25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

139. mál, fjáraukalög 1923

Magnús Jónsson:

Jeg á brtt. á þskj. 426. Það er beiðni um námsstyrk til verkfræðinema Magnúsar Konráðssonar, sem nú stundar nám við fjöllistaskólann Kaupmannahöfn. Er þetta 5. námsár hans og hefir hann þegar lokið fyrrihlutaprófi. En nú er fjárhag hans svo farið, að næsta tvísýnt er, að hann geti lokið náminu að fullu, án þess að hann fái þennan styrk frá ríkinu. Hefir stundum áður verið veittur slíkur styrkur til lokanáms fátækum stúdentum. Jeg hefi farið fram á, að honum yrðu veittar 2400 kr., og mun það vera sú minsta upphæð, sem hann getur komist af með, þar sem hann er sjálfur alveg fjevana og hefir þegar tæmt sitt lánstraust, svo, að lítil von er fyrir hann að geta sjálfur bætt sjer það, sem á vantar.

Jeg sje, að fram er komin tillaga um að veita dálitla upphæð í því skyni að bæta stúdentum upp halla þann, sem þeir verða fyrir af gengismun peninganna. Tel jeg þetta vel ráðið. Jeg hefi kynst því persónulega, einmitt í sambandi við þennan stúdent, sem jeg var nú að tala um, hve hörmulegt það er, að gengismunurinn skuli höggva stórt skarð í þær smáupphæðir, sem þessir fátæku stúdentar hafa náð sjer í að láni eða með öðrum hætti.

Varatillögu flyt jeg við þessa brtt. mína, ef hið háa Alþingi sæi sjer ekki fært að veita alla upphæðina í einu. Vona jeg þó, að aðaltillagan nái samþykki.

Þá vil jeg minnast örlítið á 2 þús. kr. til dr. Helga Pjeturss. Nokkrir hv. þm. hafa komið fram með aðra till. á þskj. 405. XIV. um nokkuð lægri viðbótarstyrk, og sýnir það, að margir þingmenn vilja unna honum einhvers styrks, enda er maðurinn alkunnur, þó allmjög sje um hann deilt og hann sje álitinn alt frá því að vera frábærlega mikill spekingur og ofan í frávita mann. Er oft erfitt að dæma um slíkt, en hvað svo sem því líður, þá er maðurinn frábær að lærdómi og gáfum. náttúrufróður og tungumálamaður ágætur. Les hann og skrifar ensku, þýsku og frönsku, auk Norðurlandamálanna, og hin erfiðustu latnesku og grísku rit les hann eins og við lesum danskar bækur, t. d. gríska heimspekinga viðstöðulaust. Hann er orðinn fádæma fjölfróður og víðlesinn. Hann skrifar íslensku svo, að haft er að ágætum. Eru þeir ekki margir, sem lesnir eru með meiri aðdáun, og er þó efni hans ekki við alþýðuhæfi. Að vísu er vandgert við slíka menn. Enga bletti er erfiðara að má af þjóðunum en þá, ef þær hafa ekki gert vel við sína bestu menn. En meðal okkar er nú enginn, sem hættulegri er í þessum efnum en dr. Helgi Pjeturss. Að vísu munu kannske sumir segja, að allvel hafi verið til hans gert með styrknum til jarðfræðirannsóknanna. Jeg hefi nú breytt orðalaginu og kallað styrkinn til vísindaiðkana, og jafnframt hækkað hann, því hann getur ekki lifað á því, sem hann hafði áður, en á hinn bóginn hefir hann, svo sem kunnugt er, upp á síðkastið fengist við önnur vísindi en jarðfræði. Mjer eru að vísu ekki kunnar heimilisástæður hans, en jeg hygg, að þær hafi fremur versnað síðan móðir hans fjell frá, því þó hún væri fjörgömul, kendi hún mikið hljóðfæraslátt, og mun ekki síst hafa munað um það fyrir heimilið.

Þá á jeg eina till. enn, um kaup á handritum dr. Jóns J. Aðils, alt að 10 þús. kr. Það er ekki vert að ákveða neina vissa upphæð; það verður að fara eftir því, hvernig samningar takast, en þarna er þó miðað við minni upphæð en þegar bækur hans hafa verið gefnar út. Handritin eru fyrirferðarmikil og ná yfir mestan hluta af sögu landsins Jeg veit ekki, hvort þau eru hæf til prentunar, — látnum mönnum er stundum óleikur gerður með því að gefa út rit, sem þeir hafa ekki gengið frá sjálfir. En handritin ættu að liggja frammi í Landsbókasafninu að minsta kosti. Jeg skal líka geta þess, að dr. Jón Aðils skrifaði allra manna fegursta rithönd, og væri því meiri fengur að þessu fyrir safnið, því að óhugsandi er, að handrit geti verið aðgengilegri en þessi. Jeg hefi einnig borið fram varatillögu um 2500 kr. afborgun fyrst og svo greiðslur smámsaman árlega. Jeg hafði hálfvegis búist við því, að hæstv. forsrh. mundi bera mál þetta fram. (Forsrh. SE: Jeg hefi ekki verið beðinn um það). Mjer þykir þá að minsta kosti vænt um að heyra, að hann hefir ekki synjað um það, og því ekki afskorið, að hann veiti því liðsinni sitt.

Mig langaði að vísu til að minnast á nokkrar fleiri brtt., en vil ekki tefja tímann með því. Till. um bætur á gengishalla stúdentanna hefi jeg minst á áður og vil mæla hið besta með henni. Mig hefði einnig langað til að mæla með till. um styrk til Sigurðar Guðmundssonar húsagerðarmeistara. Hann var mjer um eitt skeið allkunnugur sem listhneigður og áhugasamur maður. Sömuleiðis hefði jeg viljað mæla með launabótinni til vinar míns, prófessors Sigurðar P. Sívertsens, en get það ekki vegna tímaskortsins og af sömu ástæðum verð jeg einnig að sleppa því, að tala um orðabók Sigfúsar Blöndals. En jeg vil skjóta því hjer fram, sem einn greinargóður maður sagði við mig nýlega, að tvö merkustu verkin, sem nú væri verið að vinna hjer, væri þessi orðabók og kortagerð herforingjaráðsins. Sjerstaklega vil jeg vekja athygli á því, að orðabókin á að eiga sig sjálf, svo að þetta er ekki einungis lokaveiting í þetta skifti, heldur um alla tíð, en verkinu verður haldið áfram, enda reynast málin alveg ótæmandi, þegar á að fara að skrá þau í orðabækur.