01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

139. mál, fjáraukalög 1923

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vil aðeins með örfáum orðum minnast á brtt. á þskj. 491, frá háttv. þm. Str. (MP), um 30 þús. kr. til Vífilsstaðahælisins. Læknirinn á Vífilsstöðum leggur áherslu á, að gufueldhúsi verði komið upp á Vífilsstaðahælinu. Og þó unphæð sú, sem hjer um ræðir, sje há. sje jeg ekki annað fært en mæla með henni.

Fjárveitingunni til Þingvalla leyfi jeg mjer einnig að mæla með. Mikill áhugi er nú að vakna hjá almenningi á því, að hlynt verði að þessum fornhelga stað.

Jeg kom með brtt. um 7500 kr. styrk til ýmsra manna, sem óskuðu að sækja erlenda fundi, og var hún feld hjer í háttv. deild. Nú sje jeg, að samkvæmt ýmsum þeim brtt., sem fram eru komnar um þetta, eru utanfararstyrkirnir orðnir alt að 11 þús. kr. En þó er verst, að ýmsir eru settir hjá, sem þurfa styrkinn, en öðrum aftur ef til vill veittur fullhár styrkur. Að vísu er gott fyrir stjórnina að losna við að úthluta þessum styrkjum, en þó má ef til vill ætla, að úthlutunin hefði getað í höndum stjórnarinnar tekið meira tillit til þess. hvar nauðsynin var brýnust á utanförum.

Þá vil jeg víkja að brtt. á þskj. 484, IX, og skal jeg ekki mæla móti þeim upphæðum, sem þar eru nefndar, en í sambandi við orð háttv. frsm. fjvn. (MP) vil jeg leyfa mjer að minna á, að stjórnin sóttist ekki eftir að hafa þessa úthlutun á hendi, en óskaði, að nefndin færi framvegis með hana.

Mjög erfitt er að eiga við úthlutunina vegna þess, hvað fjárupphæðin var lítil, aðeins 15000 krónur, en þar frá ganga 3000 kr. til Einars Hjörleifssonar og 800 kr. til Guðmundar Friðjónssonar á Sandi. Eftir voru þá 11200 kr., en aragrúi af umsækjendum, eitthvað um 22, að frátöldum skáldunum, er jeg nefndi hjer að ofan. Margir af þessum mönnum voru ungir og óþektir, en með ágætum meðmælum frá kunnum kennurum. Þeir fengu námsstyrki, og má ekki leggja sama mælikvarða á þá og þá styrki, sem eru veittir í viðurkenningarskyni til þjóðkunnra manna. Af skáldunum fjekk, auk þeirra skálda, sem áskilinn var styrkur, aðeins Davíð Stefánsson þennan viðurkenningarstyrk. Sumir hefðu ef til vill heldur veitt styrkinn Jakobi Thorarensen eða Stefáni frá Hvítadal; en þetta eru alt smekkatriði. Og ekki var hægt að veita öllum styrk á þessu ári, nema það eigi að taka svo og svo mörg skáld og listamenn og láta þá hafa árslaun, en svo hefi jeg ekki skilið tilætlun þingsins, og því er engin vissa fyrir því, að sá, sem fær styrk í ár, fái hann einnig að ári, en eðlilegt, að þá sje tekið tillit til þeirra, sem nú voru ekki teknir til greina.