01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

139. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg býst við að sleppa öllum smærri aths., sem komið hafa frá háttv. þm. Háttv. þm. Barð. (HK) skaut því fram út af brtt. frá hv. þm. V.-Sk. (LH), um sjúkraskýli í Síðuhjeraði, að hann efaðist um, að fordæmi væru til fyrir því að styrkja þannig sjúkraskýli og læknisbústaði. Það er ef til vill ekki hægt að segja, að þau sjeu mörg, en jeg man þó í svipinn, að fyrir þessu var skapað fordæmi fyrir nokkrum árum í Húnavatnssýslu og veitt fje til sjúkraskýlis og læknisbústaðar þar. Enda gat háttv. þm. sjeð það á sama blaðinu og þessi till. er á, að nefndin studdi hana með tilliti til áður gefins fordæmis.

Þá var sami háttv. þm. (HK) að undra sig yfir, að jeg, sem væri svo kunnugur fjárhagsástæðum ríkissjóðs, skyldi verða til að bera fram brtt. um 30 þús. kr. fjárframlag til Vífilsstaðahælisins; en jeg vil nú segja háttv. þm. (HK), að því er einmitt svo varið með þetta verk á Vífilsstöðum, að af fjárhagslegum ástæðum leyfist ekki að vanrækja það, til þess að ekki hljótist meira tjón af. Þessi till. er þannig vaxin, að jeg áleit, að hæstv. stjórn gæti ekki komist hjá því að flytja hana sjálf. Hjer er um að ræða svo nauðsynlega endurbót og viðhald á vinnutækjum.

Jeg sleppi öðrum aths., en sný mjer þá að háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Hann talaði alment um frv. og fjvn. í sambandi við það. Hann gat þess, að því er hann sagði, fyrv. fjármálaráðherra (MagnJ) til maklegs lofs, að hann hefði streist á móti því, að borið væri fram fjáraukalagfrv. fyrir þetta ár. Jeg skal nú ekki víkja neinu til hæstv. fyrv. ráðherra (MagnJ) út af því, þar sem hann er ekki hjer viðstaddur. Jeg veit ekki, hvað hann hefir sjeð því til fyrirstöðu, og stjórnin hjelt því þá fram, að engar gjaldaupphæðir lægju fyrir, sem þyrfti að veita fje til. Hann hefir alls ekki sjeð fyrir þær upphæðir, sem hæstv. stjórn hefir nú lýst yfir, að hún þyrfti að greiða á árinu, hvort sem það yrði heimilað samkvæmt fjáraukalögum eða ekki.

Háttv. þm. (JÞ) sagði, að það væri fjárveitinganefnd að kenna, að þetta frv. er fram komið. Jeg skal ekki neita því. Mjer finst eðlilegast, að stjórninni sje ekki heimilt að fara með fje milli þinga á bak við fjárveitingarvaldið.

Þá taldi hann, að fjvn. bæri fram till. til mikilla útgjalda, sem kæmu vegna þess, að þetta frv. er fram komið. Við 2. umr. bar nefndin fram brtt. við frv., er námu samanlagt 55 þús. kr., og meiri hluti þessa voru brtt. við fjárlögin 1924, sem hefðu orðið samþyktar þar. Jeg fæ ekki skilið, að þetta muni neinu, eða hvaða ávinningur það er fyrir ríkissjóð að láta þetta bíða til næsta árs, og villa þannig sýn með því að láta koma fram í næsta árs fjárlögum það, sem ekki á þar heima, en á að koma fram nú og greiðast á þessu ári.

Þá lofaði háttv. þm. (JÞ) fyrv. stjórn fyrir það, að hún hefði ekki lagt fram fjáraukalög á síðasta þingi, og taldi hann það mjög til sparnaðar. Hvað sem um það má segja, þá vita allir, að fjáraukalög komu fram fyrir það ár, 1922, með ca. 222 þús. króna fjárveitingum frá stjórninni. Fjvn. lækkaði það niður í ca. 201 þús. kr., en annars var ekki hægt að hreyfa við þeim, að öðru leyti en því, er þessar tvær upphæðir snertir, sem nefndin lækkaði. Jeg skil ekki, hvað það er betra að samþykkja fjáraukalög eftir á, sem ekkert er hægt að hreyfa og þingið verður að segja já og amen við, heldur en að það geti ráðið ráðum sínum og haft áhrif á einstaka liði áður en upphæðirnar eru greiddar.

Jeg bjóst við, að hæstv. fjrh. (KIJ) mundi svara háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), svo að jeg þyrfti þess ekki, og kom það þess vegna mjög undarlega fyrir, þegar hann fyrir hönd stjórnarinnar tók nú í sama streng og háttv. þm. (JÞ). Hann sagðist aldrei hafa búist við svo miklum útgjöldum í fjáraukalögum. Samkvæmt frv. eru útgjöldin að upphæð ca. 277 þús. krónur, eins og það nú liggur fyrir. Eftir till. stjórnarinnar voru þau ca. 238 þús. kr. Jeg skil ekki, að hæstv. atvrh. (KIJ) þurfi að furða sig á því, þó að bæst hafi við frv. liðlega 30 þús. kr. í meðferð þingsins; það sýnir aðeins mun meiri sjálfsafneitun hjá þingmönnum en stjórninni. Jeg get tæplega hugsað, að stjórnin hafi ætlað sjer að greiða svona mikið fje á milli þinga í heimildarleysi, og furðar þess vegna á því, þegar hún er að tala um, að hún vilji ekki þetta frv. og hafi streist á móti því.

Hvað sem annars má segja um fjvn. í sambandi við frv., þá hefir hún svo breitt bak, að hún þolir að bera ábyrgð á því, sem hún á í þessum lögum. Og jeg hygg, að næsta fjvn. muni eins og þessi halda því fram og beita sjer fyrir því, að fjárveitingavaldið eigi að vera í höndum þingsins, en ekki stjórnarinnar.