01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jakob Möller:

Jeg þarf ekki að tala mikið um brtt. mínar. Helst væri það þá brtt. á þskj. 491, sem gera þyrfti grein fyrir. Ástæðan fyrir því, að hún er fram komin, er sú, að nú fyrir skömmu — 28. apríl síðastl. — kom símskeyti til forsætisráðherra frá sendiherra okkar í Kaupmannahöfn, þess efnis, að sænski sendiherrann þar byði, fyrir hönd þjóðar sinnar. Íslendingum að senda mann á allsherjar blaðamannafund, sem halda á í Gautaborg um miðjan júní næstk. Þetta boð afhenti forsætisráðherra síðan formanni Blaðamannafjelagsins, og var í því fjelagi rætt um möguleikana til að verða við því. Niðurstaðan varð sú, að það myndi ókleift án styrks.

Það hefir tíðkast oft áður, að menn væru styrktir til svipaðra ferðalaga, enda eru ferðalög þau mjög dýr, svo langan veg, og efni einstakra manna, a. m. k. úr þeirri stjett, leyfa það ekki. Að öðru leyti ætla jeg ekkert að „agitera“ fyrir þessari styrkveitingu, enda mun málið talið mjer of skylt til þess, þó að jeg ljeti tilleiðast að flytja þessa till., sem var jafnframt vegna þess, að jeg tel landinu varla vansalaust að sinna ekki svo ágætu boði.

Þess eins vil jeg þó geta, að ekkert hefir verið ákveðið um það, hver færi, þó að til kæmi.

Þá á jeg ásamt öðrum háttv. þm. brtt. á þskj. 484. Í raun og veru hafa þær sjest áður, en í öðru formi. Kom okkur saman um, að misskilningur hlyti að valda því, að svipaðar till. voru feldar hjer áður.

Till. um styrkinn til Good-Templara hefir að vísu ekki verið borin upp í sambandi við fjáraukalög áður, en í þessa árs fjárlögum er þeim ætlaður 3000 kr. styrkur. Þetta er svo lítið, að reglan kemst engan veginn af með það til nauðsynlegustu starfa. T. d. gefur hún blað út, sem fer fjarri að borgi sig. Jeg er þess fullviss, að þessi hv. deild metur starf þessarar reglu svo mikils, að hún fellir ekki þessa brtt., síst nú, eftir að bannlagabreytingin er komin á, og þörf reglunnar því meiri en ella.

Þá er styrkurinn til Kvenrjettindafjelagsins, til að koma á allsherjarfundi fyrir kvenfólk hjer í Reykjavík nú í sumar. Jeg skildi ekki atkvgr. um þessa fjárveitingu við síðustu umr. Hygg jeg, að hún hafi verið sprottin af vangá; menn hafi ekki athugað, hvað hjer var um að ræða.

Ætlunarverk þessarar samkomu er m. a. að sýna konum utan af landi, hvernig nota beri allskonar nýtísku tæki, og þá sjerstaklega rafmagnstæki, nýjustu prjónavjelar, enn fremur kynna þeim framfarir, sem hjer hafa orðið í ýmsu því, er að bústjórn lýtur, o. s. fv.

Má öllum vera ljóst, að mikið gagn getur orðið að því að vekja áhuga á slíkjum tækjum, og eins hitt, að hjer er notkun þeirra víðtækari en víðast annarsstaðar á landinu. Enn fremur er í ráði að þarna verði fluttir fyrirlestrar, og hafa mætir menn heitið þar aðstoð sinni, svo sem prófessorarnir Guðmundur Finnbogason og Sigurður Nordal, Einar Helgason garðyrkjufræðingur o. fl. En af öllu þessu leiðir kostnað, sem sanngjarnt væri, að ríkið hjálpaði til að standast.