25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

139. mál, fjáraukalög 1923

Stefán Stefánsson:

Eins og hæstv. forsætisráðherra tók fram í gær, þá hafði jeg minst á það við stjórnina, hvort hún myndi ekki sjá sjer fært að bera fram frv. eða tillögu um framlög úr ríkissjóði til byggingar sjóvarnargarðsins á Siglufirði. Nú er frv. komið fram, og verð jeg að segja það, að mjer finnast skilyrðin fyrir fjárveitingunni, þar sem Siglfirðingum er gert að greiða kostnaðarins og síðan alt viðhald, ærið harðsnúin. Ekki hvað síst er það viðhaldið, sem veldur óhug hjá mjer, vegna reynslunnar á því, hvernig garðurinn hefir bilað hvað eftir annað. Garðurinn var upphaflega bygður eftir tillögum og undir umsjón hafnarverkfræðings, þess manns, sem búast mátti við, að væri færastur manna til þess að hafa verkið á hendi. Þetta var árið 1915–1916 og voru þá veittar til hans alls 34515 kr. Síðar skemdist hann á árunum 1919–1922, og voru þá aftur lagðar til hans frá ríkinu rúmlega 8 þús. kr. Og nú er enn svo komið, að garðurinn má heita gersamlega fallinn, þótt hann sje frá upphafi gerður af þessum lærða hafnarverkfræðingi ríkisins. Það er þessi sorglega reynsla, sem gerir það að verkum, að mjer finst harla óvarlegt að ganga að þessu harða skilyrði um viðhaldið. Hefi jeg átt tal um þetta við bæjarfógetann á Siglufirði, og var hann gersamlega mótfallinn því fyrir hönd bæjarins, að viðhaldsskyldunni væri að öllu leyti dembt á bæjarfjelagið. Hins vegar býst jeg við, að þeir telji sjer fært að taka á sínar herðar 1/3, af byggingarkostnaðinum. Því er það, að jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt., sem fer fram á, að viðhaldið verði miðað við sama hlutfall, og Siglfirðingum sje því gert að greiða 1/3 af því. Með því ætti að vera sæmilega trygt, að þessi dýra eign landsins fari ekki forgörðum vegna hirðuleysis. En þessari brtt. minni hefir hv. fjvn. ekki talið sjer fært að sinna, og er síst hægt að segja, að henni hafi farist betur en stjórninni, því hún gengur enn lengra og fer fram á, að Siglfirðingar taki að sjer helming kostnaðarins og alt viðhald, sem jeg verð að telja með öllu óforsvaranlegt, og vil jeg því fastlega vænta þess, að mín tillaga hljóti náð fyrir augum háttv. þm.

Þá er enn tillaga um, að ríkið veiti alt að 15000 kr. lán til byggingarinnar. Er það auðvitað miðað við það, að bærinn leggi fram aðeins 1/3, því annars er sýnilegt, að sú upphæð nægir ekki. Og jeg get verið þakklátur nefndinni fyrir það að hún vill, að heimild til þessarar lánveitingar verði veitt, enda má segja, að hvorki hún nje hæstv. stjórn geri málið of aðgengilegt fyrir Siglufjarðarkaupstað, þó það nái fram að ganga. Annars er örðugt að skilja, að svona skuli vera tekið í þetta mál, þar sem þetta dýra mannvirki hefir tvívegis farið forgörðum, þrátt fyrir það, að forstöðu verksins hafði á hendi sá maður, er stjórnin vissi hæfastan til þess.

Jeg sje nú ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta að sinni, en vildi ekki láta hjá líða að skýra háttv. þm. frá skoðun minni, sem jeg hygg, að muni vera í fullu samræmi við einróma álit Siglfirðinga sjálfra. Og að endingu vil jeg taka það fram, að mjer finst hæpin sanngirni í því, að Siglfirðingar gangi undir þessi hörðu skilyrði, eftir alt, sem á undan er gengið, þar sem þó tæplega er að vænta, að betri forstöðumaður fáist fyrir verkið en sá, er áður hefir haft það á hendi, og síst ódýrari tímar nú en þegar garðurinn var bygður.