07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

139. mál, fjáraukalög 1923

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg á hjer enga brtt. sjálfur, en ætla þó að fara nokkrum orðum um sumar þær brtt., er hjer liggja fyrir. Er þá fyrst sú, sem síðast var talað um. Það er alveg rjett hjá háttv. flm. (BK), að árið 1920 var þessi tekjuskattur hvergi innheimtur af hlutafjelögum, nema í Hafnarfirði, en af hvaða ástæðum, veit, jeg ekki glögglega. En víst er það, að báðir fyrv. fjármálaráðherrar (MG og MagnJ) hafa neitað að endurgreiða skatt þennan. En þótt ekki sje hjer um neina lagakröfu að ræða virðist mjer vera sanngjarnt að endurgreiða þennan skatt, úr því hann hefir verið látinn óinnheimtur alstaðar annarsstaðar.

Þá er lánið til Gerðahrepps. Það er rjett hjá háttv. þm., að hefði fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár verið lagt fyrir þingið í þingbyrjun, þá hefði lán þetta eingöngu átt að takast upp í það. En verði það nú líka samþykt í fjáraukalögunum, þá lít jeg svo á, að þær 20 þús. kr., sem í fjárlögunum standa, eigi að falla burt þar, því að búast má við, að hreppurinn geti seint, og jafnvel aldrei, endurgreitt þessar 20 þús. kr., sem hjer er um að ræða, og því síður ef bætt yrði við öðrum 20 þús. En jeg skal viðurkenna það, að óumflýjanlegt er að styrkja hrepp þennan, eins og nú standa sakir.

Þá er það ein brtt. á þskj. 556, um styrk til bílferða. Mjer heyrðist á háttv. 2. þm. Rang. (GGuðf), að hann ætlaðist til, að styrkurinn til þessara bílferða yrði veittur í því skyni, að fólki yrði ódýrara að ferðast hjeðan úr Reykjavík og austur yfir fjall. En jeg hefi hjer ítarlegt brjef frá vegamálastjóra um þetta, þar sem hann tekur það fram, að hann sje því meðmæltur, að bílferðir austur sjeu styrktar, en ekki til mannflutninga, heldur vöruflutninga, því hann álíti, að ekki sje þörf á að styrkja bílferðir til mannflutninga. Hins vegar verð jeg að álíta, eftir athugasemdinni við liðinn, að stjórnin hafi nokkuð frjálsar hendur til þess að gera það, sem hún álítur heppilegast í þessum efnum, og styrkja bæði mannflutninga og vöruflutningaferðir austur. Jeg tók þetta fram, af því mjer skildist á háttv. 2. þm. Rang. (GGuðf), að hann hafi aðallega eða jafnvel eingöngu átt við mannflutningabílferðir.

Á þskj. 577 á hv. 2. landsk. þm. (SJ) eina brtt., sem fer fram á mjög litla upphæð, og tel jeg sjálfsagt að samþykkja hana, samræmisins vegna.

Þá á háttv. 5. landsk. þm. (JJ) á sama þskj. 2 brtt. um, að lagðir verði tveir nýir símar, sem munu kosta samtals yfir 40 þús. kr. Jeg verð að segja, að jeg á bágt með að tala á móti símalagningum, en því er ekki að neita, að það kæmi undarlega út, ofan á alt saman, ef símar, sem eru taldir miklu nauðsynlegri þó en þessir, skuli ekki vera lagðir fyr en 1924, og þó með skilyrði, en þessir 1923. Jeg er líka hálfhræddur um, að fleiri muni þá á eftir koma, bæði hjer og í háttv. Nd. Jeg ætla mjer ekki að mæla beint á móti því, að þessir símar verði samþyktir, en jeg er skyldugur að geta tveggja símskeyta, sem jeg hefi meðtekið frá hlutaðeigandi sýslumanni, þar sem óskað er eftir síma frá Egilsstöðum til Brekku í Fljótsdal. Hjer liggja því fyrir bein tilmæli frá hlutaðeigandi hjeraði um, að sími verði lagður. En, sem sagt, skal jeg engan dóm á leggja, hvað rjett sje að gera í þessu, en býst aðeins við, að ef þetta verður samþykt, þá muni fleira svipað koma á eftir. Jeg finn svo ekki ástæðu til að tala um fleiri liði, og það, sem jeg hefi sagt. hafa aðeins verið upplýsingar.