01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

139. mál, fjáraukalög 1923

Pjetur Ottesen:

Jeg á hjer eina brtt., sem jeg ætlaði að segja fáein orð um, viðkomandi Hvítárbakkaskólanum. Jeg hafði brtt. mína upphaflega þannig, að frestur á afborgunum á viðlagasjóðsláni skyldi vera leyfður um 5 ára skeið, en nú hefi jeg fært það niður í 3 ár, í samræmi við álit háttv. fjvn., enda hefir hún nú heitið mjer fylgi sínu í þessum efnum. Það er kunnugt, að alþýðufræðslan hefir yfirleitt átt vinsældum að fagna á Alþingi, og hefir það sýnt fullan skilning á nytsemi alþýðufræðslunnar, bæði með styrkveitingum til alþýðuskóla og öðru. Árið 1920 keyptu Borgfirðingar Hvítárbakkaskólann, jörðina með skólahúsum og búi, af Sigurði Þórólfssyni, sem var stofnandi skólans og rak hann um mörg ár. Kaupverðið var 50 þús. kr., en þar að auki fór mikið fje í viðgerðir á skólahúsinu, endurbætur á áhöldum o. fl., og nam sá kostnaður fyrsta árið 25 þús. kr. Það var strax gengist fyrir hlutafjársöfnun í hjeraðinu, og er hlutafjeð nú 29500 kr. Þá fjekk skólinn árið 1921 20 þús kr. lán úr viðlagasjóði. Mismunurinn á kaupverði skólans, að viðbættum endurbótakostnaði, kr. 75 þús., og hlutafjenu, viðlagasjóðsláninu og halla, sem orðið hefir á rekstri skólans, sem alt er til samans 44 þús. kr., er því 31 þús. kr. Þetta fje er nú alt í skuld, í víxlum, sem hvílir á stofnendum og stjórnendum skólans, og það gefur að skilja, að það er mjög erfiður róður að búa undir svona miklum og óhagfeldum lánum, og það á jafnerfiðum tímum eins og nú standa yfir. Nú hefir stjórn skólans leitað til þingsins og farið fram á 20 þús. kr. viðbótarlán úr viðlagasjóði og 14000 kr. árlegan styrk. Háttv. fjvn., sem nú eins og fyr hefir sýnt alþýðuskólunum fullan velvilja, meðal annars með því að hækka styrkinn til þeirra, hefir þó ekki sjeð sjer fært að leggja til, að viðlagasjóðslánið verði veitt, sjerstaklega með tilliti til þess, að stjórnin hefir þrásinnis lýst yfir, að ekkert fje væri nú fyrir hendi til útlána, svo að það þýddi ekki neitt. í stað þess leggur fjvn. til, að stjórninni sje veitt heimild til að ábyrgjast alt að 15000 kr. láni til skólans, og ætti sú ábyrgð að gera það kleift að fá handa skólanum lán með sæmilegum kjörum.

En hins vegar hefir nefndin ekki sjeð sjer fært að veita umbeðna styrkupphæð á nafn skólans sjerstaklega, og get jeg raunar vel skilið það, því sú regla er nú upp tekin um þennan styrk til alþýðuskólanna, að veita ákveðna upphæð til þeirra allra, er stjórnin skifti svo á milli þeirra. Jeg vænti þess, að háttv. deild taki vel tillögum nefndarinnar um þessa ábyrgðarheimild, og jafnframt tillögu minni um þriggja ára afborgunarfrest á viðlagasjóðsláninu. Jeg vona, að háttv. deildarmenn geri sjer ljósa grein fyrir, hversu örðugt sje að halda uppi skólanum undir þessum kringumstæðum; en hjeraðinu er mjög umhugað um þessa menta- og menningarstofnun, sem mjög vel hefir svarað tilgangi sínum og borið góða raun, ekki einasta fyrir hjeraðið, heldur landið alt, því skólinn er sóttur hvaðanæfa af landinu. Skólinn hefir verið mjög heppinn með kenslukrafta. Hefir skólastjórnin verið með fyrirmyndarbragði, enda er skólastjórinn fjölmentaður, víðsýnn og sjerlega áhugasamur.

Þessi aðstoð ríkisins, sem hjer er farið fram á, ljettir mikið undir til að fleyta stofnuninni yfir verstu örðugleikana.