25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

139. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg skal geta þess viðvíkjandi brtt. hæstv. forsrh. (SE) á þskj. 405,11, að fjvn. mælir með þeim till. Hefir hún áður sýnt, að hún vill, að fje verði varið til útrýmingar geitna, og hinum till. undir þessum lið er hún einnig meðmælt.

Er þá best að snúa sjer að því, sem aðallega ber á milli fjvn. og hæstv. forsrh. (SE), en það er um hlutfallið í millum Siglufjarðar og ríkissjóðs í kostnaðinum við Siglufjarðargarðinn. Hann sagði, að það mundi erfitt að fá Siglfirðinga til að greiða meira af kostnaðinum en hann hafði stungið upp á, og háttv. 1. þm. Eyf (StSt) studdi það.

Jeg get vel skilið þetta, því það er líkast því, sem Siglfirðingar vilji engan þátt taka í kostnaðinum. En það eru ekki Siglfirðingar, sem eiga að setja þinginu skilyrði, heldur er það Alþingi, sem á að setja þeim þau. Hugsa jeg, að fullmikið sje gert úr þeirri hættu, sem lífi og eignum Siglfirðinga stafi af garðinum eins og hann nú er; bendir það líka í þá átt, hve Siglfirðingar vilja lítið á sig leggja. Vil jeg einnig, þessu til sönnunar, lesa upp kafla úr brjefi vitamálastjóra. Hann segir svo:

„Siglfirðingar hafa jafnan borið sig mjög illa yfir þeirri hættu, sem þeir telja, að stafi af bilun garðsins; hafa árlega sent hingað símskeyti um, að garðurinn væri nú stórskemdur og mundi algerlega fara í næsta brimi, að öll eyrin mundi eyðileggjast o. s. frv., en samt sem áður veit jeg ekki til, að Siglufjarðareyri hafi minkað nokkuð enn sem komið er“.

Og hann endar með því að segja: „Og álít jeg, að mjög mikið sje ýkt af því, sem þeir skrifa um málið“.

Brjef þetta hefir legið fyrir Alþingi og fjvn., og er rjett, að háttv. þm. athugi það alt.

Háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) gat þess, að þegar væri mikið fje lagt í garðinn, og vil jeg þá í sambandi við þetta geta þess, að þegar litið er á alt, sem á undan er gengið, þá er búið að gera mikið fyrir Siglfirðinga. En þar sem hann segir, að þessi lánsupphæð, þó hún fengist veitt, sje of lítil, þá veit jeg, að þetta mun vera rjett, og fjvn. er ekki ófús til að hækka þetta að nokkru. Þá er það, að viðhaldið mun verða allkostnaðarsamt. Þar held jeg muni verða hægt að byggja á reynslunni, þannig, að kostnaðurinn yrði minni eftirleiðis. Mjer þætti undarlegt, ef ekki mætti læra af reynslunni í þessu efni.

Þá leyfi jeg mjer að mæla með fjárveitingunni til Gísla Sveinssonar. Viðvíkjandi ummælum háttv. þm. Borgf. (PO) um, að þetta skapaði hættulegt fordæmi, vil jeg benda á, að þetta er ekki rjett, því það er alllangt síðan embættismaður nokkur fjekk að halda fullum launum meðan hann var utan, en ríkið borgaði manni þeim, sem gegndi embættinu á meðan, og síðan hafa fleiri fengið hið sama. Ef því það eru fordæmi fyrir þessu, þá finst mjer háttv. þm. ættu að vera fegnir að fá tækifæri til að samþykkja þetta, því hjer er einmitt verið að breyta fordæminu. Því áður fengu embættismenn ríkisins að halda fullum launum sínum, en ríkissjóður borgaði mönnum fyrir að gegna störfum þeirra meðan þeir voru forfallaðir. Hjer er ekki farið fram á neitt þess háttar, og ættu því háttv. þm. að veita þessu góðan atbeina, þar sem hjer er haldið inn á nýja braut með þessa sjúkrastyrki. Mjer þætti og allundarlegt, ef Alþingi, sem áður hefir veitt embættismönnum fulla sjúkrastyrki, eins og jeg var að taka fram, yrði nú á móti 1/3 styrks til þess mannsins, sem alþingismenn þekkja best og síst mun vera illa kyntur hjá þeim.

Þá var það hæstv. atvinnumálaráðherra (KIJ). Hann byrjaði, að mjer fanst, ræðu sína dálítið undarlega, er hann sagði það hafa fljótt sýnt sig, að þegar þetta fjáraukalagafrv. var loksins komið fram, þá hefði það haft lík áhrif og þegar flóðstífla bilar einhversstaðar. Jeg veit nú varla. hvaða stífla það gæti verið, sem hefði nú bilað, nema það þá væri, að tappinn hefði farið úr hæstv. stjórn. Hæstv. stjórn er hjer með hæstar tillögur til fjárveitinga. þ. e. um 240 þús. kr.; fjárveitinganefnd með um 55 þús. kr., og einstakir þingmenn um 70 þús. kr. Mjer finst, að stjórnin hefði átt að gleðjast yfir þessu fyrirkomulagi, vegna þess, að allar þessar fjárveitingar hefðu annars orðið að koma inn í fjárlögin, og get jeg ekki sjeð, hvernig nokkur maður gæti hugsað sjer að setja þetta alt inn í fjárlögin og breyta þannig útliti þeirra ranglega. Þá get jeg og ekki skilið annað en að stjórnin hefði þóst þurfa samþykkis þingsins t. d. til 75 þús. kr. gengismunar á vitabyggingafjenu. Þessi gengismunur stafar frá árinu 1922, og er undarlegt, að það skyldi ekki koma fram sem brtt. við fjáraukalögin fyrir 1922. Þá þykja mjer og undarlegar undirtektir háttv. 1. þm. Skagf. (MG), því mjer skildist hann hafa á móti því, að fjáraukalagafrumvarp þetta kæmi fram. Jeg fæ ekki skilið, hvers vegna hann vill ekki veita stjórninni heimild um þetta, hvers vegna hann vill heldur láta greiða þetta í heimildarleysi.

Hæstv. atvrh. (KIJ) vildi slaka til á sínum fjárbeiðnum. ef aðrir þm. og fjvn. vildu gera það sama; t. d. að klaka til með styrkinn til endurbyggingar sjómannaskýlisins; en þetta er enginn afsláttur frá sjónarmiði nefndarinnar, þar sem hún sjer ekki ástæðu til að veita þetta fje nú, enda getur þetta hús, að áliti vitamálastjóra, staðið nokkur ár enn þá. En fjvn. veit, að það þarf að gera þar við staura og sjómerki. Fjvn. er því á móti þessu, en að öðru leyti fellst hún á brtt. hæstv. ráðherra (KIJ). Viðvíkjandi því, að fjvn. taki aftur eitthvað af sínum brtt., þá er hún ófáanleg til þess, því að hún hefir aðeins tekið þær fjárgreiðslur til greina, sem hún telur óhjákvæmilegar. Þá telur hæstv. ráðherra (KlJ) tillöguna um Breiðafjarðarbátinn gerða samkvæmt till. fjvn. Það er rjett, að fjvn. vill leyfa þetta, en hún á ekki frumkvæði að þessu. Þó fer jeg ekki í matning um þetta atriði, úr því fjvn. hefir fallist á þetta til samkomulags.

Þá eru það alveg nýjar upplýsingar, sem hæstv. ráðherra (KIJ) hefir gefið Alþingi um kjör vitavarða. Bæði Alþingi og öðrum var það áður ókunnugt, að vitaverðir hefðu frían bústað og oft jarðarafnot, auk launa. En fjvn. vill ekki styðja að því, að keypt verði húsið á Garðskaga. Vjer vitum, að þessi vitavörður var ráðinn til starfans með sömu kjörum og fyrirrennari hans, og þarf hann því eigi að vænta, að hann fái meiri hlunnindi en áður hefir tíðkast. Þá er og fjvn. ekki sannfærð um, hvort þetta sje sannvirði hússins, er hún hefir heyrt þess getið, að hús þetta sje alls eigi sem álitlegast.

Kem jeg þá að till. hæstv. ráðherra (KIJ) um vitabyggingarnar við innsiglinguna til Berufjarðar, og mjer liggur við að segja, að það hefði síst mátt vænta slíkra tillagna frá nokkurri stjórn; ekki vegna upphæðarinnar, heldur vegna hins, að maður álítur, að það eigi að halda gerða samninga. Þegar Alþingi veitir loforð um styrk, gegn vissum ákveðnum skilyrðum, sem svo eru síðar rofin, þá má búast við, að ef slíkum samningsrofum er gefinn byr undir báða vængi, þá muni mörgum ef til vill þykja allvíða ótryggilega um hnútana búið í fjárlögunum, og getur þetta haft illar afleiðingar, og þær með afbrigðum.

Þá hefir og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv0) og eins hæstv. ráðherra (KIJ) gleymst að geta þess gagnvart þessum vitabyggingum, að þær hafa alls eigi farið varhluta af opinberu fje, þar sem Fiskifjelag Íslands hefir lagt fram fje til þeirra, en það hefir ekki fje til umráða annarsstaðar frá en úr ríkissjóði. Jeg býst við, að hæstv. ráðherra (KIJ) viti um ýmsa aðra vita, t. d. á Norðurlandi, sem bygðir eru gegn svipuðum skilyrðum, og er það þá líklega tilætlunin að taka á sama hátt þátt í byggingarkostnaði þeirra líka.

Um styrkinn til þessa ullariðnaðarnema á Englandi vil jeg tilkynna hæstv. ráðherra (KIJ), fyrir hönd fjvn., að henni þykir hann of hár, borinu saman við aðra námsstyrki. Samkvæmt skýrslu hæstv. ráðherra (KIJ) lítur út fyrir, að stjórnin, og þá Alþingi, ef það samþykkir þetta, hafi ákveðið, að reisa skuli þessa stóru ullarverksmiðju, sem lýst hefir verið. Að minsta kosti skildi jeg það svo. Því er eigi þannig varið, að fjvn. þyki eigi gott, að til sje lærður maður í þessum efnum, en þessi upphæð er svo há, að nefndin vill ekki fallast á hana.

Þá benti hæstv. ráðherra (KIJ) rjettilega á ósamræmi, er væri í ýmsum styrkveitingum til prestsekkna. Jeg hefi tekið það fram áður, að þetta getur vel verið, en er ekki sök Alþingis. Það hefir verið reynt að meta ástæður í hverju máli og alls eigi verið tekið tillit til, hverra ekkjur ættu í hlut, en einvörðungu farið eftir fjárhagsástæðum umsækjenda. Væri það mannúðarverk af hendi stjórnarinnar að láta rannsaka þetta mál nánar, til þess að koma meira samræmi á í næstu fjárlögum.

Háttv. þm. N.-Ísf. (SSt) get jeg glatt með því, að fjvn. fylgir eindregið varatillögu hans, og vænti jeg því, að hann falli frá aðaltillögunni, þegar svona vel hefir verið við þessu vikist af fjvn.

Jeg get að nokkru leyti tekið undir með háttv. þm. Dala. (BJ) um að vera á móti till. hv. þm. Borgf. (PO). Jeg get ekki sjeð, að það sje rjett að krefja um þessa litlu upphæð, sem er eitthvað um 1500 kr., þar sem þessi maður hefir nú vikið úr ráðherrasessi og öllum er það vitanlegt, að aðstaða hans til þessa embættis var miklu verri en hinna annara, er það höfðu á hendi. Enn fremur er það alkunnugt, að enginn ráðherra getur lifað af laununum einum. Meiri hluta fjvn. finst því óeðlilegt að krefjast þessarar upphæðar. En háttv. þm. (PO) er líka opin leið með þetta til landsdóms, ef hann vill, enda lítur svo út, að það sje tilgangur hans, er hann segir, að eigi sje enn fengin full kvittun þessa máls, þótt þetta gyldist.

Þá vil jeg víkja að brtt. háttv. þm. Barð. (HK). Þar veit jeg ekki um afstöðu allrar fjvn., um þessa nýju tillögu hans, en um þá eldri get jeg sagt það, að fjvn. tók henni vinsamlega og verð jeg henni meðmæltur, eins og jeg var við umræður um fjárlagafrv. fyrir árið 1924.

Þá var það 1. þm. Reykv. (JakM), og þarf jeg ekki að rökræða við hann um þessa brtt. hans, en vil aðeins drepa á styrkinn til Páls Vigfússonar. Jeg er þessu máli eigi óhlyntur, en vegna orði þessa háttv. þm. vil jeg beina þessu til deildarinnar:

Jeg vil undirstrika það, að jeg tel sjálfsagt, að einskis manns atkvæði í þessu atriði standi að nokkru í sambandi við hina ósæmilegu og ranglátu árás á Vífilsstaðahælið, sem framin hefir verið, enda þykist jeg vita, að tilgangur flm. sje engan veginn sá.

Þá er jeg með styrknum til Elínar Sigurðardóttur. Þingmaðurinn (JakM) sagði, að hún kæmist ekki undir berklavarnalögin, er hún væri eigi á því stigi veikinnar, en það er ekki rjett. Lögin taka til allra. Hún er nú á spítala, kostuð af opinberu fje, og verður að vera þar áfram, og er þetta því sparnaður, þar sem þessir sjúklingar verða ekki reknir af spítölunum, en engin hæli til fyrir þá, sem ekki beint þurfa sjúkrahúss eða hælis með. En jeg hafði hugsað mjer, að þessi upphæð hefði mátt vera eitthvað lægri. t. d. 600 kr., og mundi þó koma að gagni.

Um tillöguna á þskj. 405,XXI skal jeg geta þess, að fjvn. bjóst við, að sú till. mundi koma frá hæstv. stjórn. En sú hefir ekki raun á orðið, heldur valin þessi leið.

Þá hafa komið nokkrar till. um að veita stúdentum erlendis námsstyrki. Get jeg tekið alla þá styrki undir eitt og lýst yfir, að nefndin verður á móti þeim. En hún mun koma fram með till. við næstu umr. um, að stjórninni verði heimilað að veita stúdentum erlendis lán til lokanáms, á sama hátt og við fjárlögin. (Forsrh. SE: Á að heimta veðtryggingu í fasteignum? Ef svo er, þá er lánsheimildin alveg þýðingarlaus). Nefndin hefir ekkert talað um það, en ábyrgð sýslufjelaga ætti að vera jafntrygg og fasteignaveð, og jafnvel ábyrgð einstakra manna ætti að mega taka gilda í sumum tilfellum.

Þá eru 2 brtt. frá meiri hluta sjútvn. Viðvíkjandi fjárveitingunni til Bjarna Sæmundssonar, þá mun nefndin vera henni meðmælt eins og við fjárlögin. Hinni till., um hækkun á launum tveggja yfirfiskimatsmanna, er nefndin hins vegar mótfallin. Er það af þeim ástæðum, sem jeg hefi áður tekið fram, að nefndin vill ekki, að verið sje að breyta launalögunum með ákvæðum í fjárlögunum. Ef ástæða þykir til breytinga, þá á að fara frumvarpsleiðina og breyta með sjerstökum lögum.

Um brtt. frá háttv. 4. þm. Reykv. (MJ). á þskj. 426, skal jeg einungis geta þess, að nefndin er þeim öllum mótfallin, nema um varatill. við e-lið hefir hún óbundnar hendur.

Skal jeg svo ekki tefja tímann lengur. Nefndin mun með atkvæði sínu skýra frá áliti sínu á þeim till., sem jeg hefi ekki minst á.