirði er tekinn með, sem stafar af því, að Ísafjörður er talinn annar dýrasti staður á landinu. Um uppbót til Jóns Magnússonar yfirfiskimatsmanns var nefndin öll sammála, en meiri hl. nefndarinnar mælir með hinum. — Það skal tekið fram, að nefndinni er kunnugt um, að Jóni Magnússyni hefir verið gerður kostur á betur launaðri stöðu en fiskimatsstarfið. Verður því ekki annars vænst en að hann segi því lausu, ef kjörin verða ekki bætt. Á hinn bóginn telur nefndin það afarmikilsvert, að hann verði kyr við starfið, og vill vekja athygli hv. deildar á því, hve afskaplega mikils varðandi það er, að fiskimatið fari vel úr hendi og að því gegni góðir menn.

Þá er brtt. á þskj. 405, um að veita nefndri prestsekkju 300 kr. styrk til eftirlauna. Jeg gat um ástæður fyrir þessa við umr. fjárlaganna, og þarf ekki að endurtaka það hjer, enda er þetta í samræmi við samskonar fjárveitingu í fjár lagafrv. fyrir 1924. Út af ummælum hæstv. atvinnumálaráðherra skal jeg vekja athygli háttv. þdm. á því, að þau ummæli eiga ekki við þessa ekkju, því að þau 20 ár, sem liðin eru síðan hún varð ekkja, hefir engin styrkbeiðni komið frá henni til þingsins. En nú er hún komin á grafarbakkann, og verður hún væntanlega ekki þungur ómagi á ríkissjóði.

Loks á jeg brtt. á þskj. 430,11, um að veita Kvenrjettindafjelagi Íslands 2000 krónur til allsherjarfundarhalds fyrir konur af öllu landinu hjer í Reykjavík í sumar. Eins og kunnugt er, hafa karlmenn betri tækifæri til að koma saman og kynnast, en konurnar verða venjulega að sitja heima. Þess vegna er rjett að veita konum þennan styrk. Það þarf ekki að ræða um þýðingu þess, að konur komi saman af öllu landinu, til þess að ræða um nauðsynjamál á þeim sviðum, sem þær eiga sjerstaklega um að fjalla. Karlmenn hafa aðgang að mörgum fjelögum til þess að ræða sín mál og fá á ýmsan hátt beinan og óbeinan styrk til að koma saman, með greiðslu ferðakostnaðar o. s. frv., t. d. hjer á Alþingi, Búnaðarþingi, Fiskiþingi o. fl. Á því eiga konur eigi kost, og er því sanngjarnt að veita þeim styrk í fjárlögum í þessu skyni. Vona jeg, að ekki þurfi að rökstyðja þetta frekar fyrir háttv. þdm.