25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

139. mál, fjáraukalög 1923

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg ætla að leitast við að svara tveimur spurningum, er háttv. 2. þm. Skagf. (JS) lagði fyrir mig. Það var þá fyrst út af gengismun á efni, sem keypt var frá Svíþjóð af vitamálastjóra, hvort ekki væri ástæða til að kaupa efnið annarsstaðar, þar sem minni gengismunur væri. Því er fyrst að svara, að í gildandi fjárlögum er ekkert fje lagt til vitabygginga. Verður því ekki um nein kaup að ræða til þeirra hluta í ár og hefir ekki verið síðustu mánuðina. Vitamálastjóri hefir skýrt mjer frá því, að fá megi þessi tæki frá ýmsum löndum, t. d. Englandi. Frakklandi og Svíþjóð. Ljósakrónurnar, sem notaðar eru, sjeu t. d. keyptar frá Frakklandi, en gasleiðslur og önnur ljóstæki sjeu keypt í Stokkhólmi, og verði að takast þaðan, því annars passi þau ekki inn í kerfið. En þar sem nú eða næsta ár verður ekki um neinar vitabyggingar að ræða, þá kemur auðvitað heldur enginn gengismunur til greina á þeim árum.

Þá spurði sami háttv. þm. (JS), hvort ekki ætti að fara með skógarverðina eins og prestana, þegar bygt væri yfir þá, að þeir ættu að borga eftirgjald.

Í 19. gr. launalaganna stendur, að skógarvörðurinn á Vöglum skuli hafa 1200 kr. í laun, auk hlunninda. Hann hafði haft þessi hlunnindi áður, og launaupphæðin er ekki ákveðin hærri með það fyrir augum, að þessi hlunnindi væru partur af launum hans. Þar sem þetta var áður ákveðið, þá er það ekki nema sanngjarnt, þó skógarvörðurinn á Hallormsstað hafi sömu hlunnindi, nema þá að byggingin sje svo dýr, að hún fari fram úr áætlun.

Þá var það spurning frá háttv. frsm. (MP), hvort ekki mætti vænta tekna af áfengisverslun ríkisins á þessu ári. Jeg er nú ekki tilbúinn að svara því frá sjálfum mjer. En fyrv. fjrh. (MagnJ) sagði mjer fyrir nokkru, að hann hefði spurst fyrir um það, en fengið það svar, að þess mætti naumast vænta. Samt tel jeg það líklegt, en jeg skal athuga þetta betur síðar.

Jeg er ekki mótfallinn því, að bætt sjeu kjör fiskimatsmannanna. En það ætti þá að bæta kjör þeirra allra. Það væri illa farið, ef Jón Magnússon viki frá þessum starfa. Hann hefir reynst mjög góður eftirmaður þess manns, er hafði það áður, og var þó talið, að vandfylt yrði hans skarð. En það liggur engin hótun í þessu frá hans hendi. Aðeins er eðlilegt, að hann vilji hverfa að betur launuðu starfi, ef þessari málaleitun er ekki sint.