01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

139. mál, fjáraukalög 1923

Hákon Kristófersson:

Þegar jeg lít yfir aukafjárlög þau, sem hjer liggja fyrir, verður mjer helst á að óska, að þau hefðu aldrei komið fram. Bera þau ekki alllítinn svip af fjárlögum, og verði allar brtt. háttv. þm. samþyktar, þá sje jeg ekki, hvaða samræmi er í því við þær yfirlýsingar hæstv. stjórnar og hv. þm. um erfiðan fjárhag ríkisins, sem við höfum svo oft fengið að heyra.

Jeg vildi nú leyfa mjer að minnast á örfáar brtt. með nokkrum orðum. Verður þá fyrst fyrir mjer tillaga á þskj. 484, um 10000 kr. styrk til sjúkrahúss og læknisbústaðar á Síðu. Jeg vil nú ekki fara að gerast meinsmaður þessa, enda mælir það því að nokkru leyti bót, að slíkur styrkur er þegar kominn inn í fjáraukalagafrv., og því ekki við öðru að búast en aðrir svipaðir kæmu á eftir. En það, sem mjer finst varhugavert, er það, að blandað skuli vera saman sjúkrahúsi og læknisbústað. Það ætti að vera sundurliðað, því mjer vitanlega er ekkert fordæmi fyrir því, að styrkur sje veittur til byggingar læknisbústaða. En með þessu ætti líka að vera skapað fordæmi, sem nái til allra kjördæma. En samræmisins vegna vil jeg benda á það, að háttv. fjvn. sá sjer ekki fært annað en að leggja á móti styrk til viðgerðar á sjúkrahúsinu á Patreksfirði, sem jeg hafði farið fram á og færði gild rök fyrir, að nauðsynlegur væri. Jeg lái nefndinni raunar ekki þetta, því jeg veit, að það, eins og annað, sem sú nefnd gerir, er sprottið af nákvæmri rannsókn! En þess ætti að vera leyfilegt að krefjast af henni, að hún ljeti alla njóta sama rjettar, en færi ekki eins mikið og hún sýnist gera eftir því, hvort það eru kjördæmi þeirra manna, er sæti eiga í þeirri háttv. nefnd. eða vina þeirra.

Þá er önnur brtt. á sama þskj. frá hv. þm. Ísaf. (JAJ). Jeg get raunar ekki láð háttv. þm., þó að hann komi fram með þessa brtt., þó því verði ekki á móti mælt, að það er hál braut, sem hjer er farið inn á. Enn jeg býst við, að þeir, sem sagt hafa a, þykist eins mega segja b, og á það víst jafnt við í þessu sem öðru.

Þá sannast það hjer, að maður verður oft að gera fleira en gott þykir, því ekki þykir mjer ljúft að mæla á móti brtt. á þskj. 484 undir tölulið XI, frá hæstv. forseta. En jeg verð að segja það, að jeg hefði helst kosið, að hann hefði ekki komið með hana, og er það sökum þeirrar vináttu og virðingar, sem jeg ber gagnvart þessum heiðursmanni. (MJ: Hvers vegna ekki mæta manni?) Nei, jeg segi ekki mætur maður að þessu sinni, því það á ekki við hjer, því jeg hefi stundum tekið eftir því, að það hefir verið lagt út á þann veg fyrir mjer, þegar jeg hefi viðhaft það orð, að hugur fylgdi ekki máli, heldur að jeg meinti eitthvað miður vinsamlegt, og á það þess vegna ekki við gagnvart þessum heiðursmanni, og vil jeg því með orðum mínum ekki gefa tilefni til þess, að þau verði misskilin. En svo jeg snúi aftur að brtt. hæstv. forseta, þá skal jeg láta þá skoðun mína í ljós, að ef við fljótum ekki sofandi að feigðarósi í öðrum málum en þessu, hvað snertir rannsókn á eldgosstöðvunum, þá held jeg, að ástandið í landinu sje ekki eins bágborið og af hefir verið látið. Hæstv. forseti gaf það í skyn í sinni skörulegu ræðu, að framkvæmd þessa máls geti haft mikil og góð áhrif á fjárhag landsins. Og vel má vera, að það væri mjög heppilegt að senda einn eða tvo jarðfræðinga upp í óbygðir til að rannsaka eldgosin, en hitt er ef til vill af skilningsleysi mínu sprottið, að jeg fæ ekki sjeð, að þetta geti haft mikla þýðingu fyrir fjárhag landsins, að minsta kosti ekki í þá áttina að auka tekjurnar. Aftur á móti gæti það orðið álitlegur bitlingur fyrir þann eða þá, sem valdir yrðu til rannsóknanna, en það er það, sem jeg vil telja ljett á metunum.

Háttv. þm. Dala. (BJ) mælti auðvitað með þessari vanhugsuðu tillögu, eins og við var að búast úr þeirri átt. Jeg vil þó minna á það í þessu sambandi, að 1912–13 var heiðursmaður einn sendur til þess að rannsaka gos, er þá var nýafstaðið nálægt Heklu, og er mjer ekki kunnugt um neinn hagræðisávöxt af því, og svipað mundi verða nú, þó slík rannsóknarför yrði farin. Hins vegar get jeg fyllilega undirskrifað það hjá háttv. þm. N.-Þ. (BSv), að engin hreppapólitík komi fram í þessu hjá honum, enda er það ekki vanalegt úr þeirri átt. Annars vona jeg það, að jafnvel þó það sje þessi heiðursmaður, sem flytur till., þá sjái deildin sóma sinn í því að fella hana, því ærið mörg dæmi um miður gætilega meðferð þingmanna á fje ríkissjóðs munu sýnileg bæði í fjárlögum og fjáraukalögum, þó þessi tillaga verði ekki samþykt.

Viðvíkjandi till. á þskj. 491, frá hv. 4. þm. Reykv. (MJ), verð jeg að segja það eitt, að Norðmenn eru þá viðkvæmari í kirkjumálum en verslunarmálum gagnvart okkur, ef það er mjög nauðsynlegt, að þessi till. gangi fram, sem jeg ætla annars hvorki að mæla með nje móti, þó jeg búist hins vegar við því, að eins mikill sparnaðarmaður og hjer á hlut að máli ætti að geta farið þessa umræddu för fyrir minna en 1800 kr.

Þá verð jeg líka dálítið að minnast á I. brtt. á þskj. 491, og er það þó síður en svo, að jeg vilji á nokkurn hátt hrekja ummæli hv. flm. (MP), þó mjer sje það hins vegar ekki ljóst, hvernig einmitt þessi mæti þingmaður, sem mörgum öðrum þm. er kunnugri fjárhag landsins, getur lagt það til að eyða 30 þús. kr. í þetta fyrirtæki, eins og fjárhag vorum er nú varið. Vitanlega sýnist mjer svo stundum, að það hafi ekki áhrif á tillögur sumra þingmanna, þegar þeir eða vinir þeirra eiga í hlut, hve fjárhagur lands og þjóðar er bágborinn. Jeg get annars tekið undir með hv. þm. Borgf. (PO) um það, sem hann sagði um sjúkraskýlið, sem reist var úr Geysishúsinu, að það er nokkuð hart að vera að sækja um styrk til þess nú, eftir það, sem á undan er gengið.

Till. nr. XV á þskj. 484 teldi jeg að ýmsu leyti sanngjarnt að geta samþykt, enda um litla upphæð að ræða. En enn þá minni var þó upphæðin, sem jeg fór hjer fram á handa eftirlifandi ekkju sómamanns eins, sem verið hafði opinber starfsmaður í 40 ár, þó ekki væri kennari; en ekki fann sú till. náð fyrir augum þessarar hv. deildar. Það er aðeins ein af öllum þessum till., sem mjer virðist eiga fullan rjett á sjer, sem sje till. á þskj. 498, þar sem hún eykur ekki útgjöldin, en gerir kyrstöðu um stund á vissu sviði.

Jeg hefi þó einnig allmikla löngun til þess að vera með till. á þskj. 515, frá háttv. þm. Dala. (BJ). Hins vegar er mitt eina þakklæti til hv. fjárveitinganefndar fyrir það, að hún hefir tekið upp styrkveitingu til ungmennaskólans á Núpi. Annars skal jeg ekki fara fleiri orðum um einstakar brtt., en jeg vildi ekki láta málið fara þegjandi fram hjá mjer, svo ekki líti út svo sem væri jeg þessu öllu samþykkur. Annars mun jeg sýna afstöðu mína við atkvæðagreiðsluna gagnvart hinum ýmsu breytingartillögum.