07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

139. mál, fjáraukalög 1923

Karl Einarsson:

Jeg á tvær brtt. á þskj. 556, IX. og XIV. lið. Með brtt. IX. er farið fram á, að landið leggi til 1/3 kostnaðar við byggingu bátabryggju í Vestmannaeyjum. Í hitt eð fyrra var ákveðið að byggja þar nýja bátabryggju, er kosta átti 36 þús. kr. eftir áætlunum, sem bæjarstjórnin hafði fengið frá verkfræðingi. Nú er búið að byggja rúmlega hálfa bryggjuna, og hefir það kostað ca. 17500 kr. Þótt hún komi nú að nokkrum notum, þá þarf hún að lengjast og fullgerast. Það sem farið er fram á, eða 12000 kr., er aðeins það, sem venjulegt er að veita undir sömu kringumstæðum. Enda þótt þetta fje, ásamt því, sem farið er fram á í hinni breytingartillögu minni, væri veitt, þá munu Vestmannaeyjar þola vel samanburð við önnur hjeruð landsins, er um fjárveitingar þangað er að ræða og tekjur ríkissjóðs þaðan.

Um hinar fimm þúsundirnar er það að segja, að það varð að breikka steinbryggjuna á stóru svæði, og af því stafar sá viðbótarkostnaður. Það var gert eftir fyrirsögn Monbergs, og var verkinu lokið á 11/2 mánuði og ágætlega af hendi leyst.

Þá er XIV. brtt., um styrk til björgunarfjelags Vestmannaeyinga, til að standast kostnað við aðgerð á Þór að 2/3 hlutum. Eins og menn muna, þá brotnaði þetta skip mjög mikið í óveðri hjer í vetur 14. janúar. Slitnaði frá skipabryggju hjer og rak inn í Laugarnsfjöru. Kostnaðurinn við aðgerðina verður mjög mikill. Eftir venjulegri reglu á eigandi skipsins að borga 1/3 af öllu því, sem er endurnýjað að öllu eða einhverju leyti. En reynslan sýnir, að þetta reynist venjulega þý alls kostnaðar við aðgerðina, og þar sem hann er áætlaður alt að 90 þús. kr., þá ber fjelaginu að greiða alt að 30 þús. kr.

Eins og hv. deildarmönnum er kunnugt, gengur Þór frá Vestmannaeyjum nokkurn tíma á ári, og hefir bæjarsjóður Vestmannaeyja ætíð lagt skipinu meira fje en ríkissjóður yfir þann tíma, og þar að auki greitt tekjuhalla af útgerðinni, sem eitt sinn nam um 40 þús. kr., og greiddi þar að auki allan útgerðarkostnað árið 1920.

Aftur á móti hefir ríkissjóður greitt allan kostnað af skipinu, þegar það gegnir störfum fyrir önnur sveitarfjelög, eins og t. d. síðastl. sumar.

Hingað til hefi jeg ekki mætt öðru en vinsemd og hjálp af hendi þingmanna í þessu máli, og vænti enn hins sama, og vona því, að háttvirt deild samþykki tillögu þessa.

Jeg vil minnast á eina brtt. á þskj. 556, um styrk til yfirlæknisins á Vífilsstöðum til að sækja fund berklalækna, 2000 kr., frá hv. 2. þm. Rang. (GGuðf). Jeg álít, að hv. Nd. hafi hvorki sýnt framsýni nje fyrirhyggju í svo þýðingarmiklu máli, þegar hún feldi slíka till., og á sama fundi í þeirri hv. deild var einnig felt að verja dálítilli upphæð til að kaupa fyrir þvottatæki handa hælinu. Menn verða að gæta að því, að hjer er um afarmikilvæga stofnun að ræða, sem líf og heilsa margra manna er undir komin, og má því engan veginn horfa i smáupphæðir, sem verja á til þess, að hún megi koma að sem bestum notum. Það er gefið, að yfirlæknirinn mun sjá og heyra hið nýjasta, sem fram hefir komið viðvíkjandi lækningaaðferðum, og jafnvel hvernig koma megi fyrir fjárhagshliðum berklavarnanna. Og þar sem læknirinn er skýr og gætinn maður, mun hann áreiðanlega einungis flytja hingað heim það, sem rjettast er og sannast í nýjungunum og má að sem bestu gagni verða hjer heima. Væri því fje áreiðanlega vel varið, sem gengi til kostnaðar þessa ferðalags hans.

Í fljótu bragði er vandamál að gera upp á milli þeirra brtt., sem hjer liggja fyrir. Allflestar eru þær brtt. sjálfsagðar, sem fara fram á fjárframlög. Spurningin er sú, hverju fresta megi. Hins vegar finst mjer allar niðurskurðartill. frekar til hins lakara.