07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

139. mál, fjáraukalög 1923

Björn Kristjánsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 545, sem jeg vil fara um nokkrum orðum.

Í byrjun þingsins sendi hreppsnefndin í Gerðahreppi í Gullbringusýslu beiðni til Alþingis um að veita hreppnum lán, alt að 40 þús. krónum, til langs tíma, til þess að komast úr þeim skuldavandræðum, sem hann er kominn í. Beiðni þessari fylgdi ábyrgð sýslunefndar fyrir alt að 20 þús. kr. Fjvn. Nd. batt sig því við að veita hreppnum af þörfum hans 20 þús. kr., eða helminginn. En þörfin var brýn og hjálpin þurfti að koma fljótt. Líka af því, að af stjórnarinnar hálfu voru engin fjáraukalög lögð fyrir þingið, fyr en svo seint.

Lenti fjárveiting þessi því í fjárlögunum.

Nú er engin önnur leið til, ef hjálpa á hreppnum út úr vandræðum sínum, en að veita honum upp á ábyrgð sýslunnar í viðbót 20 þús. króna lán, sem útborgist á þessu ári. Sýslunefndin hefir nú á yfirstandandi sýslufundi tekið málið til nýrrar yfirvegunar og komist að raun um, að hreppurinn komist ekki af með minna en alt að 40 þús. kr. lán, og gengið í ábyrgðina fyrir þeirri upphæð. Sjálf getur sýslan ekki neitt lagt af mörkum, vegna skulda til vegagerða, sem voru alveg óhjákvæmilegar, þar sem þingið hefir ekki síðan fyrir stríðið sjeð fyrir neinum samgöngum á sjó í sunnanverðum Faxaflóa. Eins og tillagan ber með sjer, er upphæðin ekkert fastákveðin, og hefir stjórnin því fult svigrúm til að ákveða upphæðina, eftir að hún hefir fengið ítrustu upplýsingar, enda er fjárveitingin öll aðeins heimild, en slík lán, samkvæmt eðli sínu, hljóta að ganga fyrir öllum lánum.

Ástandinu í þessum hreppi er lýst á þessa leið:

Að fiskað hafi verið í landhelgi með „Snurrevaad“, svo að telja mætti, að þar væri orðinn eyðisjór af fiski, og í öðru lagi, þá hafi hreppurinn orðið að leggja mjög mikið fje fram til viðhalds vegum í hreppnum, og undir þeirri byrði hafi hann varla getað risið. Þá hafi og jafnframt verið lagðar niður allar samgöngur á sjó þangað suður eftir, svo að hreppurinn hafi jafnframt orðið að sjá fyrir þeim. Einnig hafi garð yrkja ríkissjóðs valdið töluvert miklu tjóni, því að miklu meira land hafi verið skorið upp en þörf varð á til nota. Hafði það því þær afleiðingar, að fleiri jarðir stórskemdust af sandfoki og uppblæstri. Þá er síðast en ekki síst, að sveitarþyngsli sjeu afarmikil; þannig sjeu í hreppnum heimilisfastir 97 vinnandi menn 16–60 ára, 74 gamalmenni yfir 60 ára aldur, 204 börn innan 16 ára og um 100 konur og stúlkur 16–60 ára. Á fátækraframfæri eru 55 börn og 21 þurfamaður eldri. Sumt af fólki þessu er að nokkru leyti á sveitarframfæri, en þó flest að öllu leyti. Það má telja líklegt, að hreppnum yrði bjargað, ef hann fengi nægilega stórt lán. En annars má búast við, að betur stæðu mennirnir flýi bygðarlagið, og þá verður hreppurinn alveg ósjálfbjarga. Í þessu liggur aðalhættan, og því ríður á, að hreppurinn fái nógu stórt lán, og það sem allra fyrst. Jeg vona nú, að háttv. deildarmenn átti sig á því, að það er aldrei nauðsyn, að ríkissjóður hjálpi, ef það er ekki undir svona kringumstæðum.

Þá á jeg enn þá eina brtt., á þskj. 544, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að endurgreiða hlutafjelögunum Víði og Ými í Hafnarfirði tekjuskatt frá 1920, af tekjum þeirra 1918. Eftir skattalögunum frá 1917 og dýrtíðar og gróðaskattslögunum frá 1918 átti að krefjast skatts aðeins af tekjum áranna 1918 og 1919, er greiðast skyldi 1920 og 1921. Að því búnu voru lögin feld úr gildi. Fyrra árið (fyrir 1918) komu þau ekki til framkvæmda að því er fiskiveiðafjelög snertir, nema í einum kaupstað á landinu, Hafnarfirði, og Urðu aðeins þessi fjelög þar að borga þennan skatt. En árið eftir voru þau framkvæmd um land alt. Hverju það var að kenna, að lögin voru ekki framkvæmd fyrra árið nema í þessum eina kaupstað, vil jeg ekki eyða orðum að. Hitt er augljóst, að þessi tvö fjelög voru látin greiða skattinn á öllu landinu, og sjá allir, hversu ranglátt það er. Það er svo ranglátt, að það er hrein vanvirða fyrir þing og stjórn að bæta ekki þessum fjelögum misrjettið að fullu og orðalaust. Til frekari skýringar vil jeg taka það fram, að hjer í Reykjavík voru 12 fiskifjelög, sem áttu samtals 9 botnvörpuskip, og greiddu fjelögin ekki neinn tekjuskatt, sem skipin áttu og gerðu þau út. Þannig átti eitt fjelagið þrjú botnvörpuskip, sem engan skatt þurftu að greiða. En tvö af þessum fiskifjelögum, sem ekkert skip áttu þá, greiddu skatt, af því að þau ráku aðeins verslun með fisk, keyptu og seldu fisk.

Á síðasta þingi sóttu þessi fjelög um endurgreiðslu á þessum skatti, eftir langvint þref við stjórnina um málið, en því var þar ekki sint. Nú vilja fjelögin vinna til þess að tapa meiru en þriðjungnum af þessum skatti, auk vaxtataps í 2 ár, ef endir gæti með því móti bundist á málið. Að öðrum kosti eru fjelögin staðráðin í því að leita aðstoðar dómstólanna og krefjast allrar upphæðarinnar með vöxtum, og það því fremur, sem skattur annars fjelagsins, þess, sem meira greiddi, var beint skakt útreiknaður, fjelaginu í óhag. Jeg vænti þess nú, að hin háttv. deild sýni það með atkvæðagreiðslu sinni í dag um þetta mál, að hún vilji sýna fjelögum þessum fulla sanngirni, og hún vilji, að allir sjeu jafnir fyrir lögunum.