01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

139. mál, fjáraukalög 1923

Bjarni Jónsson:

Jeg á hjer nokkrar smátillögur, þrjár að jeg held. Ræðir sú fyrsta um það, að hið háa Alþingi veiti lítinn viðbótarstyrk á yfirstandandi ári til alþýðufræðslu Stúdentafjelagsins. Er nú þegar sloppið upp það fje, sem veitt var í þessu skyni, enda var upphæðin aldrei stór, en þetta er mjög bagalegt fyrir þá sök, að besti fyrirlestrartíminn er eftir, nefnilega tíminn frá haustnóttum og til jóla.

Helsta og raunar eina tekjugrein fræðslunnar er inngangseyririnn. Ræður það að líkum, að mjög er misjöfn aðsóknin: er mest undir því komið, hversu veljast fyrirlesarar og fyrirlestrarefni, og sjeu lúðrar þeyttir eða þess háttar samtímis fyrirlestrunum, er eigi við öðru að búast en að skaði verði að þeim meiri en annars.

Viðleitni okkar hefir verið sú, að fá jafnan hina bestu menn til fyrirlestrahaldsins, en sökum þess, hve erfitt hefir verið með fjárveitingar, hefir ekki verið hægt að koma fræðslunni í eins gott horf og æskilegt hefði verið. Það hefir t. d. reynst lítt mögulegt að senda menn út um sveitir í þessu skyni, því jafnan hefir vantað fje til að greiða með ferðakostnaðinn. Verður því þar að sæta færi, að fá menn, sem annaðhvort eru á staðnum eða eiga leið þar um, til að halda fyrirlestrana. Skal jeg t. d. geta þess, að síðastliðinn vetur var mjer símað austan af Hjeraði og jeg beðinn að útvega fyrirlesara á námsskeið, sem halda skyldi á Eiðum. En því varð auðvitað ekki við komið, nema hægt væri að losast við ferðakostnaðinn. Símaði jeg svo til tveggja presta í Fljótsdalshjeraði og bað þá að halda fyrirlestrana. Sýnir þetta ljóslega, að það er undir hendingu komið, hvern veg fyrirlestrahaldi úti um landið er háttað.

Skal jeg nú gefa mönnum yfirlit yfir alþýðufræðslu Stúdentafjelagsins árin 1921 og 1922.

Árin 1921 og 1922 hafa tekjur og gjöld alþýðufræðslu Stúdentafjelagsins jafnað sig upp með rúmum 3000 kr.

Árið sem leið var ríkissjóðstillagið 1500 kr. Tekjur af fyrirlestrunum voru um 1600 kr., því nær eingöngu úr Reykjavík. Svarar því, að þessar 1600 kr. hafi gengið til að launa fyrirlesurum, en ríkissjóðstillagið hafi farið til að greiða annan kostnað, svo sem húsaleigu, ferðakostnað, skýringarmyndir (skuggamyndir), auglýsingar o. fl. Umsjónarstarf fræðslunefndarinnar var ókeypis.

Fyrirlestrar hafa á árinu sem leið verið 21. Þar af hafa 12 verið fluttir í Reykjavík, en 9 utan Reykjavíkur. Fluttu þá þessir menn:

Dr. Alexander Jóhannesson (1),

Ásgeir Ásgeirsson kennari (4).

dr. Ágúst H. Bjarnason próf (1),

Barði Guðmundsson (1).

Bjarni Jónsson frá Vogi (3).

dr. Guðmundur Finnbogason (2).

cand. phil. Halldór Jónasson (1).

Magnús Jónsson háskólakennari ... (1),

Matthías Þórðarson fornmenjavörður (6).

dr. Sigurður Nordal próf (1).

Alt eru þetta úrvalsmenn nema sá eini, sem jeg má ekki mæla með. Skal jeg geta þess, að leigan á húsinu, sem vjer höfðum til fyrirlestrahaldsins hjer í Reykjavík, var 75 kr., en aðgöngueyrir var 50 aurar, svo 150 manns þurfti til að borga húsið. Vona jeg svo, að jeg þurfi ekki frekar að mæla með þessari litlu fjárveitingu, og er þess fullviss, að hv. þm. láti sjer ant um, að þetta fræðslustarf þurfi ekki að falla niður.

Þá kem jeg að annari tillögunni. um sjúkrastyrk til handa Jóni Jónssyni hjeraðslækni á Blönduósi. Er þetta í samræmi við styrki, sem veittir hafa verið stundum áður, þegar líkt hefir staðið á eins og hjer, og má t. d. nefna styrkinn til Gísla sýslumanns Sveinssonar. Er líkt á komið með þeim báðum, nema hvað Gísli fór utan til að leita sjer heilsubótar, en Jón gat eigi komið því við sökum fátæktar. Hins vegar fór hann til Reykjavíkur og varð að hafa mann fyrir sig í heilt ár til að gegna embættinu. Nú er hann búinn að segja af sjer, en á mörg börn í ómegð, og er því sjálfsagt gróðavegur að gera eitthvað til að hjálpa honum nú, því annars má búast við, að ríkið verði seinna að veita meiri styrk börnum hans til uppeldis. Stendur hjer líkt á eins og með fleiri, t. d. Gísla Sveinsson. Ara Jónsson, kallaðan Arnalds, og Sigvalda Stefánsson, er nefnir sig Kaldalóns. Hefir þeim öllum verið veittur styrkur eða skaðabætur fyrir að hafa þurft að kosta menn til að gegna embættum sínum, er þeir þurftu að fara frá til að leita sjer heilsubótar.

Þá hefi jeg borið fram tillögu um skaðabætur eða styrk til Kristjáns gestgjafa Jónassonar í Borgarnesi. Var sama upphæðin í fjárlagafrv., en Ed. feldi hana eftir tillögum nefndarinnar. Skal jeg til skýringar þessari beiðni leyfa mjer að lesa upp brjef, sem sveitungar hans hafa sent nefndinni. Það hljóðar svo:

„Eins og kunnugt er, er enn ekkert sjúkrahús til hjer í Borgarnesi, en árlega fara hjer um ekki fáir sjúklingar á suðurleið, og auðvitað ýmsir þeirra með smitandi sjúkdóma.

Sá eini maður, sem undanfarin ár hefir veitt slíkum mönnum viðtöku hjer, er Kristján gestgjafi Jónasson, og hefir hann auðvitað beðið nokkurn halla við slíkt, þar sem menn heldur hlífast við að gista þar, ef þeir vita, að slíkir sjúklingar eru þar fyrir. Á hinn bóginn mundu verða mjög tilfinnanleg vandræði hjer að koma slíkum mönnum fyrir, þó ekki væri nema náttlangt, ef hann hætti að hýsa þá, sem hann hefir haft við orð, ef hann fái ekkert í aðra hönd. Og viljum vjer því undirritaðir mæla sem best með því, að hið háa Alþingi veiti honum styrk til þess að taka á móti slíkum mönnum, þangað til bót verður ráðin á þessum vandkvæðum, með því að koma hjer upp sjúkraskýli eða á annan hátt.

Borgarnesi. 30. apríl 1923.

Guðm. Björnsson,

sýslumaður.

Magnús Jónsson.

oddviti.

Kjartan Ólafsson,

hjeraðslæknir.

Jón Sigurðsson,

Haukagili.

Jón Björnsson,

hreppstjóri.

Hallgr. Níelsson,

Grímsstöðum.

Guðbrandur Sigurðsson,

Hrafnkelsstöðum.

Guðm. Ólafsson.

Lundum.

Davíð Þorsteinsson, Arnbjargarlæk.

Það er með öðrum orðum sýslunefnd og hjeraðslæknir, sem fara fram á þetta. Ætla jeg, að upphæð sú, sem jeg hefi tilnefnt, megi nægja, enda mætti síðar setja inn í fjárlög einhvern minni styrk til þessa manns, ef hann vill halda áfram þessum greiða við ríkið. Vænti jeg þess svo, að hv. deild samþykki styrk þennan og skaðabætur, eins og hún gerði um daginn, einkum þar sem þetta brjef er fram komið frá sveitungum hans.

Jeg skal annars láta óáreittar allar tillögur manna. Einni þeirra vildi jeg þó sjerstaklega leggja liðsyrði. Er hún frá hæstv. forseta og fer fram á, að fje sje veitt til rannsóknar eldgosasvæðanna. Tillögumaður mælti vel og skörulega fyrir þessu, svo sem hans var von og vísa, en jeg vil bæta því við, að vjer höfum nú völ á manni, sem mun sjerstaklega vel fallinn til þessa. Á jeg þar við dr. Helga Pjetursson, sem óhætt er að fullyrða, að sje einhver ágætasti jarðfræðingur, sem nú er uppi. Eru verk hans í þeirri grein þess eðlis, að þau sýna, að þar er forgöngumaður á ferðinni, en enginn sporgöngumaður. Hvar sem hann hefir stungið niður rekunni, hefir hann leitt eitthvað nýtt í ljós. Er það líka vel til fallið, að hann fái þetta viðfangsefni, sem honum mundi verða mjög ljúft að taka að sjer, og auk þess bæta hag hans að nokkru. Annars felst jeg á ræðu hæstv. forseta að öllu leyti of vænti, að tillögu hans verði vel tekið.