08.03.1923
Neðri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Baldvinsson:

Hv. þm. Ak. (MK) hefir eiginlega tekið af mjer ómakið að tala fyrir brtt. minni á þskj. 73. Hann mælti svo skörulega með henni, að jeg efast ekki um, að tillagan muni eiga þar öflugan stuðningsmann við atkvgr. og að hin miklu áhrif háttv. þm. muni afla henni fylgis.

Jeg hefi orðið þess var, að misskilnings hefir um það gætt hjá nokkrum hv. þm., hvort tillaga mín ætti við þetta frv., sem nú liggur fyrir, og skal jeg nú í stuttu máli sýna fram á, að tillagan er formlega rjett og á við þetta frv.

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er um breyting á lögum nr. 74. 27. júní 1921, um tekjuskatt og eignarskatt. Brtt. mín á við 3. gr. frv., að 1. málsgrein verði orðuð á annan veg og tölunum breytt. Verði hún samþykt. breytist frádrátturinn eftir 13. gr. hinna gildandi laga þannig, að 1000 kr. eru dregnar frá fyrir hvern skattþegn, 2000 kr. fyrir hjón, sem eru samvistum, og 500 kr. fyrir barn hvert. Tillaga mín er því formlega rjett og á við á þessum stað, þó að ýmsir háttv. þm. hafi dregið það í efa.

Það er í sjálfu sjer hárrjett stefna að ná sem mestum tekjum í ríkissjóð með beinum sköttum, og munu flestir á því máli. En menn eru ósammála um skattstigann. Jeg er þeirrar skoðunar, að draga beri frá hæfilega fjárhæð til lífsframfæris. í tillögu minni hygg jeg farið nokkuð nærri því, að brýnustu lífsnauðsynjar manna sjeu skattfrjálsar. Jeg skal taka til dæmis, að hjón með 3 börn mega draga frá 3500 kr., og ef ætlast er til, að slíkt heimili lifi sómasamlegu lífi, munu víst flestir játa, að ekki geti verið að ræða um mikinn afgang, er leggja beri skatt á. Alþingi hefir þó áður ákveðið að taka skatt af lægri tekjum; eftir núgildandi lögum ætti að draga 1000 kr. frá fyrir hjónin og 300 kr. fyrir hvert barn, eða alls 1900 kr., og koma þá 1600 kr. til skatts í þessu dæmi. Allir hljóta að sjá, að hjer er gengið of langt. Það er verið að seilast til að taka brauðið frá börnunum, taka af mönnum brýnustu lífsnauðsynjar.

Það hefir heyrst furðu lítið frá þeim, sem svo er ástatt um. Aftur kvarta þeir hástöfum undan skattinum, er mestar tekjurnar hafa, og sjá þó allir, að sanngjarnast er að taka skattinn þar, sem peningarnir eru til. Sjerstaklega álít jeg, að fjárhæðin, sem dregin er frá, verði að vera sómasamleg nú, þegar þess er gætt. hve miklir óbeinir skattar liggja á almenningi. Kaffi- og sykurtollurinn mun t. d. ekki nema svo óverulegu hjá 5 manna fjölskyldu, og ef sú upphæð væri lögð beint á, myndi hún þykja allhá. Væri hins vegar svo komið, að ekki væri mikið um óbeina skatta og tolla, gæti jeg fallist á, að frádrátturinn væri lægri.

Jeg fæ ekki annað skilið en að háttv. þm. sjái, að brtt. mín er rjettmæt, en þeir vilja ef til vill ekki samþykkja hana, af því að þeir óttast, að tekjur ríkissjóðs muni þá minka að mun. Það er að vísu ekki auðið að gera sjer í hugarlund. hve mikið brtt. mín muni rýra tekjur ríkissjóðs. En jeg er í engum vafa um það, að verði brtt. háttv. samþm. míns. 3. þm. Reykv. (JÞ). samþyktar, rýra þar tekjur ríkissjóðs ekki minna, og telur hann sig þó heldur sparnaðarmann.

Háttv. fjhn. hefir ekki getað orðið sammála um frv. stjórnarinnar, en sannast að segja sje jeg ekki svo ýkjamikinn mun á skoðunum meiri og minni hluta nefndarinnar. Skattstigar hvors um sig eru nokkuð svipaðir, en frádrátturinn þó nokkuð mismunandi hjá nefndarhlutunum. Að jeg gerði brtt. fremur við frv. stjórnarinnar en brtt. meiri hlutans kom til af því, að mjer virtist stjórnarfrv. heldur rjettlátara á lægri tekjunum, einkum verði brtt. mín samþykt og 3. málsgrein 3. gr. frv., að tekjur, sem ekki nema 1000 kr. eftir lögákveðinn frádrátt, skuli vera skattfrjálsar. Jeg hefi og að athuga við tillögur meiri hlutans hinar smáu brotatölur í skattstiganum, og vil jeg skjóta því til sparnaðarmannsins, háttv. frsm. (MG), hvort ekki myndi þurfa að fjölga embættismönnum í skattstofunni til að reikna út brotin.

Það mun ekki órjettmætt, sem sagt hefir verið, að Reykjavík hafi orðið hart úti í framkvæmd laganna. Það er satt hjá háttv. frsm. meiri hl. (MG), að sömu lögin gilda um alt land. En er þá sama framkvæmd á þeim alstaðar? Á því veltur alt. (MG: Á jeg að vaka yfir því?). Það er sýnilegt, þegar óbreyttur sjómaður í Reykjavík geldur hærri skatt en heill hreppur, sem í eru margir efnamenn. (MG: Hvaða hreppur er það?). Jeg skal segja háttv. þm. það síðar.

Þó að meiri og minni hluti hafi deilt um frv. þetta, virðist ágreiningurinn ekki gífurlega mikill, eins og jeg gat um. En þó að nefndarhlutarnir geti ekki orðið sammála um það, sem hefir klofið þá, virðast þeir geta orðið ásáttir um eitt atriði. Þeir þykjast báðir vilja vera miskunnsamir við fátæklinga, og ættu þeir þá að geta tekið höndum saman um mína tillögu. Í henni felst svo mikil rjettarbót, að þeir þurfa ekki að togast á um þessar 999 og 1000 kr., sem svo mikið er um rætt. Jeg vona því, að háttv. þm. verði sammála um að láta tillögu mína ná fram að ganga.