01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jón Baldvinsson:

Jeg á hjer eina brtt., sem er að finna á þskj. 484. Eins og kunnugt er, var feld við síðustu umræðu upphæðin, sem verja skyldi til utanfararstyrks, en ýmsar umsóknir liggja fyrir þinginu frá mönnum, sem ætla að sigla í ýmsum erindagerðum, ýmist til að sækja fundi eða annað því um líkt. Frá mjer kemur nú brtt. um utanfararstyrk, sem er að vísu lág upphæð, enda hefi jeg reynt að klípa utan af henni eins og frekast mátti og eins og jeg hefi sjeð, að aðrir hafa neyðst til að gera.

Íslendingar hafa lengst af verið bókmentaþjóð og þeir tóku prentlistina í þjónustu sína fyr en margar aðrar þjóðir, sem þó áttu hægra aðstöðu með það. Fyrsta prentsmiðjan, sem hjer var, leysti verk sín prýðilega af hendi. Má þar til nefna prentun á Guðbrandarbiblíu og fleiri ritum, sem um líkt leyti voru gefin út. Er prentunin á biblíunni talin snild. Þessu hnignaði þó dálítið síðar og náði sjer tæplega fyr en með landsprentsmiðjunni, sem leysti prentanir vel af hendi.

Ein tegund prentunar var það, sem jafnan var gert lítið að, en það var mynda- og litprentun. Þurfti flest í þeim efnum að sækja til útlanda, þar til skömmu eftir síðustu aldamót. En þá má segja, að hefjist nýtt tímabil í sögu prentlistarinnar hjer á landi. Og það tímabil hefst með sænskum manni, sem hingað kom til lands. Hann flutti fullkomna þekking á þessu inn í landið, og hefir hann síðan leyst hjer af hendi allskonar mynda- og litprentun, sem fullkomlega hefir jafnast á við það, sem annarsstaðar er best. Ýmsar myndaprentanir hans hafa fengið hrós erlendis, fyrir það, hvað vel þær sjeu prentaðar, og man jeg þar eftir mynd, sem prentuð var í æfisögu Pjeturs biskups.

Þeir, sem kunnugir eru, vita, að hjer á landi hafa verið leystar af hendi óteljandi litprentanir, svo sem hlutabrjef o. m. fl., og hefir þessi maður allra manna mest unnið að því, og svo þeir, sem hann hefir kent. Höfum vjer því ekki þurft að sækja þessa vinnu út úr landinu, og auk þess hefir hún fengið á sig íslenskan blæ. Það er ekki einungis, að manni þessum sje sýnt um að fara með öll tæki, sem þessari iðn tilheyra, heldur er handsnilli hans og við brugðið. Hefir hún oft komið að góðu haldi, þar sem svo erfitt hefir verið að ná í öll myndamót, og áður var um svo langan veg að sækja til þeirra verksmiðja, sem þau framleiða.

Þessi maður, herra Emanúel Corte yfirprentari, hefir nú sótt um styrk til þess að fara á prentlistarsýningu, sem halda á í Gautaborg nú í vor, aðallega til þess að kynna sjer nýtískuaðferðir í frímerkja- og peningaseðlagerð.

Af vottorðum þeim, sem jeg mintist á við 2. umræðu, sjest glögglega, hvert álit kunnugir hafa á manni þessum Jeg þarf ekki lengra að leita en til stjórnar Landsbankans, sem látið hefir prenta peningaseðla undir yfirumsjón þessa manns, og enda þótt þeir sjeu ekki af fullkomnustu gerð, eru þeir þó eins vel gerðir og samskonar seðlar annarsstaðar. Þá hefir og ríkið látið hann prenta stimpilmerki, og var það áreiðanlega landinu stórhagur. Mætti svo lengi telja.

Jeg veit, að allir, sem þekkja herra Cortes, vita, að þó að tíminn sje naumur, sem hann fær dvalið í Gautaborg, þá muni hann þó á þeim tíma komast yfir að kynna sjer nýtísku aðferðir við skrautprentun og fleira og færa sjer í nyt þá verklegu þekkingu, sem þarna verður hægt að nema. Og engan mann hjer á landi þekki jeg hæfari til þessa en einmitt hann.

Vænti jeg, að hið háa Alþingi láti nú sjást, að það vilji hlynna sem mest að því, að sem allra flest störf sjeu unnin í landinu sjálfu. Jeg þarf svo ekki að fjölyrða frekar um þetta atriði. Jeg veit, að flestir hv. þm. eru mjer hjer sammála, er þeir hafa lesið skjöl þau, sem umsókn þessari fylgja og liggja fyrir þinginu.