01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

139. mál, fjáraukalög 1923

Magnús Jónsson:

Jeg á brtt. á rskj. 491. undir tölulið IV, um ferðastyrk handa biskupi vorum til að sækja biskupafund í Noregi í sumar. Árið 1919 var haldinn stór og merkilegur klerkafundur á Norðurlöndum, og var þar talið æskilegt, að biskupar úr norrænum löndum kæmu saman öðruhvoru til að ræðast við um áhugamál sín og kirkjunnar og kynnast þeim stefnum, sem ríkjandi væru í trúmálunum. Fyrsti fundurinn var haldinn í Svíþjóð 1920 og þótti að ýmsu mjög merkileg samkoma, og var þá ákveðið, að slíkir fundir skyldu haldnir á þriggja ára fresti. Biskup vor gat ekki mætt á þessum fundi, vegna ófyrirsjáanlegra atvika, og hefi jeg sjeð brjef frá erkibiskupi Söderblom í Svíþjóð, þar sem hann harmar mjög, að svo skyldi fara. Nú í sumar verður fundurinn haldinn í Noregi, og hefir biskupi vorum verið boðið þangað, og mælst til þess mjög eindregið, að hann láti ekki hjá líða að koma, svo sem sjá má af brjefum þeim, sem hann hefir lagt fram með beiðninni. Eins og allir vita, eru Norðmenn næsta viðkvæmir í okkar garð og leggja mikið upp úr því, að Íslendingar hafi sinn fulltrúa á fundinum. En það er merkilegt, að enginn íslenskur biskup mun „officielt“ hafa komið til Noregs síðan Jón Arason fór þangað til að fá vígslu.

Jeg mundi nú hafa farið fram á hærri upphæð, í samræmi við samskonar beiðnir frá öðrum mönnum, en biskup vor hefir verið svo hóflegur að nefna aðeins 1800 kr. Horfir hann ekki í, þó hann verði að kosta einhverju til sjálfur. Og því gæti jeg trúað, án þess þó að jeg vilji mæla á móti öðrum samskonar styrkveitingum, sem farið hefir verið fram á við þingið, að önnur sendiför muni ekki hafa meiri þýðingu fyrir land vort en þessi og stuðla frekar að því að sóma vors sje gætt. Og því vonast jeg fastlega til þess, að háttv deild sjái sjer fært að veita þessa litlu upphæð.