01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

139. mál, fjáraukalög 1923

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla aðeins að minnast á tvær brtt. Ætlaði jeg að gera það áðan, er jeg talaði fyrir brtt. minni um Hvítárbakkaskólann, en fjell frá því þá, af því að hæstv. forsrh. (SE) var ekki viðstaddur.

Það er þá fyrst brtt. á þskj. 484, IX,b, frá fjárveitinganefnd, um að veita Jakobi Thorarensen 800 kr. til ritstarfa. Brtt. þessi er komin fram af því, að mjög megn óánægja hefir verið út af því, hvernig styrknum til skálda og listamanna var úthlutað á þessu ári. Og þá sjerstaklega af því, að Jakob var algerlega settur hjá, því að hann er alment álitinn þróttmestur og tilþrifamestur hinna yngri skálda. Þykir því undarlegt, að stjórnin skyldi líta svo á þennan hæfileikamann, að gera hann alveg afskiftan, og þá sjerstaklega þegar litið er á, hvernig styrknum yfirleitt var úthlutað; 6 söngnemum er veittur hann, og eru þeir að tölunni til 1/3 hinna hamingjusömu manna, sem styrkinn fá; þeir, sem styrksins njóta, eru víst 18 alls. Jeg skal vitanlega ekkert segja um verðleika þessara manna, en manni verður þó á að halda, að rjettmætt hefði verið að skjóta t. d. einhverjum þeirra til hliðar, svo ekki hefði þurft að ganga alveg fram hjá Jakobi Thorarensen, úr því að skáldin voru þá ekki algerlega gerð afskift af styrknum. Annars skal jeg taka það fram, að jeg er alls ekki fýsandi að hækka skálda- og listamannastyrkinn; jeg hefi altaf verið á móti því að verja svo miklu fje í þessu skyni. En mjer finst alls ekki mega ganga fram hjá þessum manni, úr því á annað borð verið er með þessar styrkveitingar; því jeg er fullviss um, að hann hefir fulla verðleika til að ganga fyrir mörgum þeim, er styrkinn fengu.

Þá vil jeg minnast á brtt. 11 á þskj. 491, frá háttv. 1. þm. Árn. (EE), um 3 þús. kr. til sjúkraskýlis og læknisbústaðar á læknissetrinu Laugarási í Grímsneshjeraði. Það var upplýst hjerna á dögunum, að Grímsnesingar hefðu ekki farið varhluta af styrk úr ríkissjóði til þessa læknisbústaðar, síður en svo, þar sem fyrv. fjármálaráðherra (MagnJ) seldi þeim Geysishúsið fyrir svo lítið verð, að salan á því er orðin að hneykslismáli. Það eina, sem fært hefir verið til málsbóta fyrir sölunni, var það, að þetta hefði verið styrkur til þess að koma þessu sjúkraskýli og læknisbústað upp, og þetta hefir verið margviðurkent af þeim báðum. háttv. 1. þm. Árn. (EE) og fyrv. fjrh. (MagnJ). Enda sjest þetta ljóslegast á því, að hv. fjárveitinganefnd, sem annars er velviljuð því, að veita liðsinni til að koma upp sjúkraskýlum, hefir ekkert viljað veita til þessa sjúkraskýlis. af því að hún hefir litið svo á, að þetta væri nógur styrkur.