07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

139. mál, fjáraukalög 1923

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg á hjer brtt., sem jeg vil víkja lítið eitt að. Fyrst er III. till. á þskj. 556, um að veita yfirlækninum á Vífilsstöðum 2000 kr. styrk til þess að sækja fund berklalækna í Kristjaníu. Styrkur þessi fjell í Nd., en jeg hefi tekið hann upp hjer, því að mjer er það ljóst, að þetta er þýðingarmikið mál. Við höfum nýlega samið berklavarnalög og framkvæmd þeirra kostar okkur um 80–90 þús. kr. árlega, og svo bætist eitthvað við sökum breytinga, sem samþyktar voru nú á þessu þingi. Þessi fundur á að ræða um alt hið nýjasta í löggjöf og heilbrigðismálum viðvíkjandi þessu heimsböli, og það er nauðsynlegt að gefa þessum lækni kost á að fylgjast með í öllu, sem fram fer á þessu sviði. Jeg hefi átt tal um þetta við Sigurð Magnússon. Hann hefir nú í 3 ár kent við háskólann fyrir ekki neitt, sem honum ber engin skylda til. Hann hefir leyft mjer að hafa eftir sjer, að hann fjelli frá kröfu um kenslulaun fyrir þessi ár, og mun það nema um 1800 kr. alls, ef þessi styrkveiting næði fram að ganga.

Viðvíkjandi bílastyrknum, þá hefi jeg leyft mjer að fara fram á, að hann yrði hækkaður um 1000 kr.

Um athugasemdina, sem háttv. frsm. (EÁ) kom með, hvernig verja ætti styrk þessum, get jeg verið sammála, því að það er alveg rjett, að honum skuli verja til hinna raunverulegu þarfa fólksins, bæði til vöruflutninga og nauðsynlegra verkafólksflutninga, en ekki til skemtiferða. Þá mintist háttv.-frsm. (EA) á, að nefndin hefði ekki sjeð sjer fært að fara hærra með styrk þennan en upp í 2000 kr., og honum ætti að dreifa yfir þann tíma, sem ferðirnar stæðu mestar yfir. En mjer finst, að stjórnin ætti að geta haft eftirlit með þessu.

Þá á jeg einnig brtt. á þskj. 556, uni 2500 kr. til að reisa unglingaskóla í Vík í Mýrdal. Jeg hefi flutt till. þessa áður, og var hún þá feld með eins atkvæðis mun. En jeg verð að taka hana upp aftur, af því að mikil nauðsyn er á, að skóli þessi verði bygður. Hann hefir starfað nú undanfarið um nokkurt skeið og náð vel tilgangi sínum, en nú liggur ekkert annað fyrir dyrum en að skólahaldið leggist niður, ef ekki verður bygt, því að undanfarið hefir skóli þessi verið í barnaskólahúsinu En fólki hefir fjölgað svo í kauptúninu, að ekki veitir af barnaskólanum fyrir börn kauptúnsins.

Jeg vænti þess fastlega, að þeir háttv. deildarmenn, sem greitt hafa atkvæði með miklum fjárveitingum til alþýðuskóla annarsstaðar á landinu, greiði einnig atkvæði með þessari litlu styrkveitingu.

Þá á jeg einnig XII. brtt. á áðurnefndu þskj., um 300 kr. til Elísabetar Jónsdóttur, ekkju Pjeturs Guðmundssonar kennara á Eyrarbakka. Jeg hefi borið tillögu þessa fram eftir beiðni þingmanna Árnesinga. Konan, sem hjer er um að tala, er ekkja fátæks manns, sem búinn var að kenna hart nær 30 ár og lætur nú eftir sig ekkju með fjórum börnum. En þannig stendur á, að kona þessi getur ekki fengið nú í ár styrk úr lífeyrissjóði barnakennara og ekkna þeirra, en fær það strax er þetta ár er liðið, eftir þeim lögum, sem nú hafa verið afgreidd frá þinginu. Er því ekki nema um eitt ár að ræða. Jeg vænti því fastlega, að háttv. deild samþykki þessa brtt.