25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

139. mál, fjáraukalög 1923

Bjarni Jónsson:

Jeg á till. viðvíkjandi Sigurði P. Sívertsen og aldursuppbót á launum hans hjer við háskólann, en við hann hefir hann starfað frá stofnun hans 1911. Var hann fyrst það, sem dósent er kallað — með s auðvitað — með venjulegum launum. Síðan varð hann prófessor; 1916 fjekk hann 400 kr. launabót og einnig nokkuð seinna. En þegar hann varð prófessor, var talið svo, sem það væri nýtt embætti og ætti að byrja með lægstu launum án tillits til þjónustuára hans sem dósents á undan.

Það er hart, að þessi maður, sem hefir verið kennari og kent það sama frá 1911, skuli enn ekki vera kominn á hæstu laun. En þetta hefir komið til af því, að maðurinn hefir ekki altaf borið sama nafn, enda þótt hann hafi kent það sama. Fyrst var hann nefndur dósent, sem er hluttaksorð af doceo, en síðar prófessor, sem er komið af profiteor, en bæði orðin þýða í latneskri tungu það sama: að kenna.

Í 7. gr. launalaganna frá 1919 segir:

„Þá skal og talinn til þjónustuára þeirra embættismanna, sem hlut eiga að máli, sá tími, sem þeir hafa gegnt stunda- eða aukakennarastörfum við skóla ríkisins, með eigi minni stundafjölda á viku en krafist hefir verið af föstum kennurum.

Sömuleiðis skal telja til embættisára þau ár, sem prestar hafa gegnt sem aðstoðarprestar, læknar sem aukalæknar og núverandi vegamálastjóri sem aðstoðarverkfræðingur“.

Þessir menn allir eiga að njóta sömu launa, sem þeir hefðu verið skipaðir, og þótt þeir hafi aðeins verið auka eða tímakennarar, er því auðsætt, hversu ranglátt það er, að farið sje ver með þennan mann en þessa.

Ætti ekki að þurfa annað til þess, að maðurinn fengi þessa uppbót, en að stjórnin skildi lögin skynsamlega. Skildi þau svo, að aðrir menn, sem ekki eru taldir í þessum tilvitnuðu orðum 7. gr. launalaganna, en líkt stendur á með, ættu að falla undir lögin.

Með öðrum orðum, sem háttv. þm. skilja ef til vill betur, að stjórnin beitti ákvæði launalaganna per analogiam.

En stjórnin þykist nú ekki geta skilið lögin á þennan veg, og vill því enga ábyrgð taka á sig, heldur láta þingið útkljá þetta, en stuðning átti stjórnin að veita svo sjálfsagðri sanngirniskröfu. Vænti jeg, að háttv. deild láti manninn njóta sama rjettar og aðrir hafa fengið.

Jeg vil geta þess, að jeg mun ekki ljá fylgi mitt till. háttv. þm. Borgf. (PO) um að fyrv. fjrh. (MagnJ) skili aftur þeim 1500 kr., er hann veitti sjer. Læt jeg ósagt um, hvernig mjer líkaði þetta, en eggjað mundi jeg hann að láta af þessu. En það er víst, að fyrv. ráðherra hefir talið sjer þetta heimilt og fundist sjálfsagt, að hann væri lengur til viðtals en hægt var, ef hann átti aðeins að taka á móti mönnum í stjórnarráðinu.

Þetta hefir verið tilgangur hans, og er því ekki rjett að viðhafa svigurmæli um það, að hann hafi tekið fje þetta með röngu. Hefir honum nægilega verið hegnt með orðum þeim, er út af þessu hafa fallið hjer í þinginu, þótt ekki sje hann eltur með fjárkröfum og ofsóknum, þegar hann er farinn hjeðan. (PO: Kallar þingmaðurinn þetta ofsókn?). Já, jeg kalla það ofsókn. Er það ekki íslenskt orð ? (PO: Jú, en það á ekki við hjer). Það á einmitt við hjer. Þetta er ofsókn. Er það líkast því, sem sumir háttv. þm, hafi fengið hjer feitan bita til að smjatta á, sem þeir geta aldrei út úr sjer látið. Væri karlmannlegra að stefna manninum fyrir landsdóm, ef þeim finst sakirnar svo miklar. (PO. Það er ekki útilokað fyrir þessu).